07.05.1938
Sameinað þing: 28. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 164 í B-deild Alþingistíðinda. (89)

1. mál, fjárlög 1939

*Guðrún Lárusdóttir:

Herra forseti! Það eru aðeins örfá orð í sambandi við brtt. á þskj. 460 frá hv. þm. Vestm., um endurgreiðslu á innflutningsgjaldi og álagningu grænmetisverzlunar ríkisins á kartöflur. Ég tel þessa brtt. svo mikils virði og svo sanngjarna, að ég vænti þess, að hún verði samþ., því að ef fólki á yfirleitt að vera kleift að rækta kartöflur til matar, verður að sjá svo um, að útsæðið sé ekki selt óhæfilega dýrt. Þetta er önnur hlið þessa máls, en ég vil einnig benda á hina hliðina; sem sé þá, að um það verði séð, að grænmetisverzlun ríkisins sæi jafnan um, að ætíð væri til nægilegt útsæði handa því fólki, sem þarf á slíkri vöru að halda. Nú hefir það flogið fyrir, hvort sem ástæða er fyrir því eða ekki, að grænmetisverzlunin sé alveg kartöflulaus, svo að það fólk, sem ekki hefir nú þegar getað aflað sér útsæðiskartaflna, geti ekkert fengið. Það er vitanlegt, að nú stendur yfir sá tími, sem þarf að koma útsæðinu ofan í jörðina. Það er því meira en lítið bagalegt, ef fólk getur ekki fengið þessa vöru, sem því er ómögulegt að komast af án.

Það var meining mín með þessum orðum að spyrja, hvort hæstv. atvmrh. gæti ekki gefið mér upplýsingar um, hvort þetta muni vera tilfellið, að grænmetisverzlunin sé gersneydd því að eiga kartöflur til útsæðis eða til matar. Að vísu hefir flogið fyrir, að von sé á kartöflum með einhverju skipi, en verðið yrði svo gífurlega hátt — 23 kr. tunnan —, að fátækur almenningur gæti ekki lagt sér slíkt til munns.

Ég vek máls á þessu, af því að ég tel þörf á, að þeir, sem að grænmetisverzluninni standa, sjái svo um, að fólk verði ekki í vandræðum vegna þessara hluta, og greiði fyrir því, að þessar kartöflur gangi sem jafnast yfir. Mér er líka sagt, að einstakir menn hafi getað haft út talsvert mikið af þessu, en svo hafi aðrir ekkert. Það þarf að jafna þessu svo vel niður, að enginn, sem þessa vöru þarf að fá, verði alveg afskiptur.

Ég ætla svo ekki að hafa fleiri orð um þetta, en vona fastlega, að hv. þm. sjái um, að slíkt komi ekki fyrir, að þegar fólk á að fara að setja ofan í garðana, þá sé ekki hægt að fá útsæði. Það má ekki koma fyrir, svo framarlega sem um nokkra kartöfluræktun á að vera að ræða í framtíðinni.

Að lokum vil ég þakka þeim hv. þm., sem hafa látið falla stuðningsorð með brtt. minni um styrk til sjúkrahælis fyrir áfengissjúklinga og þar með sýnt skilning sinn á þessu máli, og ég vil fyllilega treysta því, að aðrir hv. þm. eigi eftir að sýna sama skilning og velvilja á málinu við atkvgr.