16.03.1938
Efri deild: 24. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 387 í B-deild Alþingistíðinda. (330)

68. mál, gerðardómur í togarakaupdeilu

*Atvmrh. (Haraldur Guðmundsson):

Ég vil þakka hæstv. forseta, að hann hefir leyft að ræða frv. mitt á þskj. 96 jafnhliða þessu frv.

Hæstv. forsrh. hefir rétt fyrir sér, þegar hann segir, að verkamannaflokkurinn norski hafi ekki átt meiri hl. í gerðardómnum, sem stjórnin skipaði. Og því fer fjarri, að ég gæfi slíkt í skyn. Hvorki mér né öðrum hefir dottið í hug, að velja ætti þannig í gerðardóma, að fyrirfram mætti reikna með því, að þeir yrðu vilhallir í garð verkalýðsins. En það munar miklu, hvaða reglum er að öðru leyti fylgt við skipun dómsins og hverjir skipa hann. Í augum verklýðssamtakanna er miklu meiri trygging fyrir réttdæmi hjá gerðardómi, sem forsrh. úr þeirra flokki skipar, en verða mundi, ef hæstiréttur skipaði. Eitthvað hliðstætt mætti segja um traust og vantraust atvinnurekenda og það er skiljanleg afstaða hjá báðum.

Hæstv. forsrh. telur það höfuðgalla á frv. mínu, að það leysi aðeins part af deilumálinu. Sínum augum lítur hver á silfrið; ég tel það kost. Löggjafarvaldið á alis ekki að ganga feti lengra í þessu efni en brýnasta nauðsyn krefur. Þess vegna eru það ekki nema saltfisksveiðarnar, sem gera þarf slíkar ráðstafanir um — og nota síðan tímann, þar til síldveiðar hefjast, til að koma á frjálsum samningum.

Hæstv. forsrh. spurði, hvernig ætti að mæta árekstri, sem þá kynni að verða í deilunni. Ég vil spyrja: Hafa ekki oft risið upp deilur áður um kaup og kjör? — Er ekki hætt við, að ýmsar slíkar deilur risi í sumar, þó að þessi yrð? hindruð með lögum? Hefir ekki verkamannafélagið Þróttur á Siglufirði sagt upp samningum, svo að síldveiði kunni að tefjast, ef ekki er hægt að leysa slíkar deilur nema með þvingunarlögum? — Ég er hræddur um, að ef farið er inn á þá braut að ákveða samninga með gerðardómum, veitti ekki af að hafa gerðardóm sitjandi allt árið. Ef við eigum að ganga inn á þennan hugsunarhátt hæstv. forsrh., þá ættum við að samþykkja það nú þegar. Og hvert erum við þá komnir?

Ég veit raunar, að hæstv. forsrh. er mér sammála um það, að ekki megi grípa inn í þessi mál nema í brýnustu nauðsyn og gera ekki meira að því en óhjákvæmilegt er. Við verðum auðvitað að mæta þeirri deilu í sumar, sem þá kann að vera óleyst, nákvæmlega eins og ótal deilum, sem áður hafa risið og sættir tekist um. — Sjálfur hygg ég persónulega, að búið sé að reyna svo á báða aðilja í þessari deilu, að ef togararnir fást út núna, muni hvorirtveggju hugsa sig tvisvar um að stöðva flotann aftur, áður en farið er út á síldveiðar. [Fundarhlé.]