16.11.1939
Efri deild: 62. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 735 í B-deild Alþingistíðinda. (1354)

113. mál, skatt- og útsvarsgreiðsla af stríðsáhættuþóknun

*Fjmrh. (Jakob Möller):

Þetta frv. er borið fram eftir mínum tilmælum. Það kemur að vísu meira við starfssviði atvmrh., en það var með minni vitund og raunar allrar stj., að gefið var fyrirheit það, sem um getur í grg., að undanþiggja helming stríðsáhættuþóknunarinnar skattgreiðslu. Þótti svo mikil nauðsyn til bera að greiða fyrir því, að siglingar til landsins og frá stöðvuðust ekki, og í öðru lagi þótti það fullt sanngirnismál bæði að veita þessa þóknun sjálfa og undanþiggja hana skattskyldu, þar sem hér er um að ræða menn, er haft hafa mjög rýra atvinnu á undanförnum árum. Annars er frv. svo ljóst, að ekki er ástæða til að fjölyrða um það. Ég geri ráð fyrir því, að hv. fjhn. vilji kannske fá frv. aftur til athugunar, og læt ég það hlutlaust af minni hálfu.