02.05.1938
Sameinað þing: 23. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 181 í B-deild Alþingistíðinda. (99)

1. mál, fjárlög 1939

Brynjólfur Bjarnason:

Háttv. þingmenn! Góðir hlustendur! Hæstv. fjmrh. upplýsti í ræðu sinni við 1. umr. fjárl., að á síðasta ári hefði vantað hátt á þriðju millj. kr., til þess að gjaldeyrisjöfnuður væri tryggður, ef standa ætti skil á öllum greiðslum við útlönd. Hann sagði ennfremur, að ekki væri unnt að minnka innflutning á erlendum neyzluvörum meira en orðið er, nema með skömmtun á nauðsynjum eða samskonar neyðarráðstöfunum eins og aðeins þekkjast á ófriðartímum, eða þegar hallæri eða sérstök vandræði ber að höndum. Og af öllu þessu dró hann þá ályktun,að það hlyti að verða nauðsynlegt á þessu ári að draga úr vexti innienda iðnaðarins með því að takmarka við hann gjaldeyri til efniskaupa enn meira en verið hefir. Og nú fer hæstv. fjmrh. fram á að taka 12 millj. kr. lán til að standa skil á erlendum greiðslum.

Frá sjávarútveginum berast þær skýrslur, að þar sé allt í kaldakoli og flestir togararnir séu reknir með ærnu tapi. Nýjar og nýjar milljónir hlaðast ofan á töpin, sem bankarnir hafa haft af sjávarútveginum. Það er alveg sýnilegt, að slíkt ástand getur ekki endað nema í hruni, sem hlýtur að verða því stórkostlegra sem lengur er dregið að taka í taumana. Eins og nú standa sakir, eru togaraútgerðarmenn beinlínis orðnir þurfalingar Reykjavíkurbæjar, þar sem horfið hefir verið að því ráði að gefa þeim eftir lögboðin gjöld.

Atvinnuleysið fer sífellt vaxandi. Á þessum vetri hefir tala atvinnuleysingja verið að jafnaði um það bil 200 hærri en í fyrra. Á tveimur árum hefir launaupphæð sú, sem meðlimir Vinnuveitendafélagsins hafa greitt, lækkað um tæplega 21/2 — tvær og hálfa — milljón. Á fimm síðustu árum hefir fátækrabyrðin nærri tvöfaldazt, og mun nú vera orðin nærri fjórum millj. Þetta eru aðeins nokkrar myndir af því ástandi, sem ríkir meðal þjóðarinnar. Það er — í stuttu máli — neyðarástand. Og framundan er ný heimskreppa eða ný heimsstyrjöld. Það eru því næg verkefni, sem liggja fyrir hæstv. Alþ. Það er sannarlega mikil þörf stórra verka. Hvað er svo gert á hinu háa Alþ. undir forustu hæstv. ríkisstjórnar? Á forsíðum stjórnarblaðanna skarta stórar fyrirsagnir um, að fiskimálanefnd fái til umráða 50 þús. kr. til viðbótar við það, sem hún hefir fengið úr ríkissjóði, og að framlagið til verkamannabústaða verði hækkað úr 30 þús. kr. upp í 80 þús. kr. á árinu 1939. Hins er ekki getið, að samkv. l. eiga byggingarsjóðirnir ekki að fá 80 þús. kr., heldur 300 þús. kr., og þess er heldur ekki getið, að í sumar verður ekki hægt að hyggja neina verkamanna6ústaði vegna þess að ekki hefir verið útvegað lán til þeirra og vegna þess, að þeir hafa undanfarið verið sviptir því fé, sem þeim ber að lögum.

En stærsta afreksverkið, sem þetta þing á að leysa af hendi, er þá vinnulöggjöfin, sem á að svipta verkalýðssamtökin frjálsræði til að bæta kjör stéttarinnar, á sama tíma sem hundruð verkamannafjölskyldna bætast í hópinn, sem verður að flytja á náðir sveitarinnar sem eina athvarfsins til að geta haldið í sér lífinu.

