06.11.1939
Neðri deild: 53. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 650 í B-deild Alþingistíðinda. (1193)

95. mál, gengisskráning og ráðstafanir í því sambandi

*Viðskmrh. (Eysteinn Jónsson):

Eins og menn rekur minni til, varð það að samkomulagi á þessu þingi, áður en því var frestað, að ákveða gengi íslenzkrar krónu, þannig að 27 krónur jafngiltu hverju sterlingspundi. Þegar þetta var ákveðið, jafngilti eitt sterlingspund 4,67 dollurum. Fyrst um sinn eftir breytinguna í vor hélzt þetta hlutfall óbreytt, en eftir 25. ágúst fór það að breytast, og ég hygg, að lægst hafi pundið komizt niður í 3.67 8, en það var 15. september. Hér var því úr vöndu að ráða fyrir ríkisstj., og ræddi hún um þetta hvað eftir annað á fundum sinum. Niðurstaðan af þessum bollaleggingum varð bráðabirgðalögin, sem út voru gefin 18. september og nú liggja fyrir hv. d. Að vísu var það haft fyrir augum, þegar gengishreytingin var gerð í vor, að hlutfallið milli sterlingspunds og dollars væri 4,67 og dollarinn fylgdi pundinu. En nú breyttist gengi annara mynta á þessum tíma. Til dæmis var 15. september — miðað við pundið á 27 kr. — dollarinn kominn upp í kr. 7,35, d. kr. upp í 143,03, n. kr. upp í 167,67, sv. kr. upp í 175,76 og ríkismörk upp í 277,78.

Hér var orðin mikil lækkun, miðað við allar aðrar myntir en sterlingspund. Nú var það vitanlegt, að þegar þingið ákvað, að íslenzka kr. skyldi fylgja pundinu, þá var miðað við það gengi, sem pundið hafði þá. Það var ekki þar með sagt, að við vildum láta krónuna fylgja pundinu, hversu mikið sem það lækkaði í hlutfalli við aðrar myntir. En hér var ýmislegt fleira, sem kom til athugunar, ekki sízt það, að búið var að selja talsvert af íslenzkum afurðum í sterlingspundum. Stjórnin hafði því mikla tilhneigingu til að forða framleiðendum frá tjóni vegna lækkunar sterlingspundsins. Eftir mikla athugun á þessu máli og eftir að hafa beðið nokkurn tíma og séð, hverju fram yndi, ákvað ríkisstj., í samráði við stuðningsflokka sína, að setja það í l., að íslenzka krónan skyldi fylgja pundinu svo lengi sem pundið jafngilti 4,5 dollurum, en þá fylgja dollar úr því. Þetta þýðir sama og að við fylgjum pundinu lækkuðu um 10–11% frá því, sem ákveðið hafði verið. Eftir þessa nýju skráningu er pundið 26,06, dollar 6,51, d. kr. 125,78, n. kr. 148,29, sv. kr. 155,40 og ríkismark 260,76. Við tökum eftir því, að danska krónan hefir mjög lítið hækkað frá því, sem var eftir fyrri gengisbreytinguna. Þetta stafar af því, að Danir hafa fylgt pundinu niður um 8%. Mismunurinn er aðeins það, sem þeir fylgdu pundinu skemmra en við. Hinsvegar hefir norska og svenska krónan hækkað í nokkurn veginn sama hlutfalli og við höfum ákveðið að fylgja pundinu niður, af því að þessar þjóðir hafa ekki lækkað sínar myntir með pundinu.

Það hefði e. t. v. mátt segja af hálfu framleiðenda, sem hér áttu hlut að máli, að þeir hafði orðið fyrir vonbrigðum, þar sem þeir hafi reiknað með gengi pundsins á kr. 27,00, en við því verður ekki séð, og það mun hafa verið álit flestra, að það hafi ekki verið hægt að ætlast til, að pundinu væri fylgt. Lækkunin hefði orðið allt of mikil. Það hefði aukið dýrtíðina of mikið að fara þessa leið. Af þeim ástæðum, sem ég nú. hefi nefnt, var sú aðferð valin, að fara bil beggja.

Nú verður þetta mál að sjálfsögðu athugað í n. og rannsakað, hvort ástæða mundi vera til að breyta nokkuð um frá þeirri ákvörðun, sem stjórnin tók. Ég get raunar ekki séð, að nú í augnablikinu liggi slíkar ástæður fyrir, en það mun vitanlega, eins og ég sagði, verða rætt nánar í n. og þegar málið kemur aftur til umr.

Ég sé ekki ástæðu til að hafa þessa ræðu lengri og vil óska þess að lokum, að málinu verði vísað til fjhn.