11.05.1938
Neðri deild: 74. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 1418 í B-deild Alþingistíðinda. (2081)

137. mál, hitaveita í Reykjavík

*Sveinbjörn Högnason:

Hv. 8. landsk. sagði, að ég talaði lítið um málefnið, og vildi sýna, hvað hann væri mér miklu fremri, með því að tala um 10 ára gamalt dósentsmál. Ég held, að varla sé hægt að fara lengra frá málefninu, sem fyrir liggur. Ég vil segja hv. 8. landsk., að þó að hann, meðan hann var ungur og tiltölulega óspilltur, hafi getað haldið á réttu máli, er það ekki sönnun þess að hann sé nú á réttum grundvelli. Og mun enginn maður eftir þann feril, sem hann á að baki sér, treysta því, að hann sé færari nú til að vanda um spillingu. Harma ég þetta mjög og vildi óska, að hann væri aftur orðinn ungur og saklaus.

Um ræðu hv. 6. þm. Reykv. vil ég segja það, að það er varla, að ég geti fengið mig til að reyta í burtu allan þann óþrifnað. Það var líka bersýnilegt, að þar var komin uppgjöf með öllu. Hv. þm. segir, að vegna þess að ríkisstj. vilji taka gjaldeyrislán, séu aðrar lánveitingar í hættu. En frv. ríkisstj. var ekki komið fram, þegar borgarstjóri fór utan í vetur og fékk ekki lán. Enda hefir ekki annað verið tilgangur Sjálfstfl. frá upphafi en að fá trúgjarnt fólk til að trúa því, að þeir gætu komið þessu í framkvæmd. Það var einmitt það, að þeir þörfnuðust slíkrar trúar frá fólkinu í kosningunum í vetur. Þessi trú hefir nú reynzt falstrú og verður ekki heldur langlíf.

Ég skal ekki fara um þetta fleiri orðum. Það hefir naumast komið fram fleira í þessum umr. en ég er búinn að svara. Það er svo ömurlegt ástand þeirra manna, sem vilja fara með þetta mál, að ég er farinn að vorkenna þeim, hvernig sú aðstaða er orðin. Og ég held, að þeim sé bezt, hv. 6. þm. Reykv. og hans flokksbræðrum, að framkoma þeirra félli sem fyrst í gleymsku og mosa.