Ljótasti vitnisburðurinn, sem þessi stjórn hefir fengið, eru þau orð, sem hv. þm. G.-K. sagði í upphafi ræðu sinnar um vantraustið á ríkisstjórnina og sem bróðir hans var að endurtaka hér áðan. Hann sagði, að stærstu mál þriggja þinga í röð hefðu verið leyst með samvinnu Sjálfstfl., Bændafl. og Framsfl. Og þessi mál væru Kveldúlfsmálið á vorþinginu 1937, sem hefir orðið til þess, að Kveldúlfur hefir bætt nýjum milljónum við skuldir sínar á kostnað allrar þjóðarinnar, lögin um síldarverksmiðjur ríkisins á haustþinginu 1937, sem eru ein hin stærsta árás á hagsmuni og réttindi sjómannastéttarinnar, og svo gerðardómsl. frá þessu þingi. Loks verða á þessu þingi afgr. lög um vinnudeilur, sem miða að því að lama viðnámsþrótt verkalýðssamtakanna og íhaldið hefir lýst ánægju sinni yfir, samtímis því sem verkalýðsfélögin hafa harðlega mótmælt.

Svo langt er komið samvinnu afturhaldsaflanna í landinu gegn verkalýðshreyfingunni. Og Thorsararnir geta ekki aðeins þakkað bandamönnunum í Framsfl. góða samvinnu, heldur geta þeir líka þakkað hægri mönnunum í Alþfl. dygga aðstoð til þess, að allt þetta mætti ske.

En hv. þm. G.– K. er þetta ekki nóg. Hann sagði í umr. um vantraustið, að óvenjuleg þörf myndi verða á því að bæla niður kaupdeilur með aðstoð ríkisvaldsins á næstu vikum og mánuðum. Það var ekki hægt að skilja orð hans öðruvísi en svo, að hann heimtaði gerðardóm í farmannadeilunni, vegavinnudeilunni og deilunni við síldarverksmiðjurnar á Siglufirði. Aftur á móti minntist hann ekkert á gerðardóm til þess að ákveða kaup forstjóra hjá gjaldþrota útgerðarfyrirtækjum. Og hann spurði: Verður ríkisvaldinu beitt til þess að gera gerðardómslögin gildandi? En það er vitanlega ekki hægt nema með því að taka sjómennina með valdi og láta þá vinna á skipunum sem ánauðuga menn.

Hv. þm. G.-K. talaði í þetta skipti svo skýru máli, að enginn alþýðumaður þarf að efast um, hvað í vændum er, ef íhaldið fær valdaaðstöðu. Það var hin grímulausa harðstjórn fasismans, sem teygði fram klærnar í ræðu hv. þm. G.- K. Og svarræða hæstv. forsrh. við þessar umr. var því miður ærið ískyggileg. Hann tók undir það með íhaldsforkólfinum, að kaupkröfur verkamanna á Siglufirði væru ósanngjarnar. Þessir verkamenn, verkamennirnir við síldarverksmiðjurnar, hafa haft 325 kr. á mánuði, auk eftirvinnu, og tryggingu fyrir vinnu aðeins í tvo mánuði. Aðra vinnu hafa þeir yfirleitt ekki, svo að það, sem þeir reyta upp þennan stutta tíma, er árskaupið. Þegar þessir menn fara svo fram á smávægilega hækkun með vaxandi dýrtíð, þá kallar hæstv. forsrh. það æsingar og ósvífni. Hitt hefir hann ekkert að athuga við, þó að iðjuleysingjar yfirstéttanna hafi allt að hundrað þús. kr. í árslaun. Og orð hans urðu ekki skilin öðruvísi en að hann teldi það vel geta komið til mála á næstunni, að klíka hv. þm. G.-K. tæki þátt í ríkisstjórninni til þess að geta beitt áhrifum sínum til að framkvæma þessa líka þokkalegu stefnuskrá, sem hann lýsti í ræðu sinni.

Verkalýður og bændur verða því að vera vel á verði. Það er barizt um það, hvort afturhaldsklíka íhaldsins á að fá valdaaðstöðu til að undiroka þjóðina og mergsjúga hana enn meir en orðið er, eða hvort þjóðin, sá yfirgnæfandi meiri hluti hennar, sem vinnur í sveita síns andlits, á að sameinast til að leysa hin aðkallandi vandamál, eins og Kommúnistafl. Íslands hefir unnið að árum saman. Till. þær og frv., sem við kommúnistar höfum flutt hér á Alþ., miða allar að því að leysa einmitt þessi aðkallandi vandamál.

