17.03.1938
Neðri deild: 26. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 442 í B-deild Alþingistíðinda. (365)

68. mál, gerðardómur í togarakaupdeilu

*Héðinn Valdimarsson:

Hæstv. atvmrh. minntist á þá lausn þessa máls, sem alþýðuflokksmenn komu með í Ed. Ég lít svo á, að hún sé dálítið athugaverð. Því að þar er farið fram á að lögfesta kaupgjald, án þess að sjómannafélagið hafi gert nokkra samþykkt um það, og það álit ég, að ætti að vera fyrsta skilyrðið fyrir því, að Alþfl. bæri slíkt fram, að málið hefði á bak við sig þá menn, sem er verið að ákveða kaupið fyrir. Ég tel það að vísu líklegt, að ef þetta hefði verið borið upp út af fyrir sig, þá mundu sjómenn hafa samþ. það. En þetta hefir ekki gerzt. Og í öðru lagi er það að athuga við þá lausn málsins, að það er engin frekari trygging fyrir því, að skipin komist út, heldur en með þessu. Aftur á móti get ég ekki fallizt á aðfinnslur hæstv. atvmrh. gegn því að leysa þetta gegnum bankana. Því er svo farið um svo að segja öll þessi skip, að skuldir þeirra liggja í bönkum, og maður veit, að þau skulda meira en þau eiga; bankarnir geta því ráðið um þetta eins og þeir vilja. Þegar ekki munar meira frá því, sem sjómenn mundu gera sig ánægða með að semja um, sem annaðhvort liggur í hærri premíu eða vinnutryggingu, þá geta bankarnir ákveðið hér um, enda þótt ekki sé búið að láta gera þá rannsókn, sem hæstv. atvmrh. er að tala um. Ég efast ekki um, að í bönkunum séu menn nokkurnveginn kunnugir þeim fjárhag öllum. Væri samhliða því hægt að gera þá ákvörðun, sem þarf, til þess að gera upp togarafélögin og til að reyna að koma þessum rekstri á raunverulega heppilegan grundvöll, svo að hann gæti a. m. k. mætt öllum sanngjörnum kröfum á hendur útgerðarmanna. Aftur á móti álít ég kröfuna um gengisfali vera algerlega pólitísks eðlis. Það væri þokkalegt ef sjómenn ættu að fá gengislækkun ofan á það, að kaup þeirra er skammtað með lagaákvæðum.

Aðeins vil ég segja viðvíkjandi því, sem báðir framsóknarráðherrarnir hafa verið að tala um gerðardóm í öðrum löndum, þar sem jafnaðarmenn hafa staðið að, að það er einmitt þessi munur, að þeir hafa gert slíkt, ef þeir hafa haft verkamannasamtökin á bak við sig. En því er ekki til að dreifa um þetta mál, sem hér er um að ræða. Í þessum málum eru alveg ákveðnar flokkssamþykktir um það að vera á móti lögþvinguðum gerðardómi. Og ekki hefir komið neinn vilji frá sjómannafélaginu til þessa, heldur mótmæli.