08.12.1939
Sameinað þing: 17. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 453 í B-deild Alþingistíðinda. (1010)

1. mál, fjárlög 1940

*Viðskmrh. (Eysteinn Jónsson) :

Ég ætla ekki að flytja langa ræðu, en ég ætla að minnast á brtt. í lið nr. 32, um verðlagsn., þar sem n. eru áætlaðar 30 þús. kr. í stað 25 þús. Eftir lauslegri áætlun um kostnaðinn við starf n. á næsta. ári, sem send var til fjvn. — ég man ekki hvaða dag hún var send, það var einhverntíma um síðustu mánaðamót, — þá var ljóst, að við höfum ekki trú á, að hægt muni með nokkru móti að reka hana með 30 þús. kr. tillagi, og vil ég beina því til hv. fjvn., að hún taki þessa brtt. aftur til 3. umr., en athugi áður áætlun þá, sem við höfum sent úr ráðuneytinu.

Ég skal geta þess, að eins og ástatt er, þá er verðlagsnefnd ætlað að hafa afskipti af verðlagi á næstum því hverri einustu vörutegund, bæði hér í höfuðstaðnum og úti um land. Ef nokkur mynd á að verða á því, kostar það auðvitað mikið eftirlit. Ég vil benda á, að fram að þessu hafa 6 aðstoðarmenn starfað hjá n., og ekkert útlit er fyrir, að þeim verði fækkað, en margt mælir með því, að ef starfið á að vera í sæmilegu lagi, þá verið mannahaldið að aukast.

Þá vil ég segja nokkur orð um till. frá nokkrum hv. þm. á þskj. 409, um þá nýbreytni, sem ég stóð fyrir, að gerð væri, þegar fjárlfrv. var samið, að úr því væru teknir allir styrkir til skálda, rithöfunda og listamanna, en í staðinn væri ein upphæð veitt í 15. gr., sem úthlutað yrði samkvæmt ákvörðun menntamálaráðs. Ég hefi gert grein fyrir því, hvers vegna ég tel það ógerlegt, að Alþingi standi í því að gera upp á milli þeirra mörgu beiðna, sem berast um styrki, enda næsta æskilegt, að þetta hyrfi úr fjárl.

Umsækjendur um styrkina voru orðnir svo margir, að hv. þm. urðu fyrir stöðugum áróðri í því sambandi af þeim mönnum, sem vildu koma til greina, og stöfuðu af því miklar tafir í starfstíma þeirra. Þykir mér undarlegt, ef hv. þm. hafa ekki orðið þessa varir. Álít ég miklu einlægara að hafa þessar styrkveitingar ekki á fjárl., heldur fela þær sérstakri stofnun.

Ég vil benda á það, að fjárveitingar til einstakra manna í 18. gr. voru orðið veittar af handahófl. Svo var það orðin hefð, að menn, sem einu sinni komust í 18. gr., skyldu eftir það njóta styrks þar meðan þeim. entist aldur til. Nú er greinin orðin full af ungum mönnum, sem að vísu eru margir efnilegir, en allt þetta er orðinn hinn mesti vandi. Því virðist heppilegra að taka upp hina aðferðina.

Það kann vel að vera, að mönnum þyki hér í mikið ráðizt, að fela einum 5 mönnum ráð á þessu. Ef mönnum finnast þeir of fáir, þá er nær að finna meðalveg í því, t. d. þegar menntamr. hefir þetta sérstaka hlutverk með höndum, sem vissulega er mikils um vert, hvernig tekst, þá sé bætt einhverjum mönnum við. Ég gæti hugsað mér, að það yrði framkvæmt þannig, að bætt yrði 3 mönnum við í menntamálaráð, sem verði ca. 4 dögum á ári til úthlutunarinnar, eftir að umsóknarfrestur hefði verið auglýstur, — sem sagt að nokkrir menn væru í þessu eina máli teknir til viðbótar, en menntamr. væri eins og fastur kjarni. Ef þetta þættu enn of fáir menn, mætti bæta úr því, en ég vil vara menn við að fara að setja þetta aftur inn í fjárl.; það er áreiðanlega stór léttir fyrir Alþingi að losna við þetta. Það mætti benda á mörg dæmi þess, hve andkannalega hefir tekizt að afgreiða þetta mál. Það mætti að vísu segja, að einnig gætu orðið mislagðar hendur hjá færri mönnum, en ég hefi trú á, að færri mönnum mundi takast þetta betur, og ef menn geta ekki fallizt á þessa till., þá er ég viss um, að finna má einhverja aðra lausn, sem yrði til bóta frá því, að þetta yrði sett aftur í fjárl. — Sé ég svo ekki ástæðu til að segja meira að þessu sinni.