Ég held, að hverjum hugsandi manni í landinu, sem nokkuð hefir fylgzt með þessum málum, sé það ljóst, hvernig stendur á því öngþveiti, sem sjávarútvegurinn, undirstöðuatvinnuvegur landsmanna, er í. Þar er vissulega ekki aðeins utanaðkomandi örðugleikum um að kenna, heldur líka öðrum orsökum, sem eru viðráðanlegar, ef þjóðin þorir að horfast í augu við staðreyndirnar og mæta þeim. Óstjórn hnignandi auðvaldsskipulags hefir lagzt eins og mara á þennan atvinnuveg. Það er víst, að þjóðin þarf að spara á þessum erfiðu tímum. En þá ríður á, að þar sé sparað, sem þörfin er mest, þar sem mestu er sóað. Og sóunin í sambandi við togaraútgerðina hefir verið alveg gegndarlaus. Veiðarfærasóuninni, sem á rót sína að rekja m. a. til óhæfilegs launafyrirkomulags yfirmanna á skipunum, er viðbrugðið. Fjöldi hálaunaðra framkvæmdarstjóra lífir sníkjulífi á útgerðinni. Skipin eru úrelt og liggja í höfn mikinn hl. ársins. Það er mjög athyglisvert, að þeir togarar, sem hafa lengstan veiðitíma, bera sig bezt. Stærstu skellina hefir þó útgerðin fengið af æfintýralegri spákaupmennsku einstakra manna, sem ráða yfir þessum framleiðslutækjum. Og þegar eitthvað hefir verið upp úr útgerðinni að hafa, hefir fjármagnið lent í höndum þessara einstöku manna, sem sýnast hafa sóað því í landinu sjálfu eða komið því undan til útlanda. Á þessari ráðsmennsku hafa bankarnir, sem kunnugt er, tapað tugum milljóna. Og öll þessi ráðsmennska hefir þróazt í skjóli Landsbankastjórnarinnar. Það virðist því vera nokkurn veginn augljóst, að á þessu öllu verður ekki bót ráðin, nema gerð verði stórfelld tilraun til að binda enda á tapreksturinn og spákaupmennskureksturinn. Það þarf að koma hinum gjaldþrota fyrirtækjum á hreint og setja stjórn útgerðarinnar í hendur ábyrgra manna. Og fyrsta skrefið í þá átt hlýtur að vera að setja stjórn í Landsbankann, sem er í samræmi við vilja þjóðarinnar og hefir þjóðarheill fyrir augum. Þess vegna hafa þingmenn Kommfl., ásamt hv. 3. þm. Reykv., borið fram frv., sem tryggir það, að stjórn Landsbankans sé á hverjum tíma í samræmi við vilja Alþ. Það er samskonar frv. og Alþfl. bar fram fyrir kosningarnar í fyrra. En nú bregður svo við, að hinn svokallaði Alþfl. á Alþ. virðist hvorki vilja heyra þetta frv-. né sjá.

Annað, sem þarf að gera, er að endurnýja fiskiflotann í samræmi við kröfur tímans. Þess vegna höfum við kommúnistar lagt til, að ríkið gengi í ábyrgð fyrir 700 þús. kr. til kaupa á stórum mótorskipum, sem flestir eru sammála um, að henti bezt og mest sé nauðsyn á, eins og nú standa sakir. Þetta var fellt af samfylkingu allra hinna flokkanna við 2. umr. fjárl. Það, sem veldur smáútveginum mestra örðugleika, er það einokunarverð, sem hann þarf að greiða fyrir vörur til útgerðarinnar. Eitt hið mesta nauðsynjamál smáútgerðarinnar er því að fá umráð yfir nægum gjaldeyri til þess að geta keypt útgerðarvörur og skapað sér samtök til innkaupa til þess að verða óháðari hringunum. Fyrir þessu höfum við kommúnistar barizt árangurslaust hér á Alþ. Það er skírskotað til gjaldeyrirsvandræða til að andæfa þessari réttlátu kröfu. En lausn gjaldeyrismálanna er einmitt í því fólgin að leysa vandkvæði sjávarútvegsins. Þetta tvennt verður ekki skilið hvort frá öðru. Sama máli gegnir um baráttu okkar fyrir nauðsynlegum gjaldeyri handa innlenda iðnaðinum. Það er eitthvert mest aðkallandi nauðsynjamál þjóðarinnar, að innlendi iðnaðurnn sé efldur, til þess að landið geti orðið meir og meir óháð erlendum innflutningi. — Í þessu skyni höfum við einnig flutt till. um, að veitt yrði fé til hagnýtra jarðvegsrannsókna og til rannsókna á vatnsorku og hveraorku landsins, til iðnaðar, hitunar og annara nota. Hér er um að ræða ótæmandi auðlindir, sem til eru í landinu, meðan þjóðin hjarir á heljarþröm og á á hættu, að henni verði allar bjargir bannaðar, ef ófrið ber að höndum. Samt voru þessar till. okkar felldar af samfylkingu hinna flokkanna. Aðrar till., sem við berum fram til aukningar atvinnunnar í landinu, eru meðal annars þessar:

Í fyrsta lagi, að framlag ríkisins til atvinnubóta verði hækkað um 350 þús. kr. Það þýðir hækkun atvinnubótafjárins um rúml. eina millj. kr. alls, að meðtöldu framlagi bæjar- og hreppsfélaga.

