16.12.1939
Neðri deild: 85. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 1043 í B-deild Alþingistíðinda. (2035)

22. mál, tollskrá

Finnur Jónsson:

Ég vil beina því til hv. frsm. n., hvort hann vilji ekki athuga til 3. umr. tvö atriði varðandi síldarútveginn sérstaklega. Ég hygg, að á bls. 5 í tollskránni, ef ég man rétt, sé talið upp allskonar krydd og hversu það skuli tollast. Í frv. er hinsvegar gert ráð fyrir því, að toll af kryddi, sem fer til síldarverkunar, megi endurgreiða. Nú er það orðin venja, að síldarkryddið er flutt inn blandað í stað þess að blanda það hér, og tel ég, að komast mætti hjá vafningum og fyrirhöfn bæði fyrir fjármálaráðuneytið og aðra hlutaðeigendur, ef ákveðið væri í tollskránni, að blandað síldarkrydd skyldi vera tollfrjálst.

Í tollskrárfrv. er gert ráð fyrir 15% verðtolli af herpinótabátum. Nú er reynslan sú, að ekki hefir tekizt að smíða þessa báta innanlands svo að þeir jafnist á við hina erlendu. Ég hefi látið gera tvær tilraunir í þessu efni, og alls ekki getað fengið báta, sem jafngilda erlendum að efni og smíði. Ég vil því beina því til hv. frsm., hvort ekki væri rétt að hafa á bátum þessum sama toll og á skipum, þ. e. 2% í stað 15%.

Viðvíkjandi því, sem hv. þm. A.-Sk. sagði um flutningsgjaldið, þá tek ég undir það, að allhættulegt geti verið að reikna með almennri „fragt“ við verðtollsútreikning. Ef t. d. ætti að leggja til grundvallar fyrir alm. flutningsgjaldi gjaldskrá Eimskipafélagsins, þá yrðu þeir hart úti, sem flytja inn vörur í heilum skipsförmum. Mikið af þeim vörum, sem fluttar eru til landsins, er flutt fyrir gjald, sem er miklu lægra en Eimskipafélag Íslands tekur. Ég vil beina því til frsm., að athuga í n., hvort ekki sé hægt að ákveða, að leggja skuli samninga um flutningsgjald til grundvallar við tollálagningu, því að vitanlegt er, að í hvert skipti, sem skip er leigt til flutninga, er gerður um það sérstakur samningur, sem ekki eru nokkrar líkur til, að sé falsaður. En ef slíkir samningar eru lagðir fyrir tollyfirvöld og skyldu reynast nokkru lægri en hið almennt gildandi farmgjald, þá er harðleikið, að ekki skuli mega taka tillit til þess við tollákvörðun. Ég vil eindregið skora á hv. frsm. að athuga þetta fyrir 3. umr. Mætti þá skjóta ákvæði inn í frv. á viðeigandi stað um það, að farmgjaldssamningar skyldu lagðir til grundvallar við tollútreikning, þegar þeir væru fyrir hendi, þar eð þessir samningar eru þess eðlis, að engar líkur eru til þess, að ekki sé í þeim tiltekið hið rétta farmgjald.