09.12.1939
Neðri deild: 79. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 757 í B-deild Alþingistíðinda. (1396)

113. mál, skatt- og útsvarsgreiðsla af stríðsáhættuþóknun

*Sigurður Kristjánsson:

Hæstv. viðskmrh. sótti gallið töluvert dýpra en hann á vanda til. Ég skal ekki kýta um það, hvort okkur, sem stöndum að brtt., gengur illt eða gott til. En hvað þeim ummælum hæstv. ráðh. viðvíkur, að menn væru að taka sig út úr og bera fram yfirboð, þá er það heimskulegt að halda því fram með órökstuddum staðhæfingum, að menn flytji till. til þess að þær verði felldar. Ég álít það ekki boðlegt þinginu að heyra slíkt úr ráðherrastóli. Nú veit þessi hæstv. ráðh. það vel, að ég gerði í mínum till. ráð fyrir, að ríkið gæti alls ekki misst tekju- og eignarskattinn. Þess vegna var það mín till., að það væri bara ein nefnd, sem jafnaði niður, og að niðurjöfnunarnefnd bæjar og ríkis leggi svo vissa prósenttölu á útsvörin, sem átti á næsta ári að nema á aðra milljón króna. Hér fer ráðh. því rangt með, annaðhvort vegna þess, að hann les ekki rétt, eða að hann hirðir ekki um að fara rétt með. Hann segir, að ég hafi haldið því fram, að útgjöldin þyrfti að skera niður um 3–4 millj. kr. Það vita allir, að það þarf að skera niður útgjöldin. Ég skil ekki, að hann skuli hafa setið svona lengi í stjórn og vita ekki, að gjöldin þarf að sniða eftir tekjunum. Hann veit ekki þetta, og því stefnir stöðugt undan brekkunni, og því varð að kalla til þá mestu fjandmenn, sem áður voru, til þess að bjarga öllu við, og svo mega þessir menn ekki bera fram skoðun sína á sama tíma og verið er að greiða úr óreiðunni frá tíð fyrrv. stjórnar. (Viðskmrh.: Það hefir alltaf verið tekjuafgangur samt). Það er eftir því, hvað talin eru gjöld, en þegar farið er að telja ýms gjöld til tekna eins og hjá hæstv. ráðh., má lengi bæta við tekjurnar. Sjón er sögu ríkari, hvernig allt gengur niðurávið. Hann segir, að ég hafi komið með eyðslufrumv. En ég er viss um, að ef með skilningi er haldið á því fé, sem ríkissjóður hefir yfir að ráða, er hægt að sjá um greiða afkomu fyrir ríkissjóðinn, en gagnstætt því er veitt til ónauðsynlegra starfa og ómerkilegra hluta, en ekki í þá hluti. - — Ég sé, að forseti er að gefa mér bendingu og skal nú vera stuttorður. Ég hefi enga viðleitni séð, hvorki hjá hæstv. viðskmrh. eða öðrum, til þess að skera niður fjárlög, þar sem þau má niður skera. Ég gæti sagt honum, hvað ég vildi skera niður, en veit, að hann mundi ekki nota það til annars en að rógbera mig.