05.04.1938
Sameinað þing: 16. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 122 í D-deild Alþingistíðinda. (2876)

91. mál, vantraust á ríkisstjórnina

*Héðinn Valdimarsson:

Eins og ég hefi skýrt frá, þá tala ég utan þingflokks Alþfl., en sem alþýðuflokksmaður og fyrir mikinn meiri hluta alþýðuflokkskjósenda í landinu. Ég mun snúa mér síðar að ræðu þm. Ísaf. (FJ) um þetta efni, ef tími verður til. En ég vil geta þess, að ef kjósendur hans fá að heyra ámóta sannleika og hann hefir flutt hér um ástandið í Reykjavík, þá gef ég ekki mikið fyrir það, hvernig þeir eru upplýstir. Ég hygg, að flestir Ísfirðingar, sem hafa komið hingað og verið hér á fundum í verkalýðsfélögum eða talað við verkamenn í bænum, viti, hvernig ástandið er hér. Þeir vita, að 2/3 fulltrúaráðsins eru alveg á öndverðum meiði við stjórn Alþfl. í bænum og að „Nýtt land“ er gefið út af Alþfl. með styrk frá Dagsbrún og Jafnaðarmannafélagi Reykjavíkur.

Ég vil taka dæmi um það, hvað Finnur Jónsson er orðinn sérstaklega óvandaður í málsmeðferð. Þar sem hann segir, að það standi í „Nýju landi“, að landlæknir ætti að sjá sóma sinn í því að láta t. d. alla Kleppssjúklinga, sem sumir hafi aldrei öðlazt neinn skilning, en aðrir tapað honum, ganga í Alþýðuflokksfélagið og öðlast þar skilning fyrir fáeina aura, þá er þetta tekið úr grein, þar sem áður hefir verið tekin upp klausa úr Alþýðublaðinu, en hún er svona, með leyfi hæstv. forseta: „Alþýðuflokksfélagið er þannig byggt upp, að hverjum einasta alþýðumanni og konu er gert kleift fjárhagsins vegna að vera meðlimir þess. Með því að vera meðlimur í félaginu fá félagarnir fyllsta skilning á öllum þeim málum, sem uppi eru í hvert skipti, og einnig þeim, sem varðandi eru framtið flokksins“.

Það er svo í „Nýju landi“ vitnað í þessa grein og talað um, að mönnum sé lofað fyllsta skilningi fyrir fáeina aura, og það líti út fyrir, að menn eigi að fá þennan skilning afhentan með skírteininu o. s. frv. Menn sjá, í hvaða tóni hér er skrifað. En þetta á að vera sérstaklega vítavert.

Ef ég hefi tíma til, þá mun ég taka önnur dæmi úr ræðu þessa þm., sem sýna ámóta vandaðan hugsunarhátt og ósanngirni og sýna, að það er sérstaklega vondur málstaður, sem hann er að reyna að verja.

Hann hefði átt að lesa upp úr „Nýju landi“ í dag, hvernig Skjaldborgin rænir alþýðuhúsinu og hvernig 15 menn hafa tekið sig til og lagt fram 40 þús. kr. til þess að ná meiri hl. í alþýðuhúsinu úr höndum verklýðsfélaganna, sem hafa byggt þetta hús. Þessu hefir verið haldið í svo mikilli leynd, að ekkert hefir frétzt um þetta fyrr en á aðalfundinum. Þarna eru menn komnir, sem aldrei hafa áður fengizt til að leggja einn eyri fram, en eru þarna komnir með 1-2-3 þús. kr. hver. Þar er piltur um fermingu og námspiltur, sem er erlendis. Þar á meðal eru þm. flokksins, sem ekki einu sinni hafa staðið við fyrri skuldbindingar sínar um fjárframlög.