Þessi till. okkar var felld af öllum öðrum þingfl. í sameiningu við 2. umr. fjárl. Aðeins 6 hv. þm. greiddu atkv. með henni. Eftirtektarvert fyrir alþýðu manna var það, að Haraldsflokkurinn, sem kallar sig Alþfl., lagði fram lið sitt til þess að fella þessa margítrekuðu kröfu verkalýðsfélaganna. Þm. þess flokks sátu allir hjá við atkvgr., nema einn greiddi atkv. á móti og einn með; það var hv. 11. landsk. þm., Erlendur Þorsteinsson.

Í öðru lagi bárum við fram till. um ríflega aukið framlag til vegagerða, til þess að hægt væri að ljúka við vegagerðir á þýðingarmiklum samgönguleiðum, eins og Sogsveginn og veginn yfir Siglufjarðarskarð.

Í þriðja lagi bárum við fram till. um, að til verkamannabústaða yrðu veittar 300 þús. kr. af tekjum tóbakseinkasölunnar, í stað 30 þús., eins og frv. gerði ráð fyrir, eða m. ö. o., að til verkamannabústaða yrði veitt sú upphæð, sem þeim ber að l. og þeir hafa verið sviptir með bráðabirgðal. á hverju einasta þingi þessi 7 ár, sem liðin eru, síðan l. um tóbakseinkasöluna voru samþ.

Í fjórða lagi bárum við fram till. um, að framlag til vitamála yrði hækkað um 180 þús. kr., þannig að hægt væri á næsta ári að byggja tvo vita, þar sem þörfin er brýnust. Þetta er ekki meira en ber að leggja til vitamála að réttu lagi samkvæmt l., ef ekki væri beitt undantekningarákvæði, sem illu heilli hefir verið sett inn í f. og árangurslaus tilraun hefir nú verið gerð til að fá út.

Allar þessar till. okkar voru felldar af samfylkingu hinna flokkanna við 2 umr. fjárl. Ég hefi ekki tíma til að skýra frá öllum frv., sem við kommúnistar höfum flutt hér á Alþ. um almennar kjarabætur fyrir alþýðu manna, sem miða að hagsmunalegum og menningarlegum framförum fyrir alþjóð. Ég vil aðeins drepa á eitt, og það er frv. okkar um gagngerðar breytingar á framfærslul. Ef frv. þetta yrði að l. og framkvæmdir yrðu í samræmi við tilgang l., mundi það hafa í för með sér gerbreytingu á afstöðu og kjörum þeirra fátæklinga, sem njóta opinbers styrks. Frv. þetta miðar fyrst og fremst að því að fá skýlausa viðurkenningu á mannréttindum fátæklinganna, þannig að opinber styrkur verði ekki lengur ölmusa, heldur skýlaus réttur, svo lengi sem þjóðfélagið er þess ekki umkomið að tryggja öllum meðlimum sínum tækifæri og möguleika til sjálfstæðs lífsframfæris. Þetta frv. höfum við nú flutt á þremur þingum í röð. En það hefir aldrei komizt lengra en til 1. umr. og n. Það hefir ekki einu sinni tekizt að fá skilað nál. um svona stórkostlegt mál. Á þessu geta menn nokkuð markað, hverskonar fulltrúar það eru, sem þjóðin hefir slysazt til að senda inn á hið háa Alþ. Það eru menn, sem sýnilega hafa öðrum hnöppum að hneppa en að taka til meðferðar mál, sem snerta hina hörðu daglegu lífsbaráttu þess fólks, sem byggir þetta land.

