11.05.1938
Neðri deild: 74. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 1420 í B-deild Alþingistíðinda. (2084)

137. mál, hitaveita í Reykjavík

*Pétur Halldórsson:

Ég vona, að flestir hv. þdm., aðrir en hv. 2. þm. Rang., hafi skilið, á hvern hátt hið nýja, stóra gjaldeyrislán stendur í sambandi við ríkisábyrgð fyrir þessu láni, en samt er rétt að endurtaka ástæðuna fyrir því, að l. um gjaldeyrislánið gera ríkisábyrgð fyrir þessu láni nauðsynlega.

Gjaldeyrisráðstafanir eru til að tryggja það, að hægt sé að standa í skilum með vexti og afborganir af opinberum skuldbindingum. En gjaldeyrislántakandi bendir á, að þessar ráðstafanir séu ekki nógar, séu ekki trygging fyrir því, að hægt sé að standa í skilum um samningsbundnar afborganir. Þá kemur að því, að sú trygging, sem áður var fengin frá bönkunum, verður að vera sem öruggust, en engin trygging getur verið öruggari en ríkisábyrgð. Þar að auki hefir annað gerzt nú síðustu vikurnar, sem spillir almennri tiltrú á þjóðfélagi voru, sem sé, að í Bretlandi er látin fara fram athugun á ógreiddum skuldum Íslendinga. Það gerir þessar ráðstafanir enn nauðsynlegri.

Ég skal taka það fram, að láni til hitaveitunnar með ríkisábyrgð hefir ekki verið neitað, og þegar ég kom frá Svíþjóð í fyrra mánuði, hafði ég von um að fá har lán án ríkisábyrgðar. Því segir í grg. frv., að ýmislegt hafi komið fram síðan, sem hendi á, að ríkisábyrgð sé nauðsynleg.

Ýmsir ræðumenn hafa sagt, að undirbúningur að þessu máli væri ónógur. Það má kannske segja, að hv. þm. séu ekki nógu kunnugir þeim undirbúningi, sem gerður hefir verið, eða ráðstöfunum til útvegunar lánsfjárins. Ég veit, að á því atriði eru byggðar miklar árásir til mín og meiri hl. bæjarstj. Rvíkur. En ég vil benda á, að undirbúningur er þó svo góður, að verkfræðingum frá Bretlandi fannst hann nægilegur, og ég vænti, að sænski verkfræðingurinn segi það sama.

Þá vil ég bara, vegna orða hæstv. fjmrh., segja þetta: Hann fór hörðum orðum um mig og meðferð mína á málinu, fyrir að ekki var leitað samþykkis bæjarstj. Rvíkur fyrst. En vill hæstv. ráðh. hugleiða, hvort sé réttara að samþ. fyrst heimildina og taka svo lán með hvaða kjörum sem bjóðast, eða að leita fyrst hófanna um kjörin og leita síðan samþykkis á þeim. Ég vona, að ráðh. reki sig aldrei á mismuninn á þessu, en hann er til.