03.04.1939
Neðri deild: 32. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 1319 í B-deild Alþingistíðinda. (2646)

Minning látinna manna

forseti (JörB) :

Áður en störf þessa fundar hefjast vil ég minnast nokkrum orðum látins merkismanns, sem átti sæti hér á Alþingi skamma stund, eða á einu þingi, fyrir fast að hálfri öld, 1891, og sat þá í neðri deild. Þessi maður er hinn þjóðkunni rithöfundur Indriði Einarsson, sem andaðist síðastliðinn föstudag, 30, marz, í hárri elli, nærri 88 ára.

Indriði Einarsson var Skagfirðingur að ætt, fæddur á Húsabakka í Skagafirði 30. apríl 18ál, sonur Einars Magnússonar, síðar bónda í Krossnesi, og konu hans Eufemiu Gísladóttur sagnaritara Konráðssonar. Hann útskrifaðist úr lærða skólanum í Reykjavík 1872, fyrir 67 árum, las síðan hagfræði við háskólann í Kaupmannahöfn og tók fyrstur íslenzkra manna próf í þeirri grein 1817. Að loknu námi fór hann til Skotlands til framhaldsnáms, en 1878 hvarf hann heim og gerðist fyrst aðstoðarmaður landfógeta um skeið, en frá 1. jan. 1880 var hann skipaður til þess að hafa á hendi hina umboðslegu endurskoðun landsreikninganna. Jafnframt því starfi sá hann um samningu og útgáfu landshagsskýrslna um 40 ára skeið og lagði með því hornstein að hagfræði Íslands, eins og merkur danskur hagfræðingur komst að orði um hann. Þegar stjórnin fluttist inn í landið 1904, var endurskoðun reikninga og samning landshagskýrslna lögð undir fjármáladeild stjórnarráðsins og Indriði Einarsson skipaður þar fulltrúi. Fimm árum síðar, 1909, var hann gerður að skrifstofustjóra þeirrar deildar og gegndi því starfl til 1918, en þá var honum veitt lausn frá embætti með fullum launum.

Indriði Einarsson hafði snemma áhuga á að koma peninga- og bankamálum landsins í viðunanlegt horf, studdi að stofnun Landsbankans og síðar Íslandsbanka, og á því eina þingi, sem hann sat, 1891 (fyrir Vestmannaeyjar), barðist hann fyrir stofnun innlends brunabótasjóðs, þótt það mál gengi eigi fram fyrr en nærri fjórðungi aldar síðar.

Þá er og þjóðkunn starfsemi hans í þarfir bindindismálanna. Var hann um langt skeið einn helztu forvígismanna góðtemplarareglunnar og hinn athafnamesti í því starfi. Eftir stofnun stórstúkunnar var hann ritari hennar 6 fyrstu árin, en stórtemplar á árunum 1897–1903.

Enn er eftir að minnast þess þáttar í æfistarfi Indriða Einarssonar, sem lengst mun í minnum hafður, en það er ritstörf hans, einkum leikritagerð. Tvö hin fyrstu leikrit sin, Nýársnóttina og Hellismenn, samdi hann á skólaárum sínum, hið fyrra 18 ára gamall, en hið síðara um tvítugt, og nutu þau bæði þegar mikilla vinsælda. Löngu síðar endursamdi hann bæði þessi verk sín. Af öðrum leikritum, sem eftir hann liggja, má nefna Sverð og bagal, Skipið sekkur, Dansinn í Hruna og Hinn síðasta víking. Auk þess hefir hann þýtt fjölda leikrita, einkum eftir Shakespeare. Fyrir fáum árum gaf hann út æfiminningar sínar, Séð og lifað, og kann þar frá mörgu að segja af löngum lífsferli.

Allt, sem Indriði Einarsson ritaði, var létt og lipurt, með ljóðrænu ívafi, samfara þeirri fjörlegu og góðlátlegu kímni, sem einkenndi þennan prúða og kvika mann. Hann stakk ekki svo niður penna í blaði, að mönnum þætti ekki unun að lesa, og jafnvel svo þyrkingslegt efni sem landshagsskýrslur eru tókst honum að gera að skemmtilestri.

Af starfi sínu að leikritagerð og áhuga fyrir leikmennt varð Indriða Einarssyni ljósara flestum mönnum fremur, hve örðugt slík mál áttu uppdráttar í svo fámennu og afskekktu landi sem Ísland er, þar sem svo fátt er að sjá og læra í þeim efnum. Hugsjón hans um þjóðleikhús hér á landi spratt af þessum skilningi hans og áhuga. Hann átti allra manna mestan þátt í að hrinda því máli í framkvæmd, og þótt svo hafi skipazt fyrir rás viðburðanna. að honum auðnaðist ekki að sjá þá stofnun taka til starfa, hefir hann þar reist sér veglegan minnisvarða.

Indriði Einarsson var léttur í spori og máli, íþróttamaður, hrókur alls fagnaðar, tiginn í framgöngu og skartmenni, ungur í sjón og raun langt fram á elliár.

Ég vil biðja háttv. þingdeildarmenn að votta minningu þessa þjóðkunna merkismanns virðingu sína með því að rísa úr sætum sínum.

[Allir þm. stóðu upp.]