11.05.1938
Neðri deild: 74. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 1411 í B-deild Alþingistíðinda. (2073)

137. mál, hitaveita í Reykjavík

*Sveinbjörn Högnason:

Ég vil ekki láta hjá liða að svara nokkrum orðum þeim ummælum, sem hv. 8. landsk. og hv. 6. þm. Reykv. viðhöfðu hér í deildinni áðan um árásir okkar hv. 2. þm. Skagf. á Sjálfstfl. út af undirbúningi hitaveitunnar. Hv. 4. þm. Reykv. hrósar sér óendanlega mikið af þessu hitaveitumáli, með öllu því skrumi, sem hann hefir sagt um það mál, síðan hann kom heim úr sínu 7 landa ferðalagi. Eða voru þau ef til vill aðeins 6? En síðan hefir hann verið kallaður lánlausi borgarstjórinn. Það er alveg rétt; óendanlegt lánleysi hefir fylgt allri meðferð þessa máls. Sjálfstæðismenn hafa viljað eigna sér öll afskipti af því frá upphafi, og með þessari framkomu sinni hafa þeir hleypt hita í málið og hindrað, að það kæmist til framkvæmda. Jafnvel nú, þegar þetta lánleysi er sýnt og sannað, ætlast þeir til þess, að Alþ. samþ. tafarlaust ábyrgðarheimild fyrir ríkið á 7 millj. kr. lántöku, því að án slíkrar ábyrgðar myndi alls ekki verða unnt að framkvæma verkið. Þeir viðhöfðu stór orð áður, en nú, þegar þeir biðja um þessa ríkisábyrgð, nota þeir skynsamlegri aðferð, enda sér hver maður, að þeim færist illa að hampa stóryrðunum nú, eftir allt, sem á undan er gengið. Ef Sjálfstfl. skýrði frá því hvernig undirbúningur þessa máls hefir mistekizt fyrir honum, og játaði, hvernig nú er komið málinu, myndum við framsóknarmenn ekki segja margt við því. Við getum ekki gert að því, þótt staðreyndirnar séu svívirðileg árás á þann flokk og þeirra stefnu. Það er leiðinlegt, þegar staðreyndirnar eru svona ljótar, en þeir, sem finnst sér svívirðing gerð, ef við lesum afstöðu þeirra til málsins úr hlöðum Sjálfstfl. fyrir nokkrum mánuðum síðan, geta kennt sér einum um. Æskilegt hefði verið að gera ekki deilumál úr því. það verður samt nógu miklum erfiðleikum bundið að koma hitaveitunni áfram. En þessi ummæli í blöðum Sjálfstæðisfl. hafa hleypt bita í málið og valdið hinni mestu töf á öllum framkvæmdum. Það er líka merkilegt, að þessir menn, sem eru sí og æ að fjargviðast í blöðum sínum út af gjaldeyrisláninu, sem er þó bara að breyta erlendum lánum, en ekki að taka ný lán, að þeir skuli sækja það eins freklega eins og þeir gera, að fá allt þetta lán erlendis, og þykir það meira að segja svo sjálfsagður hlutur, að þetta sé samþ. á einum degi og án þess að nokkur segi neitt. Í fjhn. fengum við ekki ráðrúm til að atbuga þetta 7 millj. kr. lán nema sem svaraði einum hálftíma. Það er von, að hv. flm. hlæi yfir því, hversu óskaplega ómyndarlega og klaufalega þetta mál er undirbúið. Það er ekki nema til að hlæja að því. Það er komið út fyrir þann ramma, að vera alvarlegt. (ÓTh: Hvað vorum við lengi með 12 milljónirnar?) Við vorum kannske ekki lengi með þær. En það er langt síðan það mál kom fram. Og ég held, að ég hafi spurt hv. þm. G.-K. nokkuð marga daga í röð að því, hvort hann væri tilbúinn að taka ákvörðun um málið. Það var nokkuð marga daga í röð, sem ég rak eftir málinu. Ég veit, að hann er maður til að viðurkenna þetta, þótt bann sé, eins og hver maður veit, ákaflega fljótfær. En honum fyrirgefst það, af því að það er eiginleiki, sem honum er áskapaður.

Margt er einkennilegt, sem hv. 6. þm. Reykv. segir, eins og t. d. það, að Reykjavík standi að öllu leyti betur fjárhagslega heldur en ríkið. Til hvers er Reykjavík að biðja ríkið um ábyrgð? Ef það er satt, sem Morgunblaðið sagði 7. des., að Reykjavík stæðu allir vegir opnir til að fá lán, en að það væru 3 ár síðan ríkið hefði glatað sinn trausti, svo að útilokað sé, að það fái lán. Til hvers er þá Reykjavík að biðja ríkið að hjálpa þessu ákaflega auðuga bæjarfélagi, sem er fyrirmynd allra bæja? Það er alveg eins og það séu hálfvitar. sem halda fram svona röksemdafærslu, og Alþingi ekki á nokkurn hátt samboðin.

