04.04.1938
Neðri deild: 40. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 210 í C-deild Alþingistíðinda. (2524)

75. mál, rafveitur ríkisins

Pétur Ottesen:

Ég get ekki verið sammála hæstv. ráðh. um, að það leiki nokkur vafi á því, að ákvæði þessa frv. ná jafnt til bygginga nýrra rafveitna eins og leiðslu rafmagns út frá Soginu. Ef það hefir eingöngu átt að binda sig við útfærslu rafmagnsins frá Soginu, þá hefði það vitanlega verið tekið upp í heiti frv. Það má auk þess benda á, að við allan undirbúning þessa máls hefir verið gert ráð fyrir, að Andakílsfossarnir yrðu virkjaðir til frekari útfærslu rafmagnsins vestur á bóginn. Ég sé ekki, hvað ætti að vera í veginum fyrir að snúa sér að þessu. Það má einnig benda á, að það getur vel svo farið, að það rafmagn, sem framleitt er við Sogið nú, verði ekki meira en svo nægilegt fyrir Vestmannaeyjar og Suðurlandsundirlendið.