Allar þessar till. okkar hafa ekki aðeins verið miðaðar við að auka atvinnu verkalýðsins og bæta kjör hans, heldur hafa þær jafnframt haft þann tilgang, að bæta úr brýnni þörf, að létta undir með þróun landbúnaðarins, með því að koma undirstöðuatvinnuvegunum á réttan kjöl og skapa öruggari innanlandsmarkað. Þær hafa haft þann tilgang að gera landið atvinnulega og fjárhagslega sjálfstætt og búa okkur undir yfirvofandi heimskreppu og einangrun í stríði. Það hlýtur öllum að vera ljóst, að til þess að ná þessum tilgangi, þarf samstillingu kraftanna, þarf sameiginleg og skipulagsbundin átök. Þess vegna höfum við borið fram þáltill. um, að sett væri nefnd, sem skipuð væri fulltrúum allra þingflokka og hefði það verkefni að gera till. um ráðstafanir til að mæta yfirvofandi heimskreppu og stríði. Hver einasta þjóð í heiminum er nú á sinn hátt að búa sig undir þessa atburði, sem allir vita, að eru framundan. En hér er allt látið reka á reiðanum. Þessi till. okkar hefir ekki fengizt afgr. fyrr en í dag, þó að næstum tveir mánuðir séu liðnir, siðan við bárum hana fram. Og í dag hummuðu hv. þingmenn hana fram af sér með því að vísa henni til ríkisstjórnarinnar.

Hæstv. forsrh., Hermann Jónasson, sagði í framsöguræðu sinni um vantrauststill. Sjálfstfl., að á slíkum alvörutímum og nú eru framundan mætti þjóðin ekki skipa sér í tvær breiðfylkingar. Í stað þess að skipa sér í tvær fjandsamlegar fylkingar yrði hún að skipa sér þétt saman og sameinast í eina heild til að leysa vandamálin, þegar svo mikið lægi við. Hann sagði, að það gæti orðið þjóðarnauðsyn að mynda stjórn með öllum ábyrgum flokkum. Við kommúnistar erum hæstv. forsrh. alveg sammála um það, að eins og ástandið er og eins og horfurnar eru, þá sé það þjóðarnauðsyn, að öll þjóðin skipi sér í eina sveit til þess að leysa vandamálin. En hvað er þjóðin? Það eru verkamennirnir, bændurnir, útvegsmennirnir, iðnaðarmennirnir, handverksmennirnir, verzlunarfólkið, menntamennirnir, starfsmennirnir o. s. frv. Við viljum, að allt þetta fólk skipi sér þéttar saman, hvar í flokki, sem það stendur, til þess að geta lifað eins og mönnum er samboðið, til þess að vernda líf, réttindi og menningu þjóðarinnar. Þeir tímar geta komið að allt annað verði að víkja fyrir kjörorðinu: Íslendingar! Skipið ykkur þéttar saman!

En þessi samfylking ísl. þjóðarinnar er ekkert annað en hræsni og fals, ef tilgangur hennar er einhver annar en sá, að vernda hagsmuni og réttindi þess fólks, sem þjóðina myndar. Við skulum því ekki fara gálauslega með þessi orð um sameiningu þjóðarinnar. Við skulum ekki leyfa það, að hægt sé að nota slík orð sem skálkaskjól fyrir óvini þjóðarinnar.

Í þessari ræðu sinni lét hæstv. ráðh. ýms orð falla, sem benda til þess, að orð hans hafi verið blönduð áhrifum frá mönnum, sem vilja allt annað en sameiningu þjóðarinnar. Hann taldi ósanngjarnar hóflegar kaupkröfur þeirra manna, sem hafa 300–400 kr. laun í 2 mánuði — ég á hér við laun verkamanna við síldarverksmiðjur ríkisins á Siglufirði — á sama tíma sem hann minntist ekki á það hóflausa milljónasukk, sem framið er með fé þjóðarinnar. Hann talaði um hóflega og sanngjarna vinnulöggjöf, sem hann vildi afgreiða, á sama tíma sem hann lætur leggja frv. fyrir Alþ., sem skerðir verkfallsréttinn svo stórkostlega, að andstæðingar verkalýðshreyfingarinnar eru ánægðir með það. Hann vill lama verkalýðssamtökin, á sama tíma sem hann talar um sameiningu þjóðarinnar. Ef þessi orð hans, sem ég gat um áðan, væru byggð á fullum skilningi og heilindum, mundi hann vita það, að styrkasta stoðin, sem renna mundi undir raunverulega sameiningu þjóðarinnar, er öflug verkalýðssamtök. Hann sagðist álíta, að betra væri að biða en að samþ. l., sem væru í fullum fjandskap við verkalýðshreyfinguna. Á sama tíma lýsir hann yfir því, að hann ætli að knýja í gegn vinnulöggjöf, sem yfirgnæfandi meiri hl. verkalýðsfélaganna hefir harðlega mótmælt. Og þessi orð talar hann nokkum dögum eftir, að hann knúði í gegn með íhaldinu l. um gerðardóm, sem öll verkalýðsheyfingin lítur á sem fjandskap við sig. Slík tvöfeldni er ekki til þess fallin að auka traust hæstv. forsrh., ekki til þess fallin að gefa hinum fögru orðum hans gildi, heldur vekja þau hina ýtrustu tortryggni, og það með réttu.

