27.03.1939
Neðri deild: 27. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 70 í B-deild Alþingistíðinda. (181)

28. mál, dýralæknar

*Jón Pálmason:

Það er út af fyrir sig ekkert undarlegt og því síður óvenjulegt, að fram komi meðmæli með því að fjölga í einni eða annarri stétt, frá þeim mönnum, sem þá stétt skipa. Það er þess vegna ekkert undarlegt, þó að hv. þm. Ak. mæli með því að fjölga í sinni stétt. Hvað viðvíkur því, sem hv. þm. sagði um kostnaðarhliðina, þá er það að segja, að nú eru hér á landi starfandi 5 dýralæknar, og laun þeirra eru ákveðin í fjárlögum 19000 kr. til þeirra allra, eða 3800 kr. að meðaltali á hvern þeirra. Viðvíkjandi þörfinni fyrir Vestfirði á að hafa dýralækni er það að segja, að það virðast ekki vera verri aðstæður fyrir Vestfirði að sækja dýralækni til Borgarness heldur en Húnvetninga og Skagfirðinga og sækja dýralækni til Akureyrar, a. m. k. að vetri til.

Hvað viðvíkur því, sem hv. frsm. var að tala um, að það væri með öllu óhæft að hafa ekki dýralækni í Borgarfirði, þá er því til að svara, að nú þegar er kominn dýralæknir fyrir Suðurlandsundirlendið, sem hefir aðsetur í Reykjavík. Ég fyrir mitt leyti sé ekki, að hann hafi annað þarfara að gera en að sinna þörfum Borgfirðinga líka, með jafngóðum samgöngum og eru milli þessara staða. Þess vegna er að mínum dómi óþarft að fara að stofna þetta nýja embætti. Það er að vísu rétt, að hér er um smáupphæð að ræða. En það er á flestum sviðum í okkar þjóðarbúskap þannig, að það eru smáupphæðir, sem veigamestar verða, þegar heildarútkoman er reiknuð. Það eru smáupphæðirnar, sem alltaf eru að safnast saman og mynda stóru upphæðirnar í okkar útgjöldum.