12.12.1939
Efri deild: 82. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 929 í B-deild Alþingistíðinda. (1880)

130. mál, lögreglumenn

*Frsm. meiri hl. (Ingvar Pálmason) :

Allshn. hefir haft þetta frv. til meðferðar á allmörgum fundum, og hefir orðið samkomulag um að mæla með, að frv. verði samþ., en meiri hl. leggur til, að gerðar verði hreyt., sem sjá má á þskj. 417. Nefndinni virtist, að grundvallaratriði frv. væri, að lögreglan yrði hreyfanleg, og því var hún samþykk. Brtt. raska engu í meginstefnu frv. En það má segja, að sú fyrsta dragi nokkuð úr ákvæðum þess um það, hversu fjölmenn lögreglan megi vera. Þetta atriði hefir alltaf verið álitamál. Og því er ekki að neita, að það geta komið tilfelli, þegar ekki mætti horfa í að ganga lengra en brtt. mælir fyrir. Nauðsyn brýtur lög, segir málshátturinn, og það er aldrei hægt að hafa þessi lög, fremur en önnur, svo teygjanleg, að ekki geti komið sú nauðsyn, sem knýr menn til að ganga út fyrir takmörk þeirra um stundarsakir. N. virtist, að undir venjulegum kringumstæðum ætti að duga sú fjölgun lögregluliðs, sem takmarkast af því, að ekki fari fram úr ¼ kostnaðar af hinu reglulega lögregluliði.

Hinar brtt. eru frekar smávægilegar. Þær skipta ekki máli fyrir tilgang frv.

Að því er snertir afstöðu þriðja nm., hv. 11. landsk. (MG), vil ég taka fram, að fyrir helgina var gengið nokkuð hart að n. að afgreiða málið. Hún gat ekki komið öll saman á laugardag, þegar við, sem skipum meiri hl., höfðum aukafund til að afgreiða till. okkar. Hv. 11. landsk. gat ekki mætt vegna annríkis. Ég tilkynnti honum síðan brtt., en sem eðlilegt var, átti hann erfitt með að taka í skyndi afstöðu til þeirra og tjáði mér, að hann gæti að svo stöddu ekki gengið með þeim. Nú mun hann gera grein fyrir afstöðu sinni. Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða meira um frv., nema tilefni gefist.