Þá sagði hv. þm. ennfremur, að gætt hefði verið hins mesta öryggis í undirbúningi þessa máls, og að það hefði verið undirbúið í mörg ár af reyndum og þaulvönum verkfræðingum. Eftir því, sem mér er kunnugt, hefir við það fengizt verkfræðingur, sem er nýkominn frá prófborðinu svo að segja, með enga verklega þekkingu eða reynslu í þessu efni. Og það var ekki fyrr en á síðustu stundu, að fenginn var erlendur maður að líta á þetta. Meira að segja, þeim eina erlenda manni. sem hafði einhverja verulega þekkingu, var ekki sýndur nema þessi eini staður.

Þá staðhæfði hv. 6. þm. Reykv., að maður sýndi óvild til málsins, ef maður leyfði sér að hafa skoðun á því. Þetta er harla óviturlega og illa með farið, eins og vænta mátti af þessum hv. þm. Þar kemur fram alveg sama hugsunin og þeir alltaf hafa látið koma fram, að þeir sjálfstæðismenn einir eigi þetta mál. Þeir hafa undanfarið gumað feiknalega af fjárhagsafkomu Reykjavíkur og gert lítið úr lánstrausti landsins, og ekki hlífzt við. Allt þetta hafa þeir orðið að éta ofan í sig. Og nú kemur meira að segja yfirlýsing um það, að Reykjavíkurbær sé það verr stæður en önnur bæjarfélög, að bað megi ekki gera sömu kröfur til hans um að leggja fram fé eins og til annara bæjar- og sveitarfélaga í landinu. Ég sé ekki, hvað hægt er að koma með öllu ömurlegri yfirlýsingu um fjárhag bæjarfélags en þessir menn hafa gert.

Þá sagði hv. 6. þm. Reykv. það ennfremur, að framsóknarmenn hafi framið þingrofið 1931 til þess að koma í veg fyrir, að Sogsvirkjunin fengi ríkisábyrgð. Mér heyrðist nú, að í kosningunum 1931 væri verið að ræða eitthvað annað en Sogsvirkjunina sérstaklega. A. m. k. minnir mig, að formaður Sjálfstfl. hafi talið, að það væri annað, sem riði meir á að framkvæma þá — þegar þeir tóku höndum saman, hv. utanflokkamaðurinn, sem nú er, en þá í Alþfl., hv. 3. þm. Reykv., og hv. þm. G.-K. —, þá var það ekki til að koma á Sogsvirkjuninni, heldur var það annað, sem okkur er sjálfsagt öllum kunnugt. Það þýða því ekkert slíkar blekkingar. En ég vil þá benda á það, að Sogsvirkjunin var svo herfilega illa undirbúin árið 1931, að það var stórlán fyrir fyrirtækið, að ekki skyldi vera samþ. lánsheimild á því ári. Það var allt önnur áætlun, sem þá átti að gera. Það átti að steypa feiknamikið sementsbákn, til þess að koma fyrir sem mestu af sementi, og grafa göng í gegnum fjallið, kílómetralöng. Þegar sérfræðingar, sem fengnir voru til landsins, fóru að athuga þetta, töldu þeir hina mestu vitleysu á ferð. og nú var tekið til að vinna á þeim grundvelli, sem hefir reynzt hinn bezti og öruggasti.

Ég skal ekki orðlengja meira um þetta að þessu sinni, en víkja að orðum hv. 6. þm. Reykv., að við hefðum þurft að taka gjaldeyrislán vegna óreiðu. Ég held, að fáum farist síður að tala um óreiðu í fjármálum heldur en þeim, sem staðið hafa að ýmsum fyrirtækjum, sem hafa þurft að fá hvert lánið á fætur öðru, og þarf nú að semja sérstök l. fyrir um að létta sköttum af þeim, og verður þó ekki vitað, hvort nokkurntíma komist á sæmilegan grundvöll. Þegar þessir menn eru að núa mönnum um nasir óreiðu, mönnum sem hafa haldið í horfinu hér á landi og meira á þessum mestu erfiðleikatímum, sem hafa komið yfir, þá finnst mér vera komið langt út yfir þau takmörk, að hægt sé að ræða með neinni alvöru a. m. k. við slíka málafylgjumenn. Ég vil segja hv. 6. þm. Reykv. það, að ég mun ekki skorast undan hvorki nú — þótt það taki einhvern tíma frá okkur í nótt — né hvenær sem er, að ræða við hann um viðhorf Sjálfstfl. og Framsfl. til þessara mála. fjárhagsmála og lántaka. Og ég vil segja honum það, að ég veit, að hans hlutur og hans flokksmanna verður því erfiðari, því lengur sem hann reynir að halda þeim umræðum áfram.