29.12.1939
Neðri deild: 96. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 1244 í B-deild Alþingistíðinda. (2472)

118. mál, framfærslulög

*Viðskmrh. (Eysteinn Jónsson):

Þegar framfærslulögunum var breytt 1936 var það gert að meginreglu, að hver maður ætti að fá framfærslu í því hreppsfélagi, sem hann dveldi í, í stað þess að áður var þetta bundið við sveitfestitíma. Nú skilst mér, að ein aðalástæðan fyrir þeim breyt., sem hér er rætt um, sé sú, að allmjög hafi á því borið, að þetta hefði í för með sér los á mönnum, einkum þannig að þeir menn, sem annaðhvort höfðu þegið af sveit eða voru í þann veginn að þiggja af sveit, tækju sig upp og flyttu til kaupstaðanna, og vildu heldur vera þar en úti um byggðir landsins. Einnig hefir því verið haldið fram í mín eyru, að eitthvað hafi verið gert af því af hálfu ýmsra sveitastjórna, að ýta undir slíkt. Nú er í þessu frv. gert ráð fyrir vissum ákvæðum, sem eiga að koma í veg fyrir þær búsifjar, sem einstök bæjarfélög kunna að hafa haft af þessum ástæðum, en úrræðið er það, að framvegis skuli gilda tveggja ára sveitfestitími fyrir fólk, sem hefir þegið af sveit áður. Það er að segja, að sá, sem flytur og þannig er ástatt um, skuli kostaður af þeirri sveit, sem hann flytur frá í 2 ár. Jafnframt er það svo tekið upp í l., að dvalarsveitin skuli greiða 1/3 kostnaðar af þurfamanni, en framfærslusveitin 2/3, og síðan bætt við, að ríkissjóður skuli ábyrgjast skaðlausa endurgreiðslu á þessum 2/3 hlutum. Þetta á, að því er virðist, að vera trygging þeirra héraða, sem nú um sinn hafa, að því er virðist, orðið fyrir búsifjum af völdum þessara ákvæða núgildandi l. En þetta ákvæði mun ekki á nokkurn hátt verða til að koma í veg fyrir það, að menn flytjist milli staða, eins og verið hefir. Það eina, sem þetta ákvæði getur haft í för með sér, er það að færa 2/3 hluta af framfærslukostnaði þessa fólks að verulegu leyti yfir á herðar ríkissjóðs. Ég þekki vel, hvernig er að innheimta fjárhæðir, sem ríkissjóður leggur út fyrir bæjar- og sveitarfélög. Það má segja, að slíkar fjárhæðir séu óinnheimtanlegar, nema hlutaðeigandi bæjarfélög eigi rétt á einhverjum fjárframlögum úr ríkissjóði. Í flestum öðrum tilfellum er þetta óinnheimtanlegt. Auk þess vofir sú stóra hætta yfir, að óbilgjarnir forráðamenn bæjar- og sveitarfélaga ýti fólki frá sér í trausti þess, að það komi á ríkissjóð að borga 2/3 hluta af framfærslukostnaðinum. Þetta eru engar getsakir, því það hefir komið fram, að þetta er reynslan í þessu efni, að hvert sveitarfélag reynir að koma af sér sem mestu. Ég tel því, að þetta ákvæði sé mjög varhugavert og ekki að neinu leyti til að bæta úr því ástandi, sem fyrir er. Ég hefi ekki flutt brtt. við frv. og það er vegna þess, að þetta mál hefir verið rætt og um það samið milli samstarfsflokkanna og meiri hl. stj. er því fylgjandi, að málið verði afgr. á þennan hátt.

Þá er það annað atriði, sem mig langar að minnast á. Það er viðvíkjandi 31. gr. Þar stendur, að ef styrkþega hefir verið ráðstafað af framfærslusveit til dvalar í annari sveit, þá skuli hann eiga rétt á framfærslu frá gömlu heimilissveitinni a. m. k. í 6 ár, en svo stendur í síðari málsgr. sömu gr.: „Dvalarsveit er skylt að greiða innflytjandanum nauðsynlegan styrk, ef hann óskar þess fremur en að hafa bein skipti við framfærsluhérað sitt, en skylt er framfærsluhéraði að endurgreiða þann styrk að fullu. Ber ríkissjóður ábyrgð á skilvísri greiðslu til dvalarsveitarinnar“. Ég hefi nú ekki getað séð af umr., að það beri nauðsyn til að hafa slík ákvæði sem þessi. Hvers vegna getur ekki þessi maður, sem hefir verið ráðstafað, haft bein skipti við framfærslusveitina og fengið beint frá henni það, sem hann þarf sér til framfærslu? Mér fyndist a. m. k. að hér væri hægt að komast af með ákvæði um, að dvalarsveit væri skyld að hlaupa undir bagga um stundarsakir, ef heimilissveitin brygðist skyldu sinni og sendi þurfamanni ekki nauðsynlega peninga. Ég er þess vegna líka mótfallinn þessu ákvæði, og það er meira að segja ennþá einfaldara að losa sig við þetta ákvæði en hitt, þó ég hafi gert það til samkomulags að flytja ekki brtt. við þetta.

Ég vil svo að lokum aðeins beina einni fyrirspurn til hæstv. félmrh. Það stendur hér í 38. gr.: „Hrökkvi tekjur jöfnunarsjóðs bæjar- og sveitarfélaga ekki til þess að endurgreiða fátækrajöfnunarféð, greiðir ríkissjóður það, sem á vantar, þar til full endurgreiðsla er fengin samkvæmt fyrirmælum þessarar gr.

Þegar l. um jöfnunarsjóð bæjar- og sveitarfélaga voru samþ., þá var gert ráð fyrir því, að l. hefðu ekki undir neinum kringumstæðum meiri útgjöld í för með sér en jöfnunarsjóðnum væri ætlað að hafa í tekjur, og ég álít sjálfsagt að hafa slíkt hámark fyrir þessu. Nú sé ég, að hér er gert ráð fyrir, að þetta hámark sé fellt burtu. Ég er á móti þessu, en mun þó ekki bera fram við þetta brtt. af ástæðum, sem ég hefi áður rakið, en vil bera fram eina fyrirspurn til hæstv. ráðh. um það, hvort það muni vera nokkur bætta á því samkvæmt fenginni reynslu, að jöfnunarsjóðurinn hrökkvi ekki til að greiða þetta. Ég vil sérstaklega vekja athygli á því í þessu sambandi, að það mun hafa verið rætt um það, að það mætti verja 100 þús. krónum af jöfnunarsjóðnum á næsta ári til að greiða fyrir skuldaskilum bæjar- og sveitarfélaga. Mér skilst því, að þetta fé muni dragast frá því, sem jöfnunarsjóðurinn hefir til umráða á næsta ári. Ég vil sérstaklega spyrja, hvort nokkur hætta sé á því, að jöfnunarsjóðurinn, að frádregnum þessum 100 þús. krónum og einnig að frádregnum kostnaði við eftirlit með bæjar- og sveitarfélögum, hrökkvi ekki fyrir fullri jöfnun, því að ef líkur eru til þess, að hann ekki nægi, þá sé ég ekki annað en að með þessu sé verið að auka útgjöld ríkissjóðs og verði þá að gera ráð fyrir því í fjárlögum.