07.05.1938
Sameinað þing: 28. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 151 í B-deild Alþingistíðinda. (81)

1. mál, fjárlög 1939

Atvmrh. (Skúli Guðmundsson):

Ég vil svara hv. 6. þm. Reykv. viðvíkjandi brtt. á þskj. 425, XXXVIII, við 22. gr., um það, að ríkisstj. skuli heimilt að hlutast til um, að stjórn fiskveiðasjóðs Íslands verji til útlána, samkv. nánari reglum, er atvmrh. setur, allt að 90 þús. af ónotuðu fé og ónotaðri lántökuheimild skuldaskilasjóðs vélbátaeigenda, í því skyni að ná fullnaðarsamningum um greiðslu og eftirgjafir á ábyrgðarkröfum á félagsmenn fiskveiðasamvinnufélaga, er á þá hafa fallið vegna skuldaskila félagsins.

Þegar skuldaskil vélbáta voru framkvæmd, var þeirri reglu fylgt, ef fleiri en einn áttu í bát, sem kom til greina við lánveiting, að þá framseldu eigendurnir allir bú sín til skiptameðferðar og fengu þar með einnig samninga um aðrar skuldir sínar. En þetta var öðruvísi framkvæmt í samvinnufélögum. Félögin voru gerð upp sérstaklega, án þess að bú eigendanna væri tekin með í skuldaskilin. Það hefir nú komið í ljós, að þrátt fyrir skuldaskilin er hægt að krefja félagsmenn um hinn ógreidda hluta skuldanna, þar sem svo er ákveðið í félagslögunum, að þeir beri ábyrgð á þeim einn fyrir alla og allir fyrir einn. Það hefir verið álitið, að með þeim skuldaskilum, sem fengin voru, væru félagsmenn lausir við skuldirnar.

Og það er sýnilegt, að ef svo er ekki, verða samvinnufélagsmenn miklu harðar úti en aðrir; lögin koma þeim ekki að gagni. Þessi fiskveiðasamvinnufélög eru: Kaupfélagið Fram í Vestmannaeyjum, Samvinnufélag Búðakauptúns, Samvinnufélag Ísfirðinga, Samvinnufél. Stokkseyrar, Samvinnufélagið Grímur í Borgarnesi og Samvinnuútgerðin í Stykkishólmi.

Hv. 6. þm. Reykv. reis úr sæti og gerði þessa till. sína að umtalsefni, fór með margar staðleysur um þetta mál og vildi blása það út í pólitíska deilu. Hann taldi, að ég væri fyrir hönd hlutaðeigenda að biðja um 90 þús. kr. lán, sem aldrei fengist borgað (SK: Nei, 75 þús.). Í till. stendur, að verja eigi allt að 90 þús. „til útlána samkv. nánari reglum“. Þarna er aðeins gert ráð fyrir að heimila lánveitingar, og heimildin verður því aðeins notuð, að fullnægt sé „nánari reglum“, m. a. um tryggingu. Þar verður fylgt svipuðum reglum og yfirleitt hafa gilt við skuldaskil vélbáta. Ef hv. þm. telur fyrirfram gefið, að þetta sé tapað lánsfé, gerir hann ráð fyrir, að ekkert af þeim lánum, sem veitt hafa verið hingað til úr skuldaskilasjóði, verði greitt.

Hann talaði um það litla, ljóta frv., sem verið hefir á ferðinni hér í Nd., um breytingu á tekjuskattslögunum. Mér finnst hann ætti sem sjaldnast að minnast á það. Ég hefi áður gert grein fyrir, hversu ranglátt það er, þar sem hann vill taka út úr eina stétt og láta hana hafa sérstök hlunnindi, að því er snertir tekjuskatt. Hafi nokkur gert ráð fyrir, að hann hafi borið fram það frv. vegna þess, að honum sé annt um hagsmuni sjómanna, þá mun engum geta blandazt hugur um það eftir þessa ræðu um brtt. núna við 22. gr., að svo er ekki. Honum er varla ókunnugt um það, að í þessum samvinnufélögum eru sjómenn, sem skipta nokkrum hundruðum, en hann ber þá ekki svo fyrir brjósti, að hann geti fallizt á, að þeim sé hjálpað til að njóta skuldaskilalaganna jafnt og aðrir. Sé ekkert gert, má gera ráð fyrir, að allir þessir sjómenn, sem yfirleitt eru fjölskyldumenn, verði gjaldþrota, og félagsskapur þeirra þar með lagður algerlega í rústir. Það er því ljóst af þessu, að það eru ekki hagsmunir sjómanna, sem þessi hv. þm. ber fyrst og fremst fyrir brjósti, þó að hann sé að reyna að láta það líta svo út, með því að flytja frv. um sérstök fríðindi þeim til handa í sambandi við framkvæmd tekjuskattslaganna.

Hv. 6. þm. Reykv. segir, að þessi till. mín komi ekki að notum, nema kröfuhafar á eigendur samvinnufélaga vilji fara þessa leið. Það er vitanlega rétt hjá honum, að hér er gert ráð fyrir, að reynt verði að ná samkomulagi við þá, og hann spyr um, hvað ráðh. muni gera, ef ekki takist að ná samningum með góðu móti við þessa kröfuhafa. Um það liggur ekkert fyrir nú, og get ég því ekki upplýst hv. þm. um það, að svo stöddu. Það getur vitanlega farið svo, ef það kemur í ljós, að þessi leið reynist ekki fær, að það yrði að setja l. um þessa framkvæmd, en hvort það þyrfti að gerast, áður en næsta Alþ. kemur saman, um það er ómögulegt að segja nú. því miður liggur ekkert fyrir um það, hvort hægt sé að ná samkomulagi við þessa kröfuhafa, og þá er vitanlega ekki hægt, og heldur ekki ástæða til, að gefa neinar yfirlýsingar um það, hvað síðar muni verða gert, ef þeir samningar stranda.

Ég þykist hafa gert grein fyrir því, að með þessari till. sé aðeins að því stefnt, að það verði sama eða svipuð meðferð, að því er snertir skuldaskil þeirra útgerðarmanna, sem eru þátttakendur í samvinnufélögum, eins og hinna, sem höfðu félagsskap um útgerð einstakra báta, þó að það væri ekki með samvinnusníði. Ég vænti, að öllum hv. þm. sé ljóst, að það sé ranglátt, að þessir þátttakendur í samvinnufélögum sæti miklu lakari meðferð en aðrir útgerðarmenn fengu á sínum tíma. — Ég sé svo ekki ástæðu til að hafa um þetta fleiri orð, en vænti, að hv. þm. geti fallizt á að samþ. þessa till.