02.05.1938
Sameinað þing: 23. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 195 í D-deild Alþingistíðinda. (2935)

45. mál, kreppu- og stríðsráðstafanir

Flm. (Einar Olgeirsson):

Ég vildi bara láta í ljós álit mitt út af þeirri till., sem fram er komin um að vísa þessu máli til stj. Það er í þáltill. sérstaklega farið fram á, að skipuð sé nefnd af hálfu þingsins til þess að taka þessi mál til meðferðar. Það er hinsvegar gefið, að ef ríkisstj. ætti að fara ein að setja n. í þetta mál, þá er ekki víst, að hún mundi vera í samræmi við þann tilgang, sem í þessari till. er, sem er sérstaklega sá, að tryggja það, að allir flokkar þingsins geti látið álit sitt í ljós á þessu vandasama spursmáli. Það ber öllum saman um, að þessu máli sé sízt of snemma hreyft. Og ég álít, að þessi till. hafi orðið til þess að vekja menn til umhugsunar um þetta mál. Ég álít þess vegna, að það sé heppilegast að leysa málið á þann hátt, sem við leggjum til, með því að kjósa þessa n., sem allir flokkar eigi sinn fulltrúa í og vinni síðan í samráði við ríkisstj.