25.04.1938
Efri deild: 53. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 662 í B-deild Alþingistíðinda. (886)

69. mál, togaraútgerðarnefnd

*Sigurjón Á. Ólafsson:

Það er aðeins út af ræðu hv. 1. landsk. og þeirri brtt., sem hann ber fram, að ég stend hér upp,til þess að segja fáein orð.

Ég vildi í fyrsta lagi mælast til þess, að hann tæki brtt. aftur til 3. umr., og sjái til, hvað okkur kann að verða að samkomulagi um hana í n., því að sú hugmynd, sem fram kemur í henni, gæti e. t. v. verið frambærileg innan n., þó að hún sé það ekki, eins og hún er hér fram sett. Það eru vitanlega fleiri á skipunum heldur en þeir, sem þarna eru tilgreindir, hásetar, kyndarar og matsveinar. Þar koma líka til greina loftskeytamenn, vélstjórar o. s. frv. Ég hygg, að það sé rétt, að n., hvernig sem hún kann að verða skipuð, hafi greiðan aðgang að öllum þeim starfsgreinum, er á skipunum vinna, og mætti með öðru orðalagi koma því inn í frv., að n. væri skylt að ræða við þær, án þess að til þess væru kosnir sérstakir menn úr hverri grein. Ég er sem sagt með hugmynd hv. till. manns um það, að n. verði að leita til þessara starfsgreina, og þess vegna vildi ég gjarnan, að n. gæfist kostur á að taka þessa brtt. til athugunar fyrir 3. umr. og sjá. hvort ekki gæti orðið samkomulag um það, hvernig þetta mætti orðast almennt.

Að öðru leyti ætla ég mér ekki að blanda mér inn í þetta mál. Það er ekki neitt hægt um það að segja, hvernig kann að takast til um slíka rannsókn sem þessa. Hér er vitanlega mikið og vandasamt verk fram undan, það er öllum ljóst, að það kostar mikla nákvæmni, elju og sannleiksleit. Hvaða niðurstöðu n. kann að fá, getur enginn um sagt, og það, hvaða till. verða gerðar, byggist á þeirri rannsókn, sem fram fer. Ég hefi nokkra reynslu af slíkri rannsókn sem þessari úr togaraútgerðarnefndinni, sem aðallega beindist að togurunum hér í Reykjavík. Sú n. komst í raun og veru ekki að neinni verulegri niðurstöðu, því að rannsókninni var slitið, áður en til þess kom. En það, sem þar kom upp, gaf tilefni til þess, að rannsókn eins og þessi væri fullkomlega nauðsynleg og þyrfti að vinnast af mikilli nákvæmni og kostgæfni.

Fleira þarf ég svo ekki að taka fram við þessa umr., en geymi mér til 3. umr. að tala frekar um málið.