07.04.1938
Neðri deild: 43. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 32 í C-deild Alþingistíðinda. (2294)

7. mál, vitabyggingar

*Bergur Jónsson:

Ég hefi ekki miklu að svara, því að flest það, sem fram hefir komið bjá hv. þm., er út í hött sagt.

Hv. 7. landsk. fannst það einkennilegt, sem ég sagði um það, að mér þætti eðlilegt, að hann sem vitamálastjóri væri harðari á kröfunum en sem alþm., þar sem um er að ræða, hversu mikið bolmagn ríkissjóður hefir, og hversu mikið hann getur lagt til einstakra framkvæmda. Það er enginn ágreiningur milli mín og þessa hv. þm. um það, að nauðsynlegt sé að gera sem mest að því, að gera siglingarnar sem öruggastar. með því að byggja vita og ljósmerki. Það, sem hér er um að ræða, er það, hvort breyta eigi l. þannig, að ef fjárveitingavaldið veitir minna til vitabygginga og viðhalds á einhverjum tíma, þá eigi það á hættu, að um það séu höfð stór orð, að l. hafi verið brotin með því að fremja ekki svo ábyrgðarlausan hlut, að leggja meira en hægt er í þessa hluti. Ég veit, að hv. 7. landsk. veit vei, að ég hefi hér rétt fyrir mér.

Hv. 5. landsk. talaði um það, að ég hefði sýnt sérstakt ábyrgðarleysi, ekki aðeins í þessu máli, heldur og í sambandi við frv. til l. um breyt. á l. um atvinnu við siglingar. Hv. þm. getur sparað sér að tala um þetta, þangað til málið kemur á dagskrá.

Þá talaði hv. þm. Borgf. Hann talaði um, að það væri sama og stela fé úr sjálfs sin hendi, ef vitagjaldinu væri ekki öllu varið til vita- og ljósmerkjabygginga árlega. Ég vil benda þessum hv. þm. á, að hann hefir átt sæti í fjvn. í fjöldamörg ár og engan ágreining gert út af þessu. Hv. þm. ætti fyrst að gera grein fyrir þeirri afstöðu, sem hann hefir haft þar, áður en hann fer að tala um, að Alþ. hafi stolið úr eigin bendi með því að verja ekki öllu vitagjaldinu á hverju ári eingöngu til vitabygginga.

Þá sagði hv. þm., að hér ætti að hafa sömu regluna eins og með hafnargerðir. Ég geri ráð fyrir, að við séum sammála um, að rétt sé að veita til hafnargerða eins og l. standa til, eða þegar fé er veitt til þess á fjárlögum. En hv. þm. Borgf. ætti ekki að gera sig sekan í slíkri rökvillu, að bera saman framkvæmdir, þar sem ekkert sérstakt gjald til ríkissjóðs liggur til grundvallar, og framkvæmdir, þar sem sérstakt gjald er um að ræða. Ég er hv. þm. sammála um, að til vitamála sé yfirleitt veitt það, sem fjárlög hvers árs ákveða. Og þegar við erum sammála um þetta atriði, þá erum við í raun og veru sammála um það, sem verið er að deila um. Stóryrði hv. þm. eru því nánast meiningarlaus, því að við viljum láta standa áfram í l., að það skuli fara eftir fjárveitingum hvers árs, hvað mikið er árlega lagt til vitamála. Við viljum láta fjvn. og Alþ. athuga í hvert skipti, hversu mikið ríkissjóður sér sér fært að leggja fram í þessu skyni.

Ég geri ekki ráð fyrir að taka aftur til máls við þessa umr., en ég vona, að hv. dm. sjái það, að af hálfu andstæðinga þessarar brtt. er aðeins um misskilning að ræða. Meining okkar flm. er einungis sú, að samræma h, auk þess sem við viljum hindra að ábyrgðarlausir andstæðingar geti núið stj. því um nasir, eins og hv. þm. Borgf. lét sér um munn fara, að hún hefði stolið fé úr eigin hendi, ef Alþ. á einhverjum tíma veitti ekki eins mikið fé til vitamála og vitagjöldin kynnu að nema. Þó að þetta gjald sé kallað vitagjald, er ekki þar með sagt, að upphæð þess sé alltaf í samræmi við þær framkvæmdir, sem nauðsynlegar eru í þessum málum.