17.04.1939
Neðri deild: 41. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 49 í B-deild Alþingistíðinda. (119)

6. mál, lax- og silungsveiði

*Garðar Þorsteinsson:

Út af því, sem hv. þm. Skagf. héldu fram, að með þessari brtt. væri verið að víkja frá meginreglu l. þeirra, sem sett voru 1932. vil ég benda á það, að með sjálfu frv. er vikið frá þessari meginreglu. Í l. eru sett ákvæði um það, hve langan tíma í viku skuli taka net upp úr á, en í frv. er veitt undanþága frá þessari vikulegu friðun. Í grg. fyrir bráðabirgðal. er þessi undanþága bundin við eina ákveðna á, Ölfusá, en í frv. er hún ekki lengur bundin við þetta sérstaka veiðifélag og heimildin orðin almenn. Ef þessir hv. þm. vildu vera sjálfum sér samkvæmir, ættu þeir því að vera á móti frv.

Út af þeirri brtt. hv. n., að heimilt skuli að veiða í sjó í lagnet og króknet, vil ég láta í ljós það álit mitt, að hún sé ekki eins hættuleg og sumir vilja vera láta. Ég held, að hægt sé, eins og hv. frsm. tók fram, að benda á mörg dæmi þess, að ákvæði l. í þessu efni komi ósanngjarnlega niður.

Í 14. gr. er heimilað að veiða silung í sjó á færi og stöng og í ádráttarnet. Nú er það vitanlegt, að slíkur ádráttur verkar þannig, að lax veiðist einnig. (PHann: Ég held, að hv. þm. hafi ekki reynt að veiða lax í ádráttarnet í sjó. Hann er fljótur að færa sig.) Ég hygg, að það sé þó ekki dæmalaust, að lax hafi verið veiddur í sjó við ádrátt. Og ég tel það ekki áhættumeira að leyfa beinlínis laxveiði í sjó í ádráttarnet innan netlaga en í lagnet og króknet. Ég myndi þó leggja til, að slík veiði væri ekki leyfð nær árósum en 500 m. Vil ég því bera fram brtt. við brtt. á þskj. 141, að aftan við 2. brtt. bætist: „né nær árósum en 500 metra, ef um á er að ræða, sem lax gengur í úr sjó“. Ég veit, að hv. 1. þm. Skagf. þekkir dæmi þess, að við slíkar veiðar, sem eru gerðar til þess að veiða silung, veiðist oft og einatt lax, og ég hygg, að menn kasti yfirleitt ekki þeim laxi í sjóinn, er þannig veiðist, þótt það eigi að gera samkv. l., enda eru engar líkur til, að menn verði svo löghlýðnir, að nota sér ekki veiðina, þegar svo heppilega vill til, að lax kemur í netin, þótt þeir hafi lagt þau fyrir silung. Ég veit, að hv. 1. þm. Skagf. kannast vel við eitt tilfelli viðvíkjandi þeim silungsveiðum, sem hafa verið stundaðar við Eyrarbakka. Þar hagar svo til, að fyrir nokkrum árum var byggður garður, frá landi og nokkuð fram í sjó, ég veit ekki hvað mörgum metrum frá árósum Ölfusár, en ég býst við, að það hafi verið hér um bil 500-1000 metrar. Þessi garður var byggður til þess að koma í veg fyrir, að Ölfusá bæri sand út í

sjó og höfnin á Eyrirbakka grynnkaði svo, að hún yrði ekki nothæf fyrir báta. Ég hygg, að það hafi verið þannig allan þann tíma, sem núlifandi menn rekur minni til, að veiðar hafi verið stundaðar þar á þann hátt, að menn hafi lagt net sín á klappir, sem komu upp úr sjó um fjöru. Þau net, sem notuð hafa verið, eru smáriðin og því ætluð til þess að veiða silung. Menn hafa gengið þurrum fótum út til netja sinna um fjöru, en þau hafa verið fest við sker, og þegar flæðir að, komast netin í sjó og silungur kemur í þau. Þorpsbúar hafa notað þessa veiðiaðferð um margra ára skeið. Þessu hefir hinsvegar ekki verið vel tekið af veiðimálastjóra og yfirvaldi Árnessýslu, og þorpsbúum hefir nú verið stranglega bannað að láta net sín liggja þarna, en það hefir nú verið fremur illa upp tekið, því að menn hafa lagt net sín miklu fjær frá ósum Ölfusár en sem nemur 500 metrum, og þorpsbúar halda því einnig fram, að þarna sé um silunganet að ræða, en ekki laxanet, þó að óhamingjan (eða hamingjan) hafi stundum látið það atvikazt þannig, að lax hafi flækzt í þessi net, og ekki sé heimilað að veiða lax fjær landi en 500 metra. Ég hygg, að eins og heimilað er samkv. 14. gr. veiðil. að hafa ádrátt með stórum fyrirdráttarnótum um 500 metra frá slíkum árósum, ætti engu síður að vera heimilt að leggja net innan netlagna á þann hátt, sem gert er ráð fyrir í till. á þskj. 141. Ég tel rétt að setja þá aths. við þessa till., að slíkar netlagnir séu ekki nær árósum en sem svarar 500 metrum, og er það í samræmi við önnur ákvæði þessara laga.