25.04.1939
Sameinað þing: 10. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 38 í C-deild Alþingistíðinda. (2763)

14. mál, síldarverksmiðjur ríkisins

*Erlendur Þorsteinsson:

Ég verð að segja, að málfærsla hv. þm. Ísaf. sýnir, að lítið er um rök hjá honum, þegar hann fer að halda því fram, að í hlutaskiptum fái sjómenn helminginn og útgerðarmenn helminginn. Hv. þingheimur mun hafa veitt því athygli, hvernig þessir útreikningar hans tóku sig út, þegar hann nefndi 16, 18 og 22 aura sitt í hverju orðinu. Þessi skattur, sem hann vill halda sig við, er kringum 78 þús., eða 16 aurar á mál. En svo er annað, sem þessi hv. þm. leyfir sér að halda fram, að þessar 78 þús. kr. séu allt gjöld, sem verksmiðjan greiði til bæjarins. Ég skal upplýsa þetta nánar. Ég skal taka sem dæmi vatnsskattinn. Hann er um 8 þús. kr., en svo fær verksmiðjan aftur fyrir vatnssölu til skipa 3–4 þús. Í öðru lagi er raforka, 8 þús. Í þriðja lagi er lóðaleiga, 6500, sem gildir samkv. sérstökum samningi, þegar hún yfirtók dr. Paul's verksmiðjuna. Þess má geta, að sú verksmiðja greiddi auk þess 3. hvert ár 20 þús. kr. í öldubrjótssjóð og 12–18 þús. í bæjarsjóð, svo að þingheimur getur séð, hversu mikils bærinn hefir misst, þegar þessi verksmiðja var tekin undir ríkisverksmiðjurnar. Í fjórða lagi má telja vörugjald af kolum, sem þær selja aftur bæjarbúum, 6 þús. kr. Í fimmta lagi dregst frá fasteignagjald, þegar gengið er út frá till. Ed., 10600 kr. Og í sjötta lagi má geta þess, að áður en sett voru l. um tekjur bæjar- og sveitarfélaga, þá greiddu síldarverksmiðjur ríkisins árlega í sjóvarnargarðsskatt 6500 kr. Þessar upphæðir eru 35600 kr., og verður þá eftir 43 þús. kr., sem verksmiðjurnar greiða til hafnarsjóðs og bæjarsjóðs, eða 8,2 aurar á mál. Svo er vert að athuga, hvort þessar verksmiðjur hafi ekki fengið fleira frá Siglufirði, sem réttlæti, að þær greiði 2 aurum meira en aðrar verksmiðjur. Hann hefir lagt fram 250 þús. kr. sem stofnfé, sem hefir verið afhent verksmiðjunum algerlega hafta- og kvaðalaust. Þetta hafa engar aðrar verksmiðjur fengið, þar sem þær hafa verið starfræktar. Í sambandi við vatnsskattinn, sem ég nefndi áðan, sem mun nema um 1000 kr., vil ég geta þess, að eftir því, sem ég hefi heyrt, þá munu verksmiðjur Kveldúlfs greiða 100 þús. kr. til að fá vatnsveitu, og er það helmingi meira, sem þessi verksmiðja verður að greiða í vaxtatillag, en ríkisverksmiðjurnar verða að greiða í vatnsskatt.

Í öðru lagi má geta þess, að mörgum mun finnast, að verksmiðjurnar greiði mikið vörugjald, en þess í stað fá þær frá bænum útskipunarbryggju. Ég er sannfærður um, að ef þær ættu kost á að sleppa við vörugjaldið, en yrðu að sjá sér sjálfar fyrir slíkri bryggju, þá mundu þær ekki vilja skipta, því að það er staðreynd, að síldarbryggjurnar á Siglufirði hafa þurft að endurnýjast 4.–5. hvert ár. Einnig má geta þess, að fyrir verksmiðjuna hefir verið byggður öldubrjótur, sem er mikið mannvirki, 650–700 þús. kr. Ríkissjóður hefir lagt fram um 200 þús., en hitt, 450–500 þús. kr., hefir hafnarsjóður lagt fram til verndunar bryggjunum á staðnum.

Ég hefi nú sýnt fram á með gildum rökum og tölum, að það, sem hér er um að ræða, er það, að nokkrir þm. vilja taka af Siglufjarðarkaupstað þann skatt, sem hann hefir nú l. samkvæmt. Það er alveg rétt, að hv. þm. Ísaf. hefir oft reynzt þeim velviljaður, en það réttlætir ekki að vilja nú taka aftur það, sem hann hefir vel gert.

Af því að nú er svo mikið talað um sparnað, vil ég beina því til þessara sparnaðarpostula, hvers vegna þeir hafi liðið stjórn verksmiðjanna að fara með fé sjómanna eins og gert hefir verið síðustu ár. Ég vil benda á, að áður en verðið er ákveðið til sjómanna, þá eru teknar 75 þús. kr. til verksmiðjunnar á Sólbakka, og nú hefir verið samþ. till. um að leigja verksmiðjuna á Húsavík, sem alltaf hefir verið með 12–15 þús. kr. tapi. Þetta gerir 90 þús. kr. Og svo eru þessir menn að fjargviðrast út af því, að verksmiðjurnar skuli eiga að greiða fyrir að fá til sinna afnota öll þau tæki og þægindi, sem Siglufjarðarkaupstaður lætur þeim í té.

