18.12.1939
Efri deild: 87. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 965 í B-deild Alþingistíðinda. (1927)

149. mál, héraðsskólar

*Frsm. (Jónas Jónsson):

Ég hefi, eins og ég gerði ráð fyrir við 2. umr., hætt við fáeinum brtt., sem ég sé ekki þörf á að fjölyrða mjög mikið um. Það kom í ljós, að sumir hv. þm. óttuðust, að ef frv. yrði samþ., fengju sumir skólarnir endurborgað fé, sem þeir þyrftu ekki að nota til bygginga. Mér þótti þá rétt að gera viðbót og bæta við 13. gr. þessari málsgr.: „Þegar ríkissjóður greiðir héraðsskóla stofnstyrk, má aðeins verja því fé til húsabóta og annara umbóta á skólasetrinu, í samráði við kennslumálaráðherra og með eftirliti húsameistara ríkisins.“ — Þetta ætti að nægja til að koma í veg fyrir misnotkun.

Þá þótti mér eðlilegt, að í frv. væri samþykkt fyrir því, að ríkisstj. léti nefnd 3 manna meta til peningaverðs allar eignir héraðsskólanna eins og þær eru nú, náttúrlega með hliðsjón af því, sem þær hafa kostað, en mikið af því er gjafavinna og fleira, sem erfitt er að ákveða í peningum, en er allt skráð. — Um þetta fjallar fyrri málsgr. 3. brtt. Og er lagt til, að einn nefndarmanna sé útnefndur af kennslumálaráðh., annar af fjármálaráðh. og hinn þriðji af húsameistara ríkisins.

Síðari málsgr. 3. brtt. tekur fram, að skólanefnd skuli, fyrst um sinn, vera heimilt að lengja fyrir eitt ár í senn sumarleyfi einstakra skólastjóra og kennara fram yfir þann tíma, sem ákveðinn er í 7. gr. Meðan hér var verið að fjalla um málið, kom það fram, að kennarar við einn skóla misskildu frv. og fóru að sjá eftir sínu árlega sumarleyfi og létu í ljós óánægju yfir því, að það styttist. Þó að aðalatriðin, sem fyrir þessum kennurum vaka, séu grófur misskilningur, þykir mér rétt að taka það tillit til einstakra röksemda þeirra, sem gert er í brtt. Ákvæði frv. um þessi efni voru hugsuð nokkuð rúmt, gert ráð fyrir, að einstakir kennarar t. d. tækju að sér yfirumsjón með rekstri gistihúss, eða að sinna skógrækt og garðyrkju, starfa að byggingum og smíðum Vegna skólans eða semja kennslubækur í þágu hans. Þetta yrði að vera samkomulagsmál við hvern einstakan kennara, og þá hygg ég, að það yrði til stórkostlegra umbóta.

Til þess að tefja ekki tímann við brtt. hv. 2. landsk. vil ég segja það strax, að þær eru mjög vinsamlegar í sjálfu sér, en ég er ekki viss um, að þær séu til bóta. Honum finnst það ekki viðkunnanlegt að ákveða í l. um ræsting nemenda á skólanum og framreiðslu við máltíðir, heldur eigi að hafa þetta í reglugerð. Það gæti náttúrlega komið að sama gagni, enda hefir þetta verið föst venja við skólana. En ég vil heldur, að það standi, því að ég legg áherzlu á, að þetta eru vinnuskólar, og það verður eflaust tekið upp viðar, m. a. til að venja menn af tepri.

Þá er brtt. um að orðin „húsagerð og“ falli niður í 2. málsgr. 9. gr., þar sem ræðir um fullkomið sérnám í smíðum, og hv. þm. heldur, að það verði til að skapa samkeppni við iðnstéttir bæjanna. En ég get sagt honum, að sá varningur, sem íslenzkir iðnaðarmenn framleiða, er svo dýr, að hann sést hvergi í sveitum landsins; aftur sér maður breiðast út frá einstöku skóla húsgögn, sem þar er tekið að smiða. Og líkt er um húsagerð. — Jón Hannesson í Deildartungu sagði við mig, þegar við vorum að undirbúa þetta: „Við skulum reyna að hafa vinnuskóla, en ekki reyna að keppa við iðnaðarmenn bæjanna, ekki hafa námstímann svo langan. Þó að piltar séu ekki nema einn vetur við það, geta margir þeirra byggt á eftir hús í sveitum.“ — Ég vona, að iðnstéttir bæjanna misskilji aldrei þessi mál svo, að þær fari að neyða þá, sem hafa verknám sitt úr héraðsskólunum, út í samkeppni við sig. — Annars skal ég ekki fjölyrða um þessar brtt.