13.12.1939
Neðri deild: 82. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 766 í B-deild Alþingistíðinda. (1447)

133. mál, tollheimta og tolleftirlit

*Frsm. (Stefán Stefánsson) :

Eins og hv. þm. sjá á nál. á þskj. 423, hefir fjhn. þessarar hv. d. orðið ásátt um að mæla með frv. Það er flutt af fjhn. Ed. samkv. beiðni hæstv. fjmrh., og hefir milliþn. í skattamálum litið yfir frv. Gerir frv. nokkrar breytingar á l. frá árinu 1937 um tollheimtu og tolleftirlit, sem fara í þá átt að tryggja sem bezt framkvæmd þessara l.

Helztu brtt. eru þessar: Samkvæmt 3. gr. l. þeirra, sem nú gilda, skal hafa umboðsmenn tollstjórnarinnar á öllum löggiltum höfnum eða verzlunarstöðum, sem hingað til hefir verið það sama. En nú er það lagt á vald fjármálaráðuneytisins að ákveða, á hvaða höfnum slíkir umboðsmenn skuli vera, og skiptir það þá ekki máli, hvort höfnin telst löggilt höfn eða ekki. Virðist sjálfsagt að leggja þetta á vald fjmrn., og er það tilgangur 1. gr. frv.

Með 2. gr. frv. er gerður nokkur viðauki við 5. gr. gildandi l., þannig, að ákveðið er, að skipstjórum aðkomuskipa, sem koma beint frá útlöndum, skuli skylt að sigla skipunum sem beinasta leið til ákvörðunarstaðar, og eins er tollstjórninni heimilað að ákveða, að skipum skuli ekki vera leyfilegt að hafast við innan landhelgilínu utan hafna. Er þetta gert til þess að fyrirbyggja smygl.

Í 3. gr. frv. er gerð nokkur breyting á 7. gr. l. Segir í þessari frvgr., að ákveða megi með reglugerð, að öll skip og flugvélar, sem eru á leið til útlanda eða frá útlöndum, skuli koma við á tilteknum höfnum eða flugvöllum, til þess að fá fyrstu eða síðustu afgreiðslu hér á landi. Þessi heimild hefir áður verið bundin við farþegaskip og vöruflutningaskip, en hér er það látið ná til allra skipa og svo flugvéla, og er því þetta ákvæði víðtækara samkv. frv. Er þetta miðað við ákvæði, sem eru í gildi hjá grannþjóðum okkar.

N. leggur eindregið til, að frv. sé samþ. óbreytt.