Meðal þjóðarinnar eru nokkrir menn, sem eru engir vinir þjóðarinnar. Þessir menn drottna yfir miklum hluta af auðmagni hennar. Fulltrúi þeirra, hv. þm. G.-K., hélt framsöguræðuna um vantraustið á ríkisstj., og bróðir hans hélt aðra ræðu áðan í sama dúr. Við fengum að heyra, hvað hann vildi. Hann vill, að nokkrir útgerðarmenn fái umráð yfir næstum öllum gjaldeyri þjóðarinnar, til þess að krónan geti lækkað, kjör fólksins versnað og landið lent í örþroti. Hann vill, að því fyrirkomulagi verði haldið áfram, að gjaldþrota fyrirtæki geti sótt fé í bankana, að heita má eftir vild, og svo verði þjóðin að borga töpin, sem að miklu leyti í stafa af rekstri, sem er fyrir neðan alla gagnrýni, og æfinýralegum „spekúlatiónum“. Hann vill, að „bætt verði úr atvinnuleysinu“, ekki með því að afla fjár til að auka atvinnuna, heldur með því að lækka kaupið á sjó og landi, á sama tíma sem sukkið og svallið með fé almennings er látið óhindrað. Á þennan hátt vill hann gera þau ömurlegu kjör, sem verkalýðurinn á við að búa, enn ömurlegri, og með því að eyðileggja kaupgetuna í bæjunum auka enn meira á vandræði bændanna, eyðileggja innanlandsmarkað þeirra. Til þess að framkvæma allt þetta vill hann „sterka stjórn“. Og þessi sterka stjórn á með l. að taka verkfallsréttinn af verkamönnum og framkvæma l. með lögregluvaldi á þann hátt, að menn séu þvingaðir sem ánauðugir væru til þess að vinna fyrir það kaup, sem þeim er skammtað.

Ég geri ekki annað en skýra frá alkunnri staðreynd, þó að ég segi það hér, að það leikur grunur á mönnum, sem standa nálægt þessum hv. þm., um það, að þeir standi í nánu sambandi við ráðamenn erlendra ríkja. Það hefir skeð í fleiri löndum en hér, að þjóðirnar vakna við það einn góðan veðurdag, að erlend vopn í höndum innlendra manna hafa verið notuð til að kúga þær undir leppsvald erlendra ríkja.

Það var svo að heyra sem hæstv. forsrh. gæti hugsað sér samsteypustj. með þessum mönnum á alvörutímum þjóðarinnar, og manni skildist hann kalla þetta sameiningu þjóðarinnar. Manni leyfist því að spyrja: Hvernig er hægt að sameina þjóðina með því að taka höndum saman við andstæðinga hennar? Var það á þennan hátt, sem spánska þjóðin sameinaðist? Nei, spanska þjóðin varð að sameinast gegn erlendum innrásarherjum og bandamönnum þeirra í landinu sjálfu.

Það er vissulega ekki hægt að sætta úlfinn og lömbin. Úlfurinn vill engar aðrar sættir en að fá saðning sinn.

Við kommúnistar viljum sameiningu þjóðarinnar, sameiningu allra þeirra, sem vinna nytsamt starf, hvort heldur þeir tilheyra Framsfl., Sjálfstfl., Bændafl., Alþfl. eða Kommfl. Það er þessi þjóðfylking, sem við viljum, og teljum, að hún verði meiri þjóðarnauðsyn með hverri vikunni, sem liður. En okkur er það líka fyllilega ljóst, að slík sameining þjóðarinnar verður ekki sköpuð með orðum einum, heldur með hörðum átökum og langvinnri baráttu. Við viljum vissulega sættast við alla andstæðinga, sem vilja duga þjóðinni á neyðartímum. En okkur er það líka ljóst, að slík fylking þjóðarinnar þarf að búa sig undir bardaga, ekki aðeins við afleiðingar heimskreppu eða heimsstríðs, ekki aðeins erlenda ásælni, heldur líka við bandamenn þessara afla með þjóðinni sjálfri.