11.05.1938
Sameinað þing: 30. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 198 í D-deild Alþingistíðinda. (2939)

130. mál, fullveldisminning

*Jónas Jónsson:

Ég er samþykkur hv. þm. Snæf. um það, sem er aðalefni till. hans, að rétt sé og sjálfsagt að minnast fullveldisafmælisins 1. des. næstk., en mér virðist hv. þm. gera ráð fyrir, að auðveldara verði að koma í framkvæmd ýmsum atriðum, sem till. fjallar um, en verður í raun og veru. Það er skammur tími til stefnu til undirbúnings. Ég á aðallega við útgáfu myndarlegs minningarrits, sem jafnvel fjallaði um sögu sjálfstæðisbaráttu vorrar og yrði gefið út á a. m. k. einu erlendu tungumáli. Þetta kynni að mega gera, en það yrði ekki auðvelt að ganga frá því, svo að í lagi væri, á svo skömmum tíma, sem við höfum yfir að ráða. Persónulega held ég, að það, sem aðallega vakir fyrir hv. flm. og fram kom í fyrri hluta ræðu hans, nefnilega, hvernig Íslendingar sjálfir minntust þessa dags, hefði mest áhrif. Starfið innanlands og samhugur þjóðarinnar hefir mest að segja. Að því leyti, sem kæmi til kasta utanríkismálan. um ráð og till., mundi ekki standa á henni til stuðnings þessu máli. En þar sem þegar hefir verið gengið frá fjárl. og ekki ætlað fé til þessara framkvæmda, sé ég ekki vænna ráð en að vísa þáltill. til ríkisstj. Frá minni hálfu þýðir sú uppástunga ekki, að ég vilji helzt drepa till. heldur er andi till. þvert á móti studdur af mér. Ég er sannfærður um, að öllu, sem er aðalefni till., mætti ná, ef þingflokkarnir standa saman um hana. En ég tel heppilegra, að ekki væri lofað of miklu. eins og segja mætti að væri, ef till. væri nú afgr. eins og hún liggur fyrir.