03.04.1939
Neðri deild: 33. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 137 í B-deild Alþingistíðinda. (281)

69. mál, gengisskráning og ráðstafanir í því sambandi

*Ísleifur Högnason:

Það kemur æ betur í ljós, að formælendur þessa frv. eru í vafa um, hvort það nái tilætluðum tilgangi.

Frv. fylgir skýrsla mþn., sem kosin var á Alþ. 1938, til þess að athuga hag og rekstur togaraútgerðarinnar Ég hefi haft lítinn tíma til þess að athuga þessa skýrslu, en það, sem ég strax rek augun í, er, að á þeim 5 árum, sem skýrslan nær yfir, kemur í ljós, að kostnaður við framkvæmdastjórn og skrifstofuhald hefir ár frá ári farið hækkandi, en aftur á móti hefir kaup háseta heldur lækkað. Laun framkvæmdastjóra og skrifstofufólks voru árið 1937 7936 kr. að meðaltali á skip. Þess ber líka að gæta, að framkvæmdastjórnarkostnaður kemst upp í 160011 kr. á hvert skip.

Nú er það mála sannast, að þessar skýrslur ber

ekki að taka sem algerlega heilagan sannleika. Þær eru ekki í samræmi við eldri skýrslur um sama efni. Það leiðir vitanlega af óvönduðum vinnubrögðum, og þó versna vinnubrögðin, þegar út úr þeim á að draga rök fyrir gengislækkun. Álíka aðferð er það líka, þegar ýmsir hv. þm. vilja telja sér til tekna till. Benjamíns Eiríkssonar, þar sem þær till. um verðfelling krónunnar eru aðeins einn liður í viðtækum ráðstöfunum, og er þar m. a. gert ráð fyrir að losa þjóðina við innflutningshöftin um leið.

Í þessu frv. er gengið lengra en nokkurn tíma áður hefir verið gengið hér á Alþ. í því að svipta verkalýðinn frelsi. Bann frv. gegn kauphækkunum er í eðli sínu stjórnarskrárbrot, og alþýðan í landinu getur ekki litið á það nema sem lögleysu.

Um gengislækkun vil ég segja það, að hún er óréttlátasta leiðin til þess að rétta við hag útgerðarinnar. Samkv. skýrslu, er hér liggur fyrir, mun 1/3 hluti útgerðarfyrirtækja græða árlega, og sýnir það, að sá hluti togaraútgerðarinnar, sem rekinn er á skynsamlegan hátt, þarf engan styrk til þess að geta haldið áfram rekstri sinum. Slík útgerðarfyrirtæki gefa skýrslu aðeins til þess að geta náð í ennþá meiri gróða á kostnað allra launþega í landinu. Talið er, að til þess að jafna töp hinna 30 togara muni þurfa um 750 þús. kr. Þetta frv., ef að l. verður, mun orsaka dýrtíð eða skerðingu á kaupgjaldi, sem nemur 3–6 millj. kr. árlega. Það eru fleiri en útgerðarmenn, sem hafa ágóða af þessari gengislækkun. Hér ber þess að gæta, sem ekki hefir verið tekið fram hér í umr. áður, að við það að minnka verðgildi krónunnar raskast öll verðmæti landsmanna, og skuldir í bönkum falla að sama skapi sem krónan lækkar. Það verður hægara að greiða þær upp í innlendum gjaldeyri, og inneignir manna lækka líka. Þetta snertir ekki aðeins alla launþega, verkafólk og aðra, sem hafa samskonar aðstöðu, heldur einnig þá, sem eiga peninga á vöxtum í bönkum eða sparisjóðum. Afstaða síðasta ræðumanns til þessa máls er skiljanleg. Hann kvað skulda nokkrar millj. kr., og þetta frv. lækkar skuldir hans svo millj. kr. skiptir. Þá er það engin furða, þó að hann geti lýst ágæti þessa frv. fyrir samherjum sínum, hann, sem er potturinn og pannan í því. að þetta frv. er komið fram hér á Alþ., Þetta mál var til umr. á fyrra þinginu 1937, og flm. þess nú hafa ekki séð ástæðu til að gera neinar verulegar breyt. á því frá því, sem það var flutt þá. Hv. 5. þm. Reykv. (EOl) kom með sláandi dæmi um það, hvernig þm. Alþfl. hafa svikið sína kjósendur með því að gerast samábyrgir um að flytja þetta frv. hér á Alþ. En til frekari áréttingar ætla ég, með leyfi hæstv. forseta, að taka upp nokkrar tilvitnanir í ræðu þm. A1þfl., þegar þetta mál var flutt á fyrra þinginu 1937, og ég hefi ekki heyrt borin fram nein rök, er styðja þá kenningu, að ástandið hafi breytzt síðan. Sigurður Einarsson segir:

Alþfl. hefir enga dul dregið á afstöðu sína til þessa máls. Hann er því hreinandvígur. Til þess liggja þau rök, er nú skal greina:

1. Krónulækkunin