18.12.1939
Efri deild: 87. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 712 í B-deild Alþingistíðinda. (1259)

3. mál, bráðabirgðatekjuöflun ríkissjóðs og jöfnunarsjóðs bæjar- og sveitarfélaga

Frsm. (Bernharð Stefánsson) :

Við þrír þdm., sem sæti eigum í fjvn., leyfum okkur að bera fram skrifl. brtt. við þetta frv. við 3. gr. 3. málsgr., um að ákvæðið um malbikun þjóðvega falli niður, að í staðinn fyrir „lagning akvega og malbikun þjóðvega“ komi: lagning akvega og þjóðvega. — Ástæðan til þess, að við berum brtt. þessa fram, er sú, að við búumst ekki við því eins og nú er orðið ástatt, að yfirleitt verði hægt að fást við það á næsta ári að malbika vegi eins og verið hefir undanfarið. Þess vegna munu í till. fjvn., sem við fjárl. hafa verið gerðar, verða bornar fram till. um það, að því fé, sem varið hefir verið til malbikunar undanfarið, eða benzínskattinum, verði nú varið í ýmsa þjóðvegi án þess að um malbikun sé að ræða. En til þess að till. fjvn. geti náð samþykki eða verði teknar til afgreiðslu við meðferð fjárl., þá þarf að gera slíkar breyt. á þessu frv. sem við berum hér fram.

Ég ætla ekki að færa nein sérstök rök fyrir því, að malbikun hljóti að falla niður á næsta ári; það er öllum kunnugt, hvaða breytingar hafa orðið á því almenna ástandi í landinu.