Ég mun nú snúa mér að því máli, sem fyrir liggur. Þm. G.-K., Ólafur Thors, er með þessa vantrauststill. vegna þess, að hann vonast eftir, að upp úr stjórnarkrísunni verði mynduð stj. með Sjálfstfl. um það, að leysa deilur þær, sem upp kunna að koma, eins og sjómannadeiluna, og skírskotar hann þá fyrst og fremst til þeirra vinnudeilna, sem orðið geti hjá ríkinu sjálfu, hjá Ríkisskip og við ríkisverksmiðjurnar á Siglufirði; en hann á líka við einstök fyrirtæki eins og Kveldúlf. Hann vill gera nauðungardóma að algildri reglu og skapa sterka stj. Framsfl. og Sjálfstfl., til að knýja verkalýðinn til að lúta þeim. Hann vill berja niður samtök verkalýðsins og koma á vinnulöggjöf, sem leggur í fjötra samtök verkalýðsins, og eins og hann segir, að skapa vinnufrið og öryggi, svo hinar vinnandi stéttir og samtök þeirra ráði engu um kjör og kaup verkamanna, ef atvinnurekendur vilja ekki góðfúslega ganga að því. Þarna kemur afstaða Sjálfstfl. fram ósvikin, og sýnir hún, að hann hefir ekkert lært og engu gleymt. Hann talaði eins og útgerðarmaður og atvinnurekandi, en ekki sem flokksforingi. En rauði þráðurinn hjá honum er sá, að hann óskar eftir því, að Sjálfstfl. njóti aðstoðar Framsfl. til að koma á þjóðskipulgi, sem hann óskar sér, þar sem atvinnurekendurnir séu einráðir um kjör og kaup verkamanna, því hann veit, að Sjálfstfl. getur ekki komið slíku á einn.

Afstaða forsrh., Hermanns Jónassonar, er miklu óhreinni í þessum málum. Hann heldur greinilega opinni leiðinni til íhaldsins og verkalýðsins, þó að undanskildum Moskva-mönnunum, sem hann nefnir svo. Hann stendur fast á lausn sjómannadeilunnar með gerðardómnum og treystir því að sjómenn ráði sig með þeim kjörum á síldveiðar, sem gerðardómurinn hefir úrskurðað, en vill ekki liðssafnað nema í ýtrustu nauðsyn. Hann lofar engu um það, að nýr gerðardómur verði ekki settur, og talar um ósanngirni í kröfum „Þróttar“ á Siglufirði og vegavinnumannanna og annara, sem búizt er við launadeilum hjá. Hann skýrir að öðru leyti ekki afstöðu ríkisstj. til þeirra mála. Hann bætir því við, að afgr. muni verða vinnulöggjöf, sem undirbúin sé af mþn., og ræðst á þann hluta verkalýðsins, sem mótmælt hefir þessu frv., en það eru nær öll stærstu félögin í landinn og flest af hinum smærri. Það eru aðeins örfá félög, sem samþ. hafa frv. óbreytt. Hann segir ekkert um það, með hverjum hætti sú vinnulöggjöf muni verða, sem Framsfl. samþ. í þinginu, svo það er ekki hægt að taka afstöðu til hennar.

Ég segi fyrir mitt leyti, og svo mun vera um flesta alþýðuflokksmenn, að þeir munu vera á sama máli um það, að við höfum ekkert á móti vinnulöggjöf. ef hún er á þann hátt, sem sæmilegt má teljast fyrir verkalýðssamtökin.

Þá talaði hann um, að Framsfl. — eða það virtist a. m. k. skína út úr ræðu hans — hefði tekið völdin nú til þess að hægara væri fyrir þingflokk Alþfl. að halda áfram samvinnunni við Framsfl. vegna þess, að það þurfi að gera ýmsa hluti, sem hann kom þó ekki nánar inn á, en virðist vera launadeilumálin, sem ekki sé þægilegt fyrir Alþfl. að vera með í stjórn um. En þeir myndu svo geta komið á sínum tíma og verið með í því.

Ég verð að segja fyrir mitt leyti, að áður en ég tek fulla afstöðu til stj., þá óska ég eftir að sjá betur á málum þingsins, eins og rökst. dagskráin ber með sér, hverja afstöðu hún tekur á þingi. og það virðist vera hægt um flest mál, sem skilja milli Framsfl. og Alþfl. Svo einkennilega vildi til, að þm. Alþfl., og þá sérstaklega Finnur Jónsson, gengu á móti till. um það, að rannsókn á hag sjávarútvegsins færi fram á þessu þingi. Ég get ekki skilið þetta öðruvísi en svo, að hann og hinir aðrir alþýðuflokks-þm. séu gengnir frá þeim stefnumálum, sem þeir báru fram á vorþinginu 1937. En þá lágu fyrir fullkomnar till. frá Alþfl., svo það hefði ekki þurft mþn. til að starfa að því máli.

