19.12.1939
Neðri deild: 87. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 900 í B-deild Alþingistíðinda. (1748)

48. mál, dragnótaveiði í landhelgi

*Frsm. (Sigurður E. Hlíðar):

Herra forseti! Síðan þetta frv. fór héðan til hv. Ed., hafa nokkrar breyt. orðið á því, þó ekki stórvægilegar, en samt raska þær málinu lítils háttar. Ég vil benda á, að það hefir af vangá slæðzt inn meinleg prentvilla í niðurlag 1. gr. frv., þar sem stendur „frá 1. sept. til ársloka“. En það getur ekki verið ætlunin að heimila, þegar sérstaklega stendur á, dragnótaveiðar til ársloka, þegar þær eru bannaðar á öllu landinu, samkv. fyrri málsgr. frv., á tímabilinu frá 1. til 31. des. Við höfum því borið fram brtt. til leiðréttingar á þskj. 500, þar sem ákveðið er, að fyrir orðin „1. sept. til ársloka“ komi: 1. okt. til 30. nóv.

Þá er hér heimildaratriði, þess efnis, að sýslun. eða bæjarstj. skuli mega banna með öllu dragnótaveiði innan afmarkaðra löggiltra hafnarsvæða í viðkomandi héraði. Ég get ekki séð, að nokkur hætta sé að þessu ákvæði.

Þá hefir sú breyt. verið gerð á frv. í Ed., að tíminn, sem dragnótaveiði skal bönnuð, hefir verið styttur um hálfan mánuð. Var frv. breytt þannig, að í staðinn fyrir „1. janúar til 15. júní“ var sett: 1. janúar til 1. júní, — og geri ég mig ánægðan með þetta.

Ég mæli með því, að frv. verði samþ. með brtt. sjútvn. Nd. á þskj. 500. En nái sú brtt. samþykki þessarar hv. d., verður málið vænt

anlega að fara til hv. Ed. aftur, áður en afgreiðslu þess lýkur.