18.04.1939
Sameinað þing: 6. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 1332 í B-deild Alþingistíðinda. (2662)

Stjórnarskipti

Atvmrh. (Ólafur Thors) :

Samningaumleitanir þær, er nú hafa leitt til þess, að mynduð hefir verið samsteypustjórn, hófust á öndverðu þessu þingi, og átti málið þó nokkurn aðdraganda. Mun mörgum þykja, sem óþarflega lengi hafi verið setið við samningaborðið, en þó munu flestir við íhugun viðurkenna, að miklum örðugleikum sé bundið að koma á samstarfi milli flokka, er svo lengi hafa verið á öndverðum meið og barizt harðvítugri baráttu, og sé því sízt að undra, þótt eigi hafi dregið til samkomulags fyrr en raun ber vitni um.

Innan þingflokks sjálfstæðismanna hefir frá öndverðu ríkt mikill skilningur á því, að vegna vaxandi örðugleika í atvinnu- og fjármálalífi þjóðarinnar og þess, hve horfurnar í nágrannalöndunum eru ískyggilegar, væri mjög æskilegt að fella um skeið niður flokkabaráttuna, svo þjóðin gæti sem bezt og mest sameinazt til varnar gegn aðsteðjandi hættum. Samningarnir hafa því af hendi Sjálfstæðisflokksins fyrst og fremst staðið um það, að hve miklu leyti hinir s:rmningsaðilarnir væru fáanlegir til þess að gera þær ráðstafanir, er að dómi Sjálfstæðisflokksins teldust heppilegastar til að bæta úr vandræðum líðandi stundar og verjast sem bezt áföllum í náinni framtíð.

Það liggur í hlutarins eðli, að þegar mynduð er slík samsteypustjórn, verða þeir, er að henni standa, að gera sér ljóst, að enginn einn flokkur má vænta þess að geta hrundið öllu í framkvæmd, er hann helzt kysi, og hefir þingflokkur Sjálfstæðismanna í þeim samningaumleitunum, er fram hafa farið, haft fulla hliðsjón af þessari staðreynd og byggt óskir sínar og kröfur á þeim grundvelli.

Í þeim samningi, er nú hefir verið gerður um stefnu og starf samsteypustjórnarinnar og hæstv. forsrh. f. h. ríkisstjórnarinnar hefir lýst, hefir verið tekið tillit til þessara óska Sjálfstæðisflokksins í öllum höfuðefnum, með þeirri einni undantekningu, er nú skal að vikið:

Það er kunnara en frá þurfi að segja, að Sjálfstæðisflokkurinn lítur svo á, að frjáls verzlun sé eitt allra helzta skilyrðið fyrir góðri efnahagsafkomu sérhverrar þjóðar. Flokkurinn hefir samt sem áður á undanförnum árum lagt samþykki sitt á margvíslegar kvaðir, er lagðar hafa verið á verzlunarfrelsið, en þá jafnan vegna þess, að hann hefir viðurkennt, að okkur óviðráðanlegar utanaðkomandi ástæður hafi knúið til þessa. Í löggjöf og framkvæmd hefir auk þess verið gengið lengra á þessu sviði en Sjálfstæðisflokkurinn hefir talið nauðsynlegt, og þá gegn mótmælum flokksins. Það er því auðskilið mál, að Sjálfstæðisflokkurinn telji miklu varða, að þegar í stað verði á þessu nokkrar breytingar, og myndi flokkurinn að sjálfsögðu hafa borið fram slíkar óskir við samningaborðið, gott eigi hefði fleira komið til en trú flokksins á frjálsa verzlun.

Meðal þeirra mála, er mest voru rædd við samningaumleitanirnar, var hin aðkallandi þörf til bráðra aðgerða til viðreisnar útvegi landsmanna, og hefir það mál nú verið leyst með Breytingu á skráðu gengi krónunnar og ýmsum ráðstöfunum í sambandi við þá skráningu.

