28.12.1939
Neðri deild: 95. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 1067 í B-deild Alþingistíðinda. (2109)

167. mál, útvarpsrekstur ríkisins

*Einar Olgeirsson:

Herra forseti! Það, sem ég vildi gera að umræðuefni í sambandi við þetta mál, sem nú á fram að ganga hér í þinginu, er það nýmæli, að gera skuli fréttastofu útvarpsins að sérstakri deild, er starfi í sambandi við blöð 1ýðræðisflokkanna. Þetta er í fyrsta skipti, sem lagt er til hér á Alþingi að setja þannig ákvæði í l., að einhver sérréttindi skuli gilda fyrir ákveðna flokka eða ákveðna menn í þessu landi, eftir því hvaða skoðanir þeir hafa, eða réttara sagt, eftir því hvaða skoðanir valdhafarnir álíta, að þeir hafi, eða vilja telja, að þeir hafi. Hingað til hefir það að vísu þekkzt á Alþingi, að skipaðar væru hinar og þessar n., t. d. eftir tilnefningu þriggja stærstu þingflokkanna. Um það getur ekki verið neinn efi, hverjir eru þrír stærstu þingflokkarnir, þótt fyrsti og annar þingflokkurinn geti e. t. v. verið jafnstórir. En þegar ákveðið er, að fréttastofa útvarpsins skuli vera sérstök deild, sem semji við blöð lýðræðisflokkanna um þátttöku, þá er auðséð, hvað stendur á bak við. Það á að taka útvarpið enn meir en gert hefir verið í þjónustu núverandi ríkisstj. til þess að flytja áróður, sem er henni að skapi, eða er þeim flokkum, sem hana styðja, til pólitísks framdráttar og aukinna áhrifa á landsmenn.

Það er vitanlegt, hver áhrif er hægt að hafa með fréttaflutningi útvarpsins á landsmenn. Það er enginn efi á því, að útvarpið er sterkasta áróðurstækið, sem til er, e. t. v. að undanteknum skólunum, sem keppa nokkuð við það úti til sveita.

Fram til þessa, frá því útvarpið var stofnað hér, hefir verið álitið, að aðalgrundvöllur þess og ein höfuðreglan í öllum þess rekstri ætti að vera pólitískt hlutleysi. Nú er vitað, að þótt slíkar reglur séu settar, er alltaf um það deilt, hvernig slíkt skuli framkvæmt og hvort framkvæmd útvarpsins á þessum reglum þess hafi ekki komið í bága við þau lög og reglur, sem því eru sett. Það er alkunnugt, að mikið hefir verið deilt um, að útvarpið hafi verið misnotað og hefir verið deilt mjög skarpt á það, bæði í blöðum Sjálfstfl. og blöðum verkalýðsflokkanna. Hinsvegar hefir það alltaf verið viðurkennd regla, að útvarpið ætti að vera pólitískt hlutlaust og að það ætti að gera mönnum jafnhátt undir höfði, án tillits til þess, hvaða skoðanir þeir hefðu, sem sé, að útvarpið ætti að byggja á sama grundvelli og almennt lýðræðisskipul.; að menn eigi að vera jafnir fyrir lögunum. Eins og reglur ritvarpsins benda til, eiga allir landsmenn, hvaða skoðun, sem þeir kunna að hafa á hinum eða þessum málum, að standa jafnt að vígi gagnvart útvarpinu. Nú þegar komið er með sérstök ákvæði um að fréttastofa útvarpsins skuli starfa í sambandi við ákveðin blöð í landinu, þá nægir ekki, að það sé í sambandi við eitt eða fleiri ákveðin blöð, heldur við blöð ákveðinna pólítískra flokka. Nú gætu verið hér, eins og er víða úti um heim, blöð, sem formlega eru óháð pólitískum flokkum, en eru einkaeign einstakra manna eða félaga, og þótt þau hafi ákveðnar pólitískar stefnur, þá þarf það ekki að þýða, að þau standi í þjónustu ákveðinna flokka. Þegar sett eru l., þá verður að ganga út frá ástandinu eins og það getur orðið, en ekki eingöngu eins og það er nú, þegar blöðin tilheyra pólitískum flokkum.

Þá eru blöðin hér á Íslandi yfirleitt ekki eign pólitísku flokkanna. T. d. er stærsta blaðið –Morgunblaðið — eigna ákveðins hlutafélags, og mér er ekki kunnugt um, að Sjálfstæðisflokkurinn sem flokkur eigi meiri hluta hlutabréfa í því, eða hafi á nokkurn hátt fullkomin ráð á því undir öllum kringumstæðum, ef t. d. væri stofnaður nýr flokkur, sem eigendur blaðsins tilheyrðu, og vildi reka aðra pólitíska stefnu en Sjálfstfl.

Ef hafa á samvinnu við blöðin almennt um fréttastofu útvarpsins, þá kemur ekki til mála að einskorða það við blöð, sem eru eign vissra flokka, eða við blöð flokka, sem hafa einhverjar vissa skoðun. Þess vegna er hér í þessu frv. farið mjög fjarri því, sem virðist sómasamlegt og rétt að gera. Ef vanda ætti meir til fréttaflutnings útvarpsins en gert hefir verið og þess vegna að stofna til þessarar samvinnu, þá ætti auðvitað að hafa samvinu við öll blöð í landinu, og sizt af öllu að setja ákvæði um, að einungis mætti hafa samvinnu við þau blöð, sem tilheyra einhverjum ákveðnum flokkum. Það mundi þýða, að einungis pólitísk blöð hefði áhrif á fréttaflutninginn.

Ég veit, að hv. þm. skilja þetta flestir hverjir, þegar þeir athuga málið og þeir sjá, að það er ekki vansalaust fyrir Alþingi út frá heilbrigðri skynsemi að setja inn þetta ákvæði, ef það á annað borð ætlar sér með því að vanda fréttaflutninginn. Til þess á að hafa samvinnu við öll blöð í landinu svo hægt sé að notfæra sér þeirra fréttasambönd.

Þá kem ég að síðara atriðinu í þessu sambandi. Í frv. er tekið fram, að það eigi að hafa samvinnu við blöð lýðræðisflokkanna í landinu. Þarna er notuð skilgreining, sem alveg má deila óendanlega um. Það er ekkert til í okkar löggjöf, sem ákveður, hvaða flokkar séu lýðræðisflokkar og hvaða einkenni þeir skuli hafa til þess að teljast það. Sú lagalega skilgreining á orðinu lýðræði held ég að sé ekki heldur til í okkar núgildandi löggjöf, en setji menn einhver ákvæði í l., þá verður þó að ætlast til, að þeir viti, hvað þeir er u að fara.

Ég skal nú taka þessi orð, lýðræði og lýðræðisflokkar, fyrir og athuga þau.

Við vitum allir, hvaðan þau eru upp runnin og hvað er meint með þeim. Það er útlenda orðið „demokrati“, upprunnið úr grísku, sem er þýtt með orðinu lýðræði. Meiningin með orðinu er réttur lýðsins til að ráða í mótstöðu við yfirstéttirnar, „aristokrati“. Þetta er sá skilningur, sem lá í orðinu í gamla daga í Grikklandi, og það er sá skilningur, sem barizt er fyrir, þegar verið er að reyna að koma á lýðræði. Nú geta menn litið mismunandi á, hvaða fyrirkomulag er átt við með orðinu lýðræði. Ég skal fyrir mitt leyti lýsa því yfir, að ég álít ekki neitt lýðræði fullkomið meðan nokkur maður er þannig settur í þjóðfélaginu, að aðrir menn hafi möguleika til að útiloka hann frá eða svipta hann möguleikum til að leita sér hamingju og gæfu í lífinu.

Ég vil í þessu sambandi minna á þá fyrstu skilgreiningu á orðinu lýðræði, sem þeir, sem staddir voru við setningu háskólans í haust, áttu kost á að heyra og lesin var upp af próf. Ágúst H. Bjarnasyni. Hún sýndi, að þeir, sem börðust fyrir því lýðræði, sem við nú njótum, hafa hugsað sér það miklu fullkomnara og ekki með þeim skerðingum, sem vald auðmagnsins hefir valdið. Það er ekki fullkomið lýðræði fyrr en það vald, sem nú ræður flestöllum framleiðslutækjum, er horfið. Fullkomið lýðræði er alls ekki hugsanlegt fyrr.

Ég veit, að meiri hl. þeirra hv. þm., sem hér eiga sæti, eru á annari skoðun um, hvað sé lýðræði, og nú vil ég spyrja, þar sem ekkert er til í núgildandi löggjöf, sem festir þetta hugtak, eftir hverju á að dæma, þegar farið er að dæma um, hvað séu lýðræðisflokkar og hvaða blöð séu blöð lýðræðisflokka hér á Íslandi?

Eins og nú er í pottinn búið, er það lagt á vald ríkisstj. að ákveða, hvað henni þóknast að álita um þetta. Ef. t. d. sú ríkisstjórn, sem situr að völdum á Íslandi, álítur, að Sjálfstfl., Framsfl. og Alþfl. séu ekki lýðræðisflokkar, hvorki að því er snertir stefnuskrá þeirra eða framkvæmdir þeirra, þar sem þeir hafa gert hinar og þessar skerðingar á réttindum manna hér á Íslandi, þá mundi það þýða, að þessi stjórn, sem slíka skoðun hefði, gæti útilokað þessa flokka frá því að hafa nokkur áhrif á fólkið í sambandi við þessa fréttastofu.

Ef svo í öðru lagi sú stjórn, sem sæti við völd, áliti, að einungis Framsfl. og Alþfl. væru lýðræðisfl., en ekki Sjálfstfl. og Sameiningarflokkur alþýðu, þá er það skoðun, sem hvað eftir annað hefir komið fram í blöðum eins og Tímanum og Alþýðublaðinu, sérstaklega í sambandi við kosningar til Alþingis, t. d. nú við síðustu kosningar var það brýnt fyrir mönnum, að ef Sjálfstfl. kæmist í meiri hl. á Alþingi, þá væri lýðræðið afnumið. Þessu var t. d. haldið fram af þeim mönnum, sem nú eru ráðh. Alþfl. og Framsfl. Skýring stjórnarvaldanna á því, hvað séu lýðræðisflokkar og hverjir ekki, fer því einungis eftir geðþótta stjórnarvaldanna og pólitískum hagsmunum þeirra. Hv. þm. ættu að hugleiða vel, hverjar afleiðingar geta orðið af því að samþ. l. eins og þessi, sem sé, að ríkisstj. úrskurði á hverjum tíma, hvaða flokka beri að telja lýðræðisfl., og að þau blöð, sem hún telur að hafi til þess sérstaka verðleika, hljóti þau sérstöku réttindi að hafa samvinnu við fréttastofu ríkisútvarpsins.

Þegar svo á sama tíma eru aukin áhrif ráðaneytisins á rekstur útvarpsins, og eins og nú var gert fyrir skömmu hér á Alþingi, skipun útvarpsráðs lögð í hendur pólítískra flokka, en útvarpshlustendur sviptir öllum rétti til að ákveða, hvernig útvarpsráð skuli kosið, þá er auðséð, að hverju stefnir. Það á að gera ríkisútvarpið að áróðurstæki í höndum núverandi ríkisstj., og henni og hennar flokkum á að gefa vald til að gera það, sem þeim þóknast viðvíkjandi fréttaflutningi og áróðri í útvarpinu. Það er m. ö. o. verið að víkja af þeim grundvelli, sem útvarpið var byggt á, og það eru fulltrúar íslenzku þjóðarinnar á Alþingi, sem eru að gera það. Það er verið að skapa nýjan grundvöll, þannig að hægt sé að nota ríkisútvarpið sem áróðurstæki fyrir hina pólitísku stjórn í landinu og hennar flokka.

Þetta er ekkert einstakt fyrirbrigði í veröldinni. Þetta fyrirbrigði, sem nú er að gerast hér, hefir gerzt í fasistalöndunum, og það er verið að vinna að hinu sama hér og þar hefir verið gert undanfarin ár. Það á að koma á á Íslandi einræði fámennrar valdaklíku, sem byggir sína stjórnmálastefnu og framkvæmdir á einu einasta atriði, en það er að viðhalda og hylma yfir það hneyksli, sem Kveldúlfsskuldirnar í Landsbankanum eru orðnar, og afstýra því, að þjóðin komist að nokkru um það. Út frá þessum grundv. á að halda við valdi þeirra manna, sem hafa sölsað undir sig aðalatvinnuv. landsins, og með þeim tökum sem þeir hafa á bönkum landsins, eru að ná harðvítugum tökum á mestallri framleiðslu og verzlun í landinu, sem þeir einoka meir og meir fyrir sig. Það er stefnt að því að skapa og viðhalda einræði þessara manna. Einn þátturinn í því að reyna að sætta þjóðina við yfirráð þessara manna er að taka útvarpið miklu meira en verið hefir í þjónustu þeirra. Það, sem verið er að koma á hér á Íslandi með öllu því baktjaldamakki og þeim handjárnum, sem smeygt hefir verið upp á flesta þm., er að koma á einræði nokkurra skuldakonunga og reyna svo að þrælbinda þjóðina, bæði andlega og líkamlega, með aðferðum eins og þeim, sem nú á að framkvæma í sambandi við ríkisútvarpið, þrátt fyrir andstöðu meiri hluta landsmanna.

Það einasta, sem skilur á milli um aðferðir fasistanna í Evrópu og valdaklíkunnar á Íslandi, er það, að fasistarnir ganga hreinna til verks, en reyna ekki að hafa á sér yfirskin lýðræðisins um leið og verið er að kyrkja það. Þess vegna vildi ég sérstaklega gera að umtalsefni þetta ákvæði um hlöð lýðræðisflokkanna, sem setja á inn í l., því að hver maður veit, hvernig það verður notað, hvernig á að nota það að yfirvarpi til þess að útiloka hina eiginlegu fylgjendur lýðræðisins og lýðinn sjálfan frá öllum áhrifum á ríkisútvarpið.

Ég vil svo að endingu geta þess, að jafnslæmur og tilgangurinn er með þessi frv., jafnhroðalegur er frágangur þess, þar sem enginn skilgreining er til á því atriði, sem hér liggur fyrir, heldur á hún að fara eftir geðþótta þeirra, sem fara með völd á hverjum tíma.

Ég vil svo að endingu lýsa því yfir, sem ég hefi áður gert, að sá flokkur, sem ég tilheyri, — Sósíalistaflokkurinn, — er samkv. sinni stefnuskrá lýðræðisflokkur, og að mínu áliti fullkomnari lýðræðisflokkur en allir þeir aðrir, sem hér eiga fulltrúa. Vil ég um leið mótmæla því, sem ég veit, að verður gert af hálfu núv. ríkisstj. að skilgreina sem lýðræðisflokka aðeins þá flokka, sem eru fylgjandi núverandi auðvaldsskipulagi, og blanda oft saman því tvennu, sem ekki er rétt að blanda saman; annarsvegar því skipulagi, sem er byggt á eignarrétti auðmannanna, og hinsvegar því skipulagi, sem byggist á almennum mannréttindum og felst í orðinu lýðræði. Það, hvernig þessu tvennu er oft blandað saman, stafar af því, að þeir menn, sem telja sig í orði kveðnu lýðræðissinna, geta ekki hugsað sér lýðræði án þess, að auðvaldið ráði að meira eða minna leyti. Það eyðileggur lýðræðið um leið. Ég hefi oft rakið það hér í þessari hv. deild, hvernig auðvaldið hefir eyðilagt lýðræðisóskir fólksins og afnumið lög bingsins eða með hótunum hindrað, að þau næðu fram að ganga, eins og t. d. krafan um, að fyrirtæki, sem skulda yfir 150000 kr., birtu efnahagsreikninga sína. Það þarf ekki heldur að leita langt til þess að finna dæmi um það, hvernig auðvaldið eyðileggur lýðræðið. Á síðasta áratug hafa flokkar alþýðunnar hér á Íslandi brugðizt algerlega stefnuskrám sínum og gengið á mála hjá auðvaldinu. Það skýtur því skökku við, þegar þessir flokkar ætla sér undir yfirskini lýðræðisins að sölsa undir sig ríkisútvarpið og færa það af grundvelli þess pólitíska hlutleysis, sem allt lýðræði stendur og fellur með. Með því marka þessir flokkar þann áfanga, sem þeir eru komnir til á leiðinni frá að vera flokkar alþýðunnar og sveitafólksins og til að verða flokkar Kveldúlfs og Landsbankans.

Ég vil mótmæla þessu frv. og greiði atkv. á móti því.