09.05.1938
Neðri deild: 68. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 321 í C-deild Alþingistíðinda. (2736)

85. mál, skrifstofufé sýslumanna og bæjarfógeta o. fl.

*Bjarni Ásgeirsson:

Um það, sem hv. þm. A.Húnv. sagði um samanburð á skrifstofufé Húnavatns- og Skagafjarðarsýslu hvorrar fyrir sig annarsvegar og Mýra- og Borgarfjarðarsýslu hinsvegar, voru till. hans ekki siður út í bláinn heldur en till. n., sem ég talaði um áðan. Hv. þm. A.-Húnv. vildi taka laun lögreglustjórans á Akranesi og reikna þau með skrifstofufé sýslunnar. Þetta er misskilningur, því að aðalstörf lögreglustjórans á Akranesi eru fyrst og fremst hreppstjórastörf, og tekjur þær, sem Akranes fær hans vegna, verður fyrst og fremst að skoða sem tekjur til hreppstjóra. Allar innflutningsskýrslur verður eftir sem áður að færa í skrifstofu sýslumanns. Enda er mér kunnugt um það, að vinna og kostnaður við sýslumannsskrifstofuna hefir sama sem ekkert minnkað við það, þó að Akranes fengi lögreglustjóra. Og um þennan samanburð vil ég ennfremur segja það, að Mýrasýsla og Borgarfjarðarsýsla hafa alveg aðskilinn fjárhag. Og ég efast um, að meira sé flutt beint til landsins af vörum til Húnavatnssýslna heldur en til Akraness og Borgarness til samans, sem bæði eru í umdæmi Mýra- og Borgarfjarðarsýslu. Ég hygg, að hvernig sem á málið er litið, komi öllum sanngjörnum mönnum saman um, að það sé ekkert réttlæti í því að setja Húnavatnssýslu eða Skagafjarðarsýslu skör hverra en Mýra- og Borgarfjarðarsýslur báðar í heild viðvíkjandi þessu skrifstofufé. Það má vera, að þetta skrifstofufé í heild sé orðið of hátt fyrir ríkið að greiða, og því sé ekki ástæða til að bæta við þau útgjöld. En það er til önnur leið til samræmingar á þessu, að lækka þær sýslur, sem komnar eru upp fyrir það að vera sambærilegar við aðrar sýslur. Ég veit ekki nema ég gæti gert það hv. þm. til geðs að koma með brtt. um að lækka skrifstofufé sýslumanna í Húnavatns- og Skagafjarðarsýslum, til þess að það verði sambærilegt við það, sem aðrar sýslur hafa. Það er það, sem fyrir mér vakir, að skrifstofuféð verði sem sambærilegast í sýslunum, frekar en hitt, að ég geti gert mér grein fyrir, hvað skrifstofuféð ætti að vera upp á krónu í hverri sýslu.