23.03.1939
Neðri deild: 25. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 66 í B-deild Alþingistíðinda. (175)

28. mál, dýralæknar

Sigurður E. Hlíðar:

Herra forseti! Mér finnst það hlýða, af því að ég er flm. þessa frv., að láta því fylgja nokkur orð við þessa umr. Ég gerði ráð fyrir því, að frsm. meiri hl. hv. landbn., formaður hennar, myndi mæta hér og skýra till. viðvíkjandi brtt. á þskj. 66, sem gerð er við frv. og n. virðist standa að, vil ég taka það fram, að ég benti form. nefndarinnar á, að þessi brtt. mundi sennilega vera byggð á misskilningi, þar sem þeir vilja fella orðin „og ferðir“ í 2. gr. niður. Og það byggist á því, eftir því sem mér skildist, að á öðrum stað væri ákveðið, að ríkissjóður greiði í fæðispeninga 6 kr. á dag. en það er það eina, sem dýralæknar fá, þegar þeir ferðast í þarfir hins opinbera. En öðru máli gegnir, þegar dýralæknir fer embættisferðir fyrir prívatmenn, og þá ætti hver maður að skilja, að það getur ekki verið meiningin, að þeir eigi ekkert að hafa fyrir þær, þegar þess er líka gætt, að dýralæknar eru samkv. launalögum settir í lægsta launaflokk allra embættislækna. Þótt við gerum embættisverk heima við húsvegginn, sem við tökum aldrei nema 2 kr. fyrir, þá hljóta allir að sjá það, að við getum ekki farið marga km. fyrir sama gjald. Form. hefir viðurkennt. að þetta myndi vera á misskilningi byggt, og hefir sagt, að n. myndi falla frá till. — Þá kann ég ekki við þá brtt., sem hv. þm. Borgf. og hv. þm. A.-Húnv. flytja við þetta frv. Eins og hv. þm. A.-Húnv. gerði grein fyrir hér áðan, leggja þeir til, að þar verði aðeins höfð 5 dýralæknisembætti á landinu, í stað 6. En eins og ég sagði í framsöguræðu minni, tók ég þessa tölu upp í 1. gr. frv. vegna frv., sem hv. þm. N.-Ísf. ber hér fram á alþingi, á þskj. 10, þess efnis, að fjölgað verði dýralæknisembættum í Vestfirðingafjórðungi eftir áskorun Vestfirðinga. Ég tók upp að nokkru orðalag á frv. því, sem hv. þm. N.-Ísf. flutti, í þetta frv., um að ákveðin verði 6 dýralæknisembætti á landinu. Það er ekki rétt hjá hv. þm. A.-Húnv., að þetta embætti kosti 3–4 þús. kr. Byrjunarlaun dýralæknis eru ekki nema 2500 kr. og komast upp í 3500 kr., þegar hann hefir starfað í fimmtán ár. Fjárupphæðin er ekki stór. Það er dálítið öðru máli að gegna, þegar talað er um dýralæknisstörf á Vestfjörðum. Vestfirðir eru þannig af guði gerðir, að mjög erfitt er að ná þar í dýralækni. Eins og hv. d. veit, var svo fyrirskipað fyrir nokkrum árum síðan, að dýralæknir Vestfirðinga skyldi vera búsettur í Stykkishólmi, með það fyrir augum, að þar væri þægilegra fyrir Vestfirðinga að ná til hans. En eftir áskorunum úr Mýra- og Borgarfjarðarsýslum var þessu breytt, og hefir hann síðan setið á yztu takmörkum umdæmis síns, sem er í sjálfu sér mjög slæmt. En sennilega hefir Alþingi fallizt á, að dýralæknirinn sæti í Borgarnesi, af þeirri ástæðu, að þessar sýslur væru meiri landbúnaðarhéruð, og þar af leiðandi meira starf fyrir dýralækni þar en á Vestfjörðum. En þar fyrir er þetta engin trygging fyrir Vestfirðinga, því að þeir eiga miklu örðugra með, vegna samgangna, að ná í dýralækni í Borgarnesi heldur en í Reykjavík. Óskir Vestfirðinga um að fá sinn dýralækni búsettan á Ísafirði munu því á fullum rökum byggðar. Þetta er ekki stórmál, en ég geri ráð fyrir því, að það sé vestfirðingum samt kappsmál að geta fengið stofnað dýralæknisembætti hjá sér. Eins og ég hefi sagt, legg ég til, að þessi brtt. um fækkun dýralækna verði felld.