23.12.1939
Efri deild: 92. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 83 í C-deild Alþingistíðinda. (2805)

152. mál, bráðabirgðaráðstafanir

*Páll Hermannsson:

Í sambandi við 5. gr. frv. og brtt. þær, sem fram hafa verið bornar við þá gr., vildi ég segja nokkur orð. Þessi gr. gerir ráð fyrir því, að afnotagjald af útvarpstækjum, sem ekki eru straumtæki, lækki úr 30 kr. í 20 kr. — Þessi tæki eru yfirleitt í sveitunum, með því að flestir kaupstaðir og kauptún hafa einhverskonar rafstraum. Nú hafa verið færð rök að því, bæði með og á móti, hvort þeir, sem í sveitum búa, þurfi þessarar lækkunar frekar við en verkamenn í kaupstöðunum. Ég er að gera mér vonir um það, að þeir þurfi þess kannske ekki frekar, en það, sem veldur því, að ég fylgi þó þessari gr. frv., er, að mér er persónulega kunnugt um, að þeir hafa miklu minni not af útvarpi en kaupstaðarbúar. Víða er langt til rafstöðva og erfitt að fá batteríin hlaðin, og þótt menn vildu láta hlaða mörg í einu, afhlaðast þau við geymsluna. Þegar þessir menn eru þannig oft vikum og mánuðum saman útvarpslausir, eiga þeir meiri rétt á ívilnun á afnotagjöldum en aðrir útvarpsnotendur. Ennfremur má taka tillit til þess, hve erfitt er að fá gert við útvarpstæki í sveitum, ef þau bila.

Ég játa, að það geti verið álitamál, hvort á nokkuð að lækka afnotagjöldin nú, en verði það gert, finnst mér eðlilegast að ívilna þeim, sem ekki hafa straumtæki. Ég get því ekki greitt atkv. með brtt. þeim, er fram hafa komið við frvgr.