11.03.1938
Neðri deild: 19. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 176 í C-deild Alþingistíðinda. (2437)

53. mál, jarðhiti

*Flm. (Bjarni Bjarnason):

Samkv. þál., sem samþ. var seint á síðasti þingi um áskorun til ríkisstj. um að láta rannsaka jarðhitasvæðin hér á landi og einnig um að láta undirbúa fyrir næsta þing frv. um eignar- og notkunarrétt jarðhita, lét hæstv. forsrh. athuga það frv., sem við höfðum áður flutt, og er frv. það, sem hér liggur fyrir, því nú flutt að tilhlutun hans.

Í frv. þessu eru ýms mikilsverð atriði, sem æskilegt væri, að ekki yrði ágreiningur um. Ég skal nefna þau höfuðatriði, sem ætlazt er til, að verði lögfest; í fyrsta lagi það, að ekki megi spilla hverum eða laugum, og í öðru lagi, að landeiganda sé skylt að girða umhverfi hvera eða lauga, ef sérstök hætta stafar af. Það er vitanlegt, að menn hafa hér oft skaðazt eða farizt í hverum. Þá er ákvæði um það, hvernig dæma skuli, ef fleiri eiga saman jarðhita og ágreiningur rís á milli þeirra, og um réttindi leiguliða og gagnkvæmt. Einnig er í frv. ákvæði um, að ekki megi undantaka jarðhitaréttindi, þegar jarðir eru seldar, og að ríkissjóður eigi forkaupsrétt að jarðhitasvæðum. Ennfremur, að ef héraðsstjórn telur rétt að taka hveraorku einhverrar jarðar til almennra nota í héraðinu og fái til þess samþ. ráðh., sé rétt að taka orkuna eignarnámi.

Loks er gert ráð fyrir, að ef jarðhiti er tekinn eignarnámi, sé landeigendum og leiguliðum skylt að leyfa, að fram fari hverskonar aðgerðir vegna notkunar jarðhitans, gegn fullu endurgjaldi.

Þessi ákvæði um forkaupsrétt ríkisstj. eru mikilsverð, og þarf í því efni ekki annað en líta til fortíðarinnar um ýms verðmæti og hlunnindi á eignum, hvernig þau hafa verið meðhöndluð. Þá er ekki síður mikilsvert ákvæðið um, að ekki megi undanskilja jarðhitaréttindi, þegar jarðir eru seldar. Áður hefir þetta verið allt öðruvísi, hvort sem um hefir verið að ræða veiðirétt, reka, dúntekju, námuvonir eða annað. Þá megum við muna fallvatnabraskið, sem ekki er gamalt.

Loks er gert ráð fyrir því í frv., að ríkið hafi rétt til að láta rannsaka hveraorku með borun eða á annan hátt, og hafi óhindraðan aðgang að þeirri landareign, sem um er að ræða. Einnig, að eigendur jarða, þar sem jarðhiti er, eða jarðhitasvæða, geti leitað aðstoðar ríkisins við rannsókn jarðhitans. Er alveg sérstakt tilefni til að lögfesta eitthvað um slíkt, því að menn eru þegar fyrir löngu farnir að spyrjast fyrir um slíka aðstoð.

Ég skal ekki lengja umr., því að þetta frv. hefir sézt hér oft áður. Ég vil aðeins óska, að það fari til landbn. enn einu sinni. N. hefir haft það með höndum tvisvar áður, og ég hygg, að einhver ágreiningur hljóti að vera innan n, um málið, en ég vil eindregið mælast til, að hún komi sér nú saman um það og skili nál.