25.11.1939
Neðri deild: 68. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 908 í B-deild Alþingistíðinda. (1803)

126. mál, friðun hreindýra

*Viðskmrh. (Eysteinn Jónsson) :

Það hefir farið ýmsum sögum um fjölda þeirra hreindýra, sem hafzt hafa við á öræfunum norðaustanlands. Sumir hafa talið, að þau skiptu nokkrum hundruðum, og jafnvel hafa heyrzt nefndar þúsundir. Sumir héldu, að þeim færi fjölgandi, aðrir, að þeim fækkaði, en auðséð, að ekkert var kunnugt um þetta með vissu. Af þessum ástæðum þótti rétt að verja nokkrum hundruðum kr. úr ríkissjóði til þess að komast að raun um hið sanna, og var farinn til þess leiðangur síðastl. sumar undir forystu Helga Valtýssonar á Akureyri. Þá varð það ljóst, að hreindýrin voru ekki mikið yfir 100 að meðtöldum kálfum frá því í vor. Þetta er færra en þeir menn héldu, sem svartsýnastir þóttu. Nú vita menn ekki til hlítar, hvernig á þessu stendur, að dýrin eru ekki fleiri, því að þeim ætti að fjölga, þar sem þau eru friðuð og virðast algerlega heilbrigð. Það yrði spor í rétta átt, ef hægt væri að fylgjast með dýrunum, eftir því sem hægt er, og reyna að komast fyrir allt, sem háir fjölgun þeirra. Því er hér lagt til að fá einhverja góða menn til þessa starfs, og ætti það að geta orðið mjög ódýrt. Ennfremur er lagt til að tvöfalda sektir fyrir friðunarbrot, úr 100 kr. fyrir einfalt brot og allt að 400 kr. fyrir ítrekuð brot upp í 200 kr. fyrir einfalt brot og allt að 800 kr. fyrir ítrekað — og skerpa mjög á eftirliti með því, að lögunum sé hlýtt. En grunur hefir leikið á því, að hreindýr væru eitthvað skotin. Eftirlit í því efni er ekki auðvelt, en það verður að ætla sérstaklega hinum ráðnu eftirlitsmönnum. Menn halda, að það, hve tarfar eru hlutfallslega margir í hjörðinni, kunni að valda því, að hún tímgist síður. Þess vegna er í frv. heimilað, að ákveða megi að athuguðu máli að veiða nokkuð af þeim.

Það má kannske skrafa um það fram og aftur, hvort nokkuð eigi að skipta sér af hreindýrunum, hvort þau lifa eða deyja út. En ég held allir sjái, að það væri skammarlegt, ef hjörðin dæi út fyrir vanrækslu, og að það sé vel verjandi að veita nokkur hundruð kr. á ári til að koma í veg fyrir það og kynnast því, hver skilyrði eru til að fjölga dýrunum og hafa af þeim gagn. Komi það í ljós, að gagnið geti orðið töluvert, væri sá skaði óbætanlegur, ef sú hjörð, sem hér er hagvön, væri þá liðin undir lok. — Ég vil óska þess, að málið gangi til 2. umr. og landbn. að lokinni þessari umr.