09.05.1938
Neðri deild: 68. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 315 í C-deild Alþingistíðinda. (2731)

85. mál, skrifstofufé sýslumanna og bæjarfógeta o. fl.

Sigurður Kristjánsson:

Mér skildist af ræðu hv. frsm., að hann tæki orð mín svo, að ég væri að áfellast hann sem frsm., en því fer mjög fjarri. Ég vil minna á það, að þessi n. hefir gert umbætur á frv., sem ég tel ekki lítils virði. Það, sem ég legg aðaláherzlu á, er, að þetta sé ekki rétt form, sem geti orðið framtíðarskipulag á þessum málum. Hér er skrifstofukostnaðurinn ákveðinn með l. fyrirfram, án tillits til þeirra breyt., sem kynnu að verða á verðlagi o. s. frv., enda eru þetta skrifstofur ríkisins. Ég vil því skora á þm. að athuga málið sjálfstætt og brtt., sem fram eru komnar um fyrirkomulagið. En ef þær breyt. komast ekki í gegn á þessu þingi, þá ber að athuga, hvernig hlutfallið eigi að vera milli skrifstofufjár þessara embætta.

En ég vil leggja áherzlu á það, að þetta fyrirkomulag getur ekki verið til frambúðar. Ég sé t. d. ekki, hvers vegna sérstök tilhögun er höfð með skrifstofufé bæjarfógetans í Hafnarfirði, og hvaða ástæða er fyrir ríkið að láta hann sitja við annað fyrirkomulag en hliðstæða embættismenn í Reykjavík. Hann býr við sömu skilyrði og getur ekki fengið ódýrari vinnukraft, því að menn myndu að öðru jöfnu heldur vilja vera í Reykjavík en Hafnarfirði, en það getur ekki verið meiri vandkvæðum bundið að líta eftir skrifstofukostnaði hans heldur en lögmanns eða tollstjóra í Reykjavík. Annað eins og þetta nær engri átt. Ég legg höfuðáherzlu á, að þetta fyrirkomulag er skakkt, og tel ófært að ákveða skrifstofuféð annað en það raunverulega reynist vera1).

Frv. er flutt, eins og hann sagði, fyrir hæstv. dómsmrh. En þess er að gæta, að skrifstofuféð, eins og hann líka benti á, er fyrir löngu ákveðið miklu lægra en það svo hefir orðið í reyndinni, þannig að það munar um töluvert meira en helming t. d. á Siglufirði, þar sem það hefir hækkað úr 7 þús. kr., sem það var ákveðið, og upp í allt að 20 þús. kr. Alþ. hefir, með mikilli tregðu þó, veitt mikið aukaframlag, og dómsmrn. hefir orðið að vigta þetta sundur á milli bæjarfógeta og sýslumanna á smjörvigt eða gullvog, og það hefir náttúrlega alls ekki enzt til þess að fullnægja þeim réttmætu kröfum, sem þessir embættismenn hafa gert, hver í sínu lagi. En nú þykist ég sjá á þessu frv., að hæstv. dómsmrh. hafi sniðið sitt frv. nokkuð eftir þeim endanlegu upphæðum, sem hann nú síðustu árin hefir greitt hverjum fógeta og sýslumanni. En af því að hann hefir haft úr svo litlu að spila, hefir þetta í flestum tilfellum orðið minna en mennirnir höfðu í raun og veru eytt í skrifstofukostnað vegna embættisins. Ég vænti þess nú, að það muni ekkert annað vera haft á móti því, að skrifstofufé a. m. k. hinna stærri embætta, svo sem fógetaembættanna, sé greitt samkv. reikningi, en það, að hv. þm. kannske halda, að það muni leiða til meiri eyðslu. En ég skil ekki, hvernig þeim getur til hugar komið, að það geti gengið til langframa, að einhver annar greiði útgjöldin heldur en sá, sem á að borga þau. En þessi gjöld á vitanlega enginn að borga annar en ríkið. Og ef svo væri, að einhverjar aukatekjur hjá bæjarfógetum og sýslumönnum þættu vera komnar of hátt, hærra en það, að þessar tekjur þættu hæfileg laun ásamt föstu laununum, þá er rétta leiðin að draga úr aukatekjunum, en ekki að gera þessum embættismönnum svona óbeint að skyldu að kosta skrifstofurnar af eigin fé. Annars ætla ég ekki að fara út í neinar kappræður um þetta. Ég held, að þess þurfi ekki, heldur muni hv. þm. vera sömu skoðunar og ég um þetta að því er aðalatriði málsins snertir, þó að á hinu verði kannske einhver munur. hvað menn álíta um það, hvað skrifstofufé þessara embættismanna hvers eins eigi að vera, ef það fyrirkomulag ú greiðslu þess helzt, sem verður a. m. k. þetta næsta ár.

Að því er snertir embættið á Ísafirði, sem hv. frsm. minntist á og taldi, að samkv. till. n. ætti að launa mjög svipað og bæjarfógetinn hefir farið fram á, vil ég segja þetta: Bæjarfógetinn hefir gert reikning nákvæmlega í samræmi við það, sem hann hefir orðið að greiða og verður að greiða, eins hvort hann borgar það af ríkisfé eða að einhverju leyti af sínu eigin fé. Sá reikningur er að upphæð 23 þús. kr. Það er þess vegna bersýnilegt, að á hans tekjur er gengið a. m. k. nóg, þó að ákveðnar væru til hans nú 20 þús. kr., eða 3 þús. lægra en hann hefir með óvefengjanlegum reikningi sýnt, að embættið eyðir í skrifstofufé. Mér þykir líklegt, að ég megi gera mér vonir um, að það fáist, að þetta verði ekki haft lægra en 20 þús. kr. Að því er Siglufjörð snertir hefi ég ekki séð, að því hafi verið hnekkt, að reikningur bæjarfógetans hafi verið réttur, þó að menn kunni að greina á um það, hvort honum sjálfum beri að borga innheimtukostnað, sem hann reiknar 3600 kr. En þá standa eftir 16200 kr., og ég tel óhæfilegt að skilja svo við þetta frv. og gera það að l., að þetta verði ekki fært upp í það, sem ég mun gera till. um, 16200 kr. Og eins og ég tók fram áðan, mun ég bera fram brtt. í þessa átt, og vænti þess, að hv. þm. vilji, eftir því sem tök eru á, kynna sér málið og skapa sér sjálfstæðar skoðanir um þetta, hvori slík till. er ekki á rökum byggð og alveg sjálfsagt að samþ. hana.

1) Þessi kafli ræðunnar er svo ógreinilega ritaður, að ekki er unnt að leiðrétta svo, að ábyrgð verði á tekin. — 11/8 ‚ ´38. SK.