Svo sem kunnugt er, voru skoðanir þingmanna Sjálfstæðisflokksins skiptar um það, hverja leið bæri að fara til þess að ráða bót á örðugleikum útvegsins. Stóðu 9 þingmenn flokksins að löggjöfinni um breytingu á skráðu gengi krónunnar, en hinir 8 vildu grípa til annara úrræða til úrbóta. Hinsvegar voru allir þingmenn flokksins á einn máli um það, að yrði sú leið farin, er að var horfið, myndi það þrennt nauðsynlegt: að hafður væri hemill á fjáreyðslu hins opinbera, jafnt ríkis sem bæjar- og sveitarfélaga, að reynt yrði að greiða nú þegar eða semja um greiðslu á áhvílandi skuldum, er fallnar eru í gjalddaga, en orðið hafa í vanskilum vegna gjaldeyrisskorts, og að svo fljótt sem auðið er yrði verzlunin gefin frjáls, til þess á þann hátt að lækka útsöluverð aðkeyptrar vöru, og var hið síðasta að margra dómi þyngst á metunum. Í því skyni að tryggja þetta óskaði Sjálfstæðisflokkurinn þess. að fá yfirráð innflutningshaftanna og gjaldeyrisverzlunarinnar, og lögðu 8 af þingmönnum flokksins svo ríka áherzlu á þá ósk, að þeir töldu rétt að gera uppfylling hennar að skilyrði fyrir þátttöku flokksins í stjórn landsins, en hinir 9 töldu, að eftir atvikum væri eigi rétt að hafna þeim boðum, er fyrir lágu, enda var þá lögð í hendur ráðherrum flokksins meðferð fjármála, skatta- og tollamála, ríkiseinkasala, bræðslustöðvar ríkisins, síldareinkasölunnar. sölusamlagsins, fiskmálanefndar, samgöngumálanna á sjó og landi, pósts og síma, iðnaðarmálanna, auk ýms annars.

Flokkurinn tók að lokum þá ákvörðun, að ganga til stjórnarsamvinnu á þessum grundvelli, þó með því að gera þá samninga um verzlunarmálin, er nú skal greina frá:

1. Innflutningshöftunum sé af létt jafnóðum og fjárhagur þjóðarinnar og viðskiptaástandið leyfir.

2. Þegar í stað verði gefinn frjáls innflutningur á nokkrum nauðsynjavörum.

3. Ráðherrar hafi gagnkvæman rétt til að fylgjast með öllu, er gerist hver í annars ráðuneyti, og skulu fjármálaráðherra og viðskiptamálaráðherra alveg sérstaklega hafa nána samvinnu.

Auk þessa hefir Sjálfstæðisflokkurinn falið ráðherrum sínum að gangast fyrir því, að tekin verði til endurskoðunar ýms atriði í löggjöf síðari ára og framkvæmd þessarar löggjafar, þar á meðal, að svo fljótt sem auðið er verði endurskoðuð framkvæmdin á úthlutun innflutningsleyfanna og meðferð gjaldeyrisins.

Að Sjálfstæðisflokkurinn tók þessa ákvörðun, stafar fyrst og fremst af því, að honum er ljóst. hversu mikla þýðingu það hefir fyrir traustið á ríkisstjórninni inn á við, og þá ekki síður út á við, að flokkurinn standi óskiptur að henni.

Sjálfstæðisflokknum er ljóst, að það er eigi bjart yfir afkomuhorfum þjóðarinnar nú, er hann tekur á herðar sér hluta af ábyrgðinni. Honum er einnig ljóst, að það er eigi vandalaust verk að sameina forna andstæðinga til átakanna. Honum er ljóst, að margir kjósendur flokksins ganga tregir til þessarar samvinnu, og honum er ljóst, að brugðið getur til beggja vona um árangur.

Sjálfstæðisflokkurinn mun gera sitt ýtrasta til að þessi samvinna megi takast og leiða til sem mestrar farsældar fyrir íslenzku þjóðina. Mun flokkurinn í þeim efnum ganga svo langt sem stefna hans og sannfæring frekast leyfir.