27.04.1938
Neðri deild: 55. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 1451 í B-deild Alþingistíðinda. (2164)

Þingseta varaþingmanna

*Sveinbjörn Högnason:

Ég vil aðeins spyrja hæstv. forseta um það, hvort hv. 4. þm. Reykv. hefir tilkynnt slík forföll, sem rætt er um í kosningalögunum og gefa varamanni rétt til að setjast í sæti þm. á þingi; því að ef svo er ekki, þá vil ég benda hæstv. forseta á, að ég hygg, að það sé mjög vafasamt, hvort atkvgr. hér í þinginu, sem veitur kannske á atkv. þessa varamanns, sem ef til vill situr ólöglega á þingi samkv. ákvæðum kosningal., er gild og hvort lög, sem afgr. eru frá þinginu, ef það er ekki gegn fyrirmælum kosningal., hafa gildi í okkar þjóðfélagi. Mér skilst, að hv. 4. þm. Reykv. hafi ekki tilkynnt forföll vegna veikinda eða fjarveru, því að heim er hann kominn, og ég veit ekki til, að það sé annað, sem geti réttlætt það, að varamaður taki sæti þm.

Þó að ekki sé um lengri tíma að ræða en til föstudags, þá er það nóg, því að það standa fyrir dyrum mikilsvarðandi atkvgr., og ég held, að það sé ekki á það hættandi, að þær verði ógildar vegna þess, að í þeim taki þátt menn, sem í raun og veru hafi ekki umboð til að sitja lengur á þingi.

Ég tel því óumflýjanlegt, að hæstv. forseti úrskurði, hvort þátttaka varamanns sé gild í atkvgr. undir þessum kringumstæðum, og mér skilst. að ef farið er inn á það að viðurkenna annað en þau fyrirmæli, sem standa í kosningalögunum, þá sé komið inn á svo háskasamlega braut fyrir þingið, að það væri vafasamt, hvort réttmæti fylgdi þeim samþykktum, sem gengju út frá Alþ. eftirleiðis.