18.03.1938
Neðri deild: 28. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 649 í B-deild Alþingistíðinda. (854)

69. mál, togaraútgerðarnefnd

Skúli Guðmundsson:

Mér skildist á hv. þm. G. K., að hann teldi vafa á því, að rannsókn sú, sem frv. fjallar um, mundi ná til fyrirtækja bæjarfélaga. Það er svo ákveðið í 1. gr., að Alþingi kjósi 5 manna n. til þess að rannsaka hag og rekstur togaraútgerðarfyrirtækja félaga og einstakra manna, og fyrir okkur flutningsmönnum vakti það, að þetta næði til allra fyrirtækja, líka bæjarfélaga.

Hv. 3. þm. Reykv. bar fram fyrirspurn til mín. Hann spurði, hvort það væri með eða á móti mínum ráðum, að lýsi Kveldúlfs var ekki selt. — Í síðastl. aprílmánuði, þegar ákveðið var, að ég tækist á hendur fyrir bankaráð Landsbankans endurskoðun og yfirlit á rekstri Kveldúlfs, voru mér að sjálfsögðu gefin fyrirmæli um, hvernig ég ætti að haga störfum mínum, og í erindisbréfi mínu er ekkert um það sagt, að ég eigi að hafa afskipti af stjórn fyrirtækisins að því er snertir sölu á afurðum þess. Ég hefi því hvorki skyldu né heimild til þess að skipta mér af ákvörðunum Kveldúlfs um sölu afurðanna og hefi ekkert blandað mér í það mál.

Hv. 3. þm. Reykv. lýsti yfir fylgi sínu við frv., en gat þess þó, að þar sem ég mundi vera fróður um hag Kveldúlfs, mundi ég strax geta gefið þær upplýsingar, sem væntanleg n. þyrfti að fá. Ég vil segja það í fyrsta lagi, að mér ber ekki að láta Alþingi í té neinar upplýsingar í sambandi við starf mitt við endurskoðun Kveldúlfs, og auk þess er Kveldúlfur bara eitt fyrirtæki af mörgum, sem rannsaka þarf. En ef frv. verður að l. og rannsóknarnefnd verður kosin, mun Alþfl. fá fulltrúa í þeirri n., og geri ég ráð fyrir, að þessi hv. þm., sem segist tala fyrir kjósendur Alþfl., fagni því.

Það hafa orðið miklar umræður um þetta mál nú og margt verið sagt, sem ekki var gefið tilefni til í frv. eða framsöguræðu hv. 1. flm. Ég get búizt við, að einhverjir þm. séu farnir að efast um, að raunsóknarinnar sé þörf, eftir þær miklu upplýsingar, sem bæði hv. þm. Ísaf. og hv. þm. G.-K. hafa gefið hér um útgerðarmálin. En þó að ég efi ekki, að það, sem þeir segja, sé rétt, bæði um eigin verk og hvor um annars afrek, vil ég þó ekki sem 2. flm. frv. taka það aftur, heldur mæla með, að afgreiðslu þess verði hraðað.