21.02.1938
Neðri deild: 5. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 47 í C-deild Alþingistíðinda. (2321)

8. mál, greiðsla verkkaups

Einar Olgeirsson:

Herra forseti! Það ætti ekki að vera þörf á að ræða frv. þetta frekar, því að það liggur í augum uppi, hversu sanngjarnt það er í alla staði. Eru nú liðin um 40 ár síðan mál þetta var fyrst flutt á þingi, og var það þá borið fram af beztu mönnum gamla Sjálfstfl., en síðan hefir samskonar frv. verið flutt af Jóni Baldvinssyni.

En með tilliti til þeirra horfa, sem mér virðast vera um afgreiðslu mála á þessu þingi, vildi ég mega segja nokkur orð. Stærstu flokkarnir hér eru stöðugt að tala um nauðsynina á því að vernda þingræðið og skapa virðingu fyrir því. Blöð þeirra endurtaka þetta í sífellu. En þó er almennt álitið, að virðingunni fyrir Alþingi fari hnignandi með þjóðinni. Líklega er það ekki sízt af því, að það er yfirleitt orðinn siður að ræða ekkert mál til hlítar hér á Alþingi. Ef fram kemur mál, sem ekki er beint einkahagsmunumál ákveðins flokks eða flokka, láta hv. þm. það yfirleitt afskiptalaust og vísa því til n. Öll mál eru svæfð í n., sem ekki hefir verið sérstaklega umsamið af stjórnarflokkunum. að fram skuli ganga. Verða því yfirleitt litlar sem engar umr. um þau mál, sem ekki hefir verið ákveðið fyrirfram, að afgreiða skuli. Þetta orsakar auðvitað það, að áliti Alþingis hnignar.

Áður fyrr var hægt að bera fram á Alþingi almenn nauðsynjamál, og þau voru þá rædd. Var það álit manna, að n. ættu að vera til þess að athuga málin enn frekar, en ekki til þess eins að svæfa þau. Menn fylgdust þá og betur með umr. Hér á pöllunum voru allmargir áheyrendur, og fulltrúar frá blöðunum hlýddu þá yfirleitt á umr. Þá var það líka venja, að flestir þm. mættu á þingfundum. En á síðasta þingi voru oft og tíðum ekki fulltrúar blaðanna mættir, og mörg blöðin fluttu naumast fréttir af því, sem gerðist á þingi. Nokkrar hræður sáust á pöllunum, en fundarsókn hv. þm. var svo slæleg, að oft var vart unnt að greiða atkv. Ef þessu heldur svo áfram, eru hv. þm. sjálfir að leggja skerf sinn til þess að rýra álit Alþingis.

Það er nauðsynlegt, að mál þau, sem koma fram á þessu þingi, m. a. frv. okkar kommúnista, verði rædd ýtarlega, að þau komi úr n. í tæka tíð, ef ekki á að gera leik að því að rýra álit Alþingis enn meira en orðið er. Ef hv. þm. skeyta ekki meira um þau mál, sem fram eru lögð, en verið hefir að undanförnu, er ekki von, að þjóðin liti með virðingu til þessarar stofnunar. Ættu allir flokkar að geta verið sammála um að bæta úr þessu.

Ég vildi taka þetta fram nú í upphafi þingsins, því að mitt álit er, að þetta geti ekki lengur svo til gengið, ef Alþingi á að halda þeirri virðingu, sem nauðsynlegt er, að fyrir því sé borin lýðræðisins vegna.