Ég vil líka benda á, að verksmiðjurnar greiða til afgreiðslumanns Eimskipafélagsins 50 aura fyrir hvern síldarmjölspoka, sem Eimskip skipar út á Siglufirði, og einnig greiða þær 50 aura fyrir hvert lýsistonn. Eru þetta ekki líka útgjöld, sem hægt væri að spara? Væri ekki nær að hugsa til þeirra, áður en farið er að lækka þau litlu gjöld, sem verksmiðjurnar borga kaupstaðnum?

Ég skal svo víkja að frv. sjálfu með þeim breyt., sem Ed. hefir gert á því, og þeim sparnaði, sem hv. þm. Ísaf. vill hér gera, sem mun nema kringum 12600 kr., eða 2,7 aurum á mál. Ef miðað er við, að 4 þús. mál aflist að meðaltali á skip, þá er þessi upphæð 108 kr. á hvert skip. Af þessu fá sjómenn 36 kr., eða um 2 kr. hver maður. Mér er sem ég sjái ánægjubrosið á sjómönnum, þegar hv. þm. Ísaf. og hv. þm. Borgf. koma til þeirra og rétta þeim sinn krónukallinn hvor! Ánægjan yrði ekki minni, þegar þeir gætu sagt, að þessi króna væri tekin af mönnunum, sem vinna við verksmiðjurnar á Siglufirði þá óþrifalegustu vinnu, sem til er, tekin af því fé, sem bæjarsjóður átti að fá, svo að ekki væri hægt að veita börnunum sæmilega leikvelli, nægilega menntun eða halda hreinlætismálum bæjarins í réttu horfi.

Hv. þm. Ísaf. gat þess í tölu, sem hann hélt um þetta mál, að Siglufjörður hefði mikið á að leggja, þar sem 2 millj. kr. væru í veltunni í síldinni. Mér þykir einkennilegt, að þessi hv. þm., sem er manna kunnugastur öllu, sem snertir síldarmál, skuli halda þessu fram hér, í fyrsta lagi vegna þess, að þetta er ekki rétt, og í öðru lagi má benda á það, að útflutningsverðmæti er ekki sama og framleiðsluverðmæti. Hv. þm. veit, að í útflulningsverðmæti, sem síldin hefir, er mikið verðmæti, sem liggur í því innflutta efni, sem notað er við síldarverkunina.

Ég minntist á það í Ed. í gær, að það væri engu líkara en að Nd. vildi leggja Siglufjörð í einelti. Hafnarfjörður hefir fengið sérstakar tekjur af fargjöldum manna, sem ferðast milli Hafnarfjarðar og Reykjavíkur. Ísafjörður hefir fyrir nokkrum árum fengið heimild til fasteignaskatts. Vestmannaeyjar hafa heimild til vörugjalds, sem aðrir kaupstaðir hafa ekki. Akureyri hefir heimild til að leggja vörugjald á allar vörur, sem þangað flytjast. Loks þegar Alþingi finnur skyldu sína til þess 1937 að gefa Siglufirði nokkurn þátt í fasteignaskattinum, þá finnur Alþingi köllun nú hjá sér til þess að taka þennan litla tekjustofn af bænum aftur. Ég vænti því, að hv. þingheimur sjái, að það er rangt að samþ. þetta frv. óbreytt eins og það kom frá Ed.

Það má kannske segja, að fátt er svo með öllu illt, að ekki boði nokkuð gott. Um sama leyti í fyrra voru þeir hv. þm. Borgf. og hv. þm. Ísaf. í hárinu hvor á öðrum. Annar vildi geyma hinn í gamalli síldarþró, og hinn átti að geymast í hrútakofa. Nú hafa þeir náð saman, þessir hv. þm., og ég vildi óska, að þeir í framtíðinni flyttu mál, sem meira vit væri í og ekki eins full af illvilja í annara garð.

Hv. þm. Ísaf. segist hafa verið Siglfirðingum velviljaður fram að þessu, en verið geti, að ekki verði svo í framtíðinni. Ég vona, að þetta sé ekki hótun, heldur haldi hann áfram sama góða vilja og hingað til, en ef svo er ekki, þá verð ég að álíta, að lognmolluloftið í hrútakofanum hafi haft slæm áhrif á hann, þegar hann hleypti hv. þm. Borgf. út.

Þetta mál virðist vera sótt af nokkuð miklu kappi, og má gera ráð fyrir, að þessi brtt. verði samþ., ef meiri hl. fæst fyrir henni. En til þess að samþ. frv. skilst mér, að ? hlutar þm. þurfi að fylgja því. Því er ekki annað að gera fyrir okkur, sem viljum gefa Siglufirði þennan skatt, en að fella frv., og hefði þá kaupstaðurinn sömu réttindi til álagningar á verksmiðjurnar og áður. Nú höfum við sýnt vilja okkar til að ganga til samkomulags með því að vilja ganga inn á, að gjaldið verði 0,7%. Ef þetta frv. verður fellt, þá mun ég og mínir flokksmenn í samráði við hæstv. félmrh. og atvmrh. breyta þeirri reglugerð svo, að aðeins verði lagt á 0,7%, vegna þess að við viljum viðurkenna, að síldarverksmiðjurnar eigi að borga minna en þær gera eftir núverandi fyrirkomulagi. Við viljum komast að samkomulagi í málinu og við viljum alltaf standa við það, sem um hefir verið samið.