19.03.1938
Neðri deild: 29. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 558 í B-deild Alþingistíðinda. (677)

12. mál, skemmtanaskattur

*Þorsteinn Briem:

Herra forseti! Eins og menn sjá í nál., er nefndin óklofin um frv. á yfirborðinu. N. er öll sammála um það, að þetta fyrirkomulag, sem nú á sér stað um héraðsmót, eins og t. d. héraðsmótin á ungmennafélagssvæði Mýra- og Borgarfjarðarsýslu, eigi ekki rétt á sér, og sé ástæða til að breyta því. Ég hygg, að fullyrða megi, að n. öll sé á einu máli um það, að ekki eigi að veita neinu einstöku sveitarfélagi rétt til þess að leggja skatt á menn fyrir það eingöngu að fá að koma inn í þann sérstaka hrepp. Ég heyrði ekki ræðu hv. frsm. og veit ekki, hvort hann hefir tekið þetta fram. Aftur á móti er n. skipt um önnur atriði málsins, því að einn nm., hv. þm. V.-Ísf., vill víkka þau ákvæði, sem eru í frv. þessu, og láta þau ná til allra héraðsmóta, sem héraðssambönd halda, hvers konar sem eru. Ég hygg, að ég megi segja, að aðrir nm. í allshn. séu mótfallnir þessari till., af því að þeir líta svo á, að það sé hægt að stofna til allskonar félagsskapar í héruðunum, sem megi kalla héraðssambönd, jafnvel pólitísk eins og önnur, og þá séu lagaákvæðin gerð of rúm, ef ætlazt er til, að öll slík héraðsmót fái undanþágu frá skemmtanaskatti. Hv. 3. þm. Reykv. talaði um þetta mál, en mér virtist hann, eins og líka kom fram í svarræðu hæstv. fjmrh., eiga við önnur lög en þau, sem hér er um að ræða, sem sé l. um skattgjald af skemmtunum í ríkissjóð. Ég hygg því, að ræða hv. 3. þm. Reykv. sé að hálfu leyti utan við þessar umræður.

Ég vil enn taka fram, að ég hygg, að aðrir nm. en tillögumaður séu því mótfallnir að rýmka svo ákvæðin sem lagt er til í frv. En hinsvegar mun ég fyrir mitt leyti að þessu sinni greiða atkv. með frv. óbreyttu, en áskil mér rétt að koma með brtt. við 3. umr. málsins, ekki sízt ef brtt. á þskj. 91 verður samþ.