04.04.1938
Neðri deild: 40. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 94 í C-deild Alþingistíðinda. (2377)

39. mál, efnahagsreikningar

Frsm. meiri hl. (Sveinbjörn Högnason):

Eins og nál. ber með sér, hefir allshn. klofnað um málið og skilað áliti í tvennu lagi. Minni hl. leggur til, að frv. verði fellt, en meiri hl. leggur til, að það verði samþ. með þeim breyt., sem fylgja nál. — Er 1. brtt. um, að upphaf 1. gr. frv. orðist svo: „Hlutafélög, samvinnufélög, önnur félög, fyrirtæki bæjar- og sveitarfélaga og einstaklingar, sem reka verzlun, útgerð, iðnað eða aðra atvinnu, eru bókhaldsskyld og skulda bönkum og sjóðum hér á landi samtals 100000 krónur“, o. s. frv. B.-liður sömu brtt. fer fram á það, að aftan við sömu gr. bætist ákvæði um, að reikningum skuli fylgja vottorð skattanefndar (í Reykjavík skattstofu) um, að þeir séu í samræmi við skattaframtal. Loks er brtt. við 6. gr. um, að í stað „1000“ komi: 50000.

Allshn. sendi þetta frv. til umsagnar nokkurra stofnana. Þessar stofnanir voru t. d. bankarnir 3, S. Í. S., verzlunarráðið og Vinnuveitendafélagið. Áður en frv. var afgr. úr n., höfðu 3 af þessum stofnunum sent umsögn sína. Það voru Vinnuveitendafélagið og verzlunarráðið, sem lögðu á móti frv., og S. Í. S., sem mælti með því. Eftir að frv. var afgr. úr n., kom umsögn frá Landsbankanum, undirrituð af 2 bankastjórum hans. Lögðu þeir á móti frv. Ég get sagt það hér, að það var gert meira til að mæta minni hl., að þetta frv. var sent til umsagnar þessara aðilja, heldur en að við teldum það hafa nokkra afgerandi þýðingu, því að allir þeir aðiljar, sem leitað var umsagnar hjá, höfðu hér bagsmuna að gæta. Ég hygg, að engum geti blandazt hugur um það, að þannig sé orðið ástatt hér á landi um lánastarfsemi, að það sé full ástæða til þess, að almenningur fylgist betur með henni en verið hefir. Það er nú svo, að þó að stjórnarfyrirkomulag lánsstofnana, eins og t. d. bankaráðin, eigi að vera trygging fyrir því, að hið opinbera geti fylgzt með þessari starfsemi, þá mun þó vera erfitt að fylgjast nokkuð verulega með í þessu efni, og auk þess er hætt við, að bankaráðsmennirnir verði sjálfir „interesseraðir“ í lánastarfsemi bankanna og því ekki réttir aðiljar til að hafa eftirlit með henni að öllu leyti. Ég vil fullyrða það, að ef t. d. svipuð löggjöf sem þessi hefði verið komin á í kringum 1920, þá hefði aldrei komið til slíkra bankatapa, sem hér hafa orðið síðan. Ég er sannfærður um, að slíkt bruðl með opinbera fjármuni, eins og fram kom við hrun Íslandsbanka. hefði aldrei átt sér stað, ef öllum þeim fyrirtækjum, sem þar höfðu fengið lán, hefði verið gert að skyldu að birta efnahagsreikninga sína. T. d. má nefna eitt fyrirtæki. sem ekki hafði neinn atvinnurekstur lengur og var hætt að standa í skilum. Því var veitt 20–10 þús. kr. á ári, bara handa eiganda fyrirtækisins til þess að lifa af. Dettur nokkrum í hug, að svona atvik hefði getað komið fyrir, ef fyrirtækið hefði orðið að gera opinber reikningsskil ?

Erlendis mun reglan vera sú, að birtir séu efnahagsreikningar þeirra fyrirtækja, sem tilheyra hinu opinbera, eða fyrirtækja, sem bjóða fram hlutafé sitt til sölu á opinberum markaði. Hér er reyndar engu slíku til að dreifa, því að hér eru engin slík hlutafélög, en það má segja, að þjóðin sé að kanpa hlut í atvinnufyrirtækjunum með því að lána fé sitt til rekstrar þeirra og þeim til styrktar og taka vexti af því fé, sem hún leggur fram. Enda mun það viðurkennt, að ef þessi fyrirtæki rekur upp á sker, þá eru það sparifjáreigendur, sem verður að blæða og engum öðrum. Hvers vegna skyldu þeir þá ekki mega fylgjast rækilega með rekstri þessara fyrirtækja, sem eru með þeirra eigið fé í rekstri sínum?

Það má vitanlega deila um einstök atriði þessa frv., eins og t. d. það, hvenær á skuldabrautinni menn skuli skyldir til þess að birta efnahagsreikninga sína, hvort þar skuli miða við 50 þús. eða 100 þús. kr. eða eitthvað annað. Það eina fyrirtæki, sem lagði með samþykkt þessa frv., taldi, að 50 þús. kr. væri of há upphæð, en hinsvegar taldi meiri hl. n., að til að byrja með, meðan ekki er séð, hvað þetta verður umfangsmikið, sé heppilegra að fara vægilega í sakirnar og binda upphæðina við 100 þús. kr. Síðar mætti vitanlega færa markið niður, þegar nánar er vitað um fjölda þeirra fyrirtækja, sem á þennan hátt yrði skylt að birta efnahagsreikninga sína.

Ég tel svo ekki ástæðu til að fara nánar út í þetta að sinni. Ég geri ráð fyrir, að hv. minni hl. n. geri grein fyrir nál. sínu, og vil ég því bíða með að tala um afstöðu mína til einstakra atriða þess.