Nú var það svo, eins og menn vita, að eftir kosningarnar 1937 varð sú glufa á vináttunni milli Alþfl. og Framsfl., að ekki hefir gróið um heilt síðan. Alþfl. kom inn á þing með 3 þm. færra en áður. Finnur Jónsson kenndi mér um það og sagði, að ég hefði valdið því. Hann hefði getað sagt það þá, en það má minna hann á, að sá maður, sem barizt var um í bænum, var Stefán Jóhann, en ekki ég. Það sýndi sig þá, að Alþfl. gat ekki komið þeim málum fram, sem hann hafði hugsað sér, með þeim liðstyrk, sem hann þá hafði. Hinsvegar lítum við svo á, sósíalistarnir í Alþfl., að sú stefna, sem flokkurinn hafði tekið, væri algerlega rétt og því yrði að athuga, hvað þyrfti til þess að koma málum flokksins fram. Við lítum svo á, að hvorki Framsfl. eða Sjálfstfl. myndu leysa þau vandamál, sem nauðsynlegt væri að leysa. Það væri hlutverk Alþfl., og enginn annar flokkur gæti það. En til þess þyrfti hann að fá aukinn styrk og það yrði að safna undir merki hans öllum verkalýðssamtökum í landinn og öllum verkalýð landsins yfirleitt. Af þessum ástæðum fóru þær sameiningartilraunir fram, sem gerðar voru af hálfu okkar margra alþýðuflokksmanna í fullu trausti á það málefni. En á sama tíma var af sumum mönnum verið að undirbúa klofning í flokknum og ná eignum flokksins undir þá, við sósíalistarnir í Alþfl. teljum engan vafa á því, að hægt sé að sameina meiri hluta Alþfl. og Kommfl., og við væntum þess, að hægri hlutinn verði með. Ef okkur tekst þetta, þá teljum við víst, að upp muni rísa nýtt tímabil fyrir íslenzka alþýðu. En að byggja von sína á því að sitja í skjóli Framsfl. og hafa þátttöku þar um einhver mál, án þess að hugsa um vöxt flokksins í framtíðinni og völd alþýðunnar í landinu, geti ekki vakað fyrir þeim, sem eru í raun og veru sósíalistar innan flokksins.

Ég vil svo minnast á nokkur grundvallaratriði í þessum málum frekar. Við lítum svo á, sósíalistarnir í Alþfl., að það sé þýðingarlaust að vera að tala um þjóðstjórn eða sameiginlega stjórn, ef ekki er jafnframt mynduð sameining alþýðunnar, sem sú stj. á að hylla á. Við álítum, að fyrsta undirstaðan til þess sé að skapa það skipulag, bæði í verkalýðssamtökunum og hvað skipulag flokksins snertir, sem nauðsynlegt er til að hann geti komið sínum málum fram. En hinsvegar lítum við svo á, að það sé ekki aðeins til verkalýðsins, sem Alþfl. eigi sitt erindi, heldur engu síður til bænda. En það er mjög erfitt að ná til bænda vegna þess, hvað strjálbýlið er mikið í sveitunum, en þar eru samvinnufélögin fyrir, sem Alþfl. styður, þar sem hann getur því við komið, því að öðru leyti eru lítil tök að ná til þeirra. Með því að skapa fyrst verkalýðssamtök og flokksskipulag í þéttbýlinu og í bili að halda vinsamlegri samvinnu við bændur gegnum Framsfl., þá álítum við, að með því sé hægt að skapa þann lýðræðisgrundvöll, sem nauðsynlegur er fyrir sósíalistaflokk í landinu.

Finnur Jónsson segir, að innan Alþfl. hafi deilan farið þannig fram, að við vinstri mennirnir höfum verið í miklum minni hluta. En í Dagsbrún hefir það verið þannig, að þeir, sem hafa verið á móti sameiningunni, hafa fengið 20–50 atkv. Alþýðublaðið og Finnur Jónsson segja, að þeirra flokksmenn komi ekki á fundina, — en hvers vegna geta þeir ekki komið? Á sama hátt hefir það verið í jafnaðarmannafélögunum, að undanteknu einu. Það er því í raun og veru ekki hægt að sjá, hvaða fylgi hægri mennirnir geta talið sér.

Ég vil svo að endingu endurtaka það, að afstaða mín til ríkisstj. mun markast af því. hvernig þingmálin verða leyst og hvaða loforð fást um það, að ríkisstj. láti vera að nota gerðardóm í þeim vinnudeilum, sem framundan eru, og hvort hún fæst til að semja um viðunandi kjör við þær stofnanir, sem undir hana lúta. Ef það fæst ekki, þá mun ég ekki veita ríkisstj. traust, og ef vinnulöggjöfin verður látin ganga fram á þann hátt, sem hún er nú borin fram, þá mun ég líka verða andvígur núv. ríkisstj.