25.04.1938
Neðri deild: 53. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 623 í B-deild Alþingistíðinda. (794)

63. mál, vörugjald fyrir Vestmannaeyjakaupstað

*Haraldur Guðmundsson:

Það er að sjálfsögðu eins heimilt samkv. útsvarslögum að leggja útsvar á aðkomufólk í Vestmannaeyjum, hvort sem það ber líka þunga af þessu vörugjaldi eða ekki. Þar er ekkert „annaðhvort -eða“ heldur „bæði — og“; skatturinn verður tvöfaldur (SvbH: Mundi það þá ekki lækka útsvörin?). Hvaða útsvör heldur þm., að mundu aðallega lækka? Það getur aldrei réttlætt þessi heimildarlög.

Það má e. t. v. segja, að ýmsum bæjarfélögum komi illa að geta ekki skattlagt utanbæjarmenn gegnum verzlunina, sem þeir sækja þangað. Hv. 1. þm. Rang. veit vel, að örðugleikar ýmissa bæja liggja m. a. í því, að verzlunin er komin í hendur kaupfélaga, sem greiða ekki útsvör eftir sömu reglum og aðrar verzlanir, miðað við umsetningu. Uppbót fyrir þetta hefir verið reynt að gefa með nýrri löggjöf. Sömu reglur eiga þar að gilda á öllu landinu. En í Vestmannaeyjum er þessu varla til að dreifa, svo að tekjuuppbótarþörfin ætti að vera þar þeim mun minni en annarsstaðar. Ég held, að hér kenni misskilnings hjá hv. frsm., þegar hann heldur, að Vestmannaeyjakaupstaður verði afskiptur við úthlutun úr jöfnunarsjóði. En til viðbótar við 30 þús. kr. eða meira, sem vörugjaldið nemur, fær kaupstaðurinn væntanlega a. m. k. 15 þús. kr. úr sjóðnum. Þótt úthlutun sé ekki lokið fyrir árið 1937 og ekki víst, hver hún verður, geri ég ráð fyrir, að Vestmannaeyjar verði ekki illa úti.

Það verður að vera sjónarmið Alþingis, að sömu reglur eigi að gilda fyrir landsmenn alla. En með því að samþ. þetta frv., eftir að komin eru lög um jöfnunarsjóð, er ekki aðeins brotin sú regla, heldur skapað beint misrétti, þar sem Vestmannaeyjum er heimilað að létta þannig á útsvörum, án þess að sannað sé, að þörfin þar sé meiri en annarsstaðar.