23.12.1939
Efri deild: 92. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 1066 í B-deild Alþingistíðinda. (2097)

167. mál, útvarpsrekstur ríkisins

*Frsm. (Sigurjón Á. Ólafsson) :

Aðeins örfá orð. — Þetta frv. er, eins og sjá má, aðeins nokkrar orðabreyt. við 3. gr. l., og í 1. mgr. er aðeins því sleppt niður, að launin, sem þar eru ákveðin, eru ekki tekin upp í frv. En svo mun þó vera til ætlazt, að þau laun, sem nú hafa verið greidd til útvarpsstjóra, verði einnig greidd áfram.

Í 2. mgr. 1. gr. frv. er um nokkra breyt. að ræða, því að þar er gert ráð fyrir, að ráðh. sé heimilt að gera fréttastofu útvarpsins að sérstakri deild undir stjórn útvarpsráðs, og ennfremur, að ráðh. sé heimilt að semja við blöð lýðræðisflokkanna um þátttöku í starfrækslu slíkrar fréttastofu. Þetta er veigamikil breyt.

Ég tel óþarft að halda hér langa ræðu um tildrög þess, að hnigið hefir verið hér að þessu ráði. En m. a. býst ég við, að hér liggi á bak við nokkur sparnaðarhugsun, með því að koma megi við skynsamlegri tilhögun við útvarpið en verið hefir. Því að því ber ekki að neita, að hér er nokkuð dregið úr því valdi, sem útvarpsstjóri hefir haft samkv. núgildandi l.

Við athugun frv. í n. gátum við nm. ekki séð, að hægt væri að koma þessu fyrir á annan einfaldari hátt, eins og sakir standa, heldur en hér í frv. er gert ráð fyrir, og mælir n. með því, að þessi breyt. á l. verði samþ.