09.12.1939
Efri deild: 80. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 1214 í B-deild Alþingistíðinda. (2427)

118. mál, framfærslulög

*Þorsteinn Þorsteinason:

Aðeins örfá orð út af brtt. minni við frv. Brtt. er á þskj. nr. 410. Við sýslumenn höfum rekið okkur oft á það, að miklir erfiðleikar eru á því að innheimta barnsmeðlög. Barnsfeðurnir eru ekki slíkir eignamenn, að meðlögin náist með lögtökum, enda þótt úrskurður sé fenginn á hendur þeim. En aftur á móti greiða þessir menn þessar kröfur, meðlögin, ef það gildir fyrir þá, að þeir verði annars sveitarþurfalingar, ef barnsmeðlögin ekki greiðast. Þess vegna er nú oft farið þannig að, að þeir kvenmenn, sem hafa í eftirdragi óskilgetið barn, hafa ekki gifzt, einmitt af þeim ástæðum, að þeim hefir verið gert örðugra fyrir um að ná meðlögum með börnunum, eftir að þær voru giftar, heldur en ef þær voru ógiftar, og þar af leiðandi hefir fólk búið saman ógift í stað þess að giftast, í því, sem l. kalla hneykslanlegri sambúð, og reynt á þann hátt að tryggja sér það, að þessar viðkomandi mæður óskilgetinna barna gætu náð meðlagi barns eða barna frá dvalarsveitinni. Það er alls ekki rétt, kirkjulega séð, að stuðla að slíkri sambúð. En ég sé, að með þessari löggjöf, sem nú er á ferðinni, er þessu dálítið breytt til batnaðar, þannig að konan missir einnig réttindin, ef hún býr með manninum, sem barnið á. En ég býst við því, að ef því er haldið óbreyttu hér, þá fari það þannig, að í staðinn fyrir, að áður var það þannig að þetta fólk var talið, að hefði búið saman, muni það nú telja konuna vinnukonu á heimilinu á manntalsskýrslu. Og þar af leiðandi yrði þetta til þess, að það yrði enn verri réttarstaða á heimilinu heldur en áður, því að ég skil það þannig, eftir því sem hér liggur fyrir í 29. gr., að sú kona, sem telst vinnukona manns, eigi heimting á að ganga að sinni dvalarsveit eftir meðlagi, en ekki, ef hún býr með manninum.

Ég tel það heldur ekki rétt, ef efnafólk á í hlut, að það geti gengið að sinni sveit og heimtað barnsmeðlög, sem eftir þessum l. ber að greiða. Ég vildi færa ákvæðin um meðlögin í það horf. að ef maður er vel eða sæmilega efnaður eða bann hefir sæmilega atvinnu, þá teljist hann ekki eiga heimting á að ganga að sinni dvalarsveit í þessu efni. Með þessari millileið held ég, að heppilegri árangur næðist af þessari gr. framfærslul. Fátækara fólkið gæti gifzt í þessum tilfellum, sem ég hefi getið um, alveg fyrir þessu framfærslulagaákvæði. En efnaðra fólkið gæti þá ekki krafizt þessara meðlaga hvort sem væri.

Annars geri ég ráð fyrir, að hv. þd. sé ljóst, hvert stefnir með þessari brtt. Ætla ég því ekki að hafa um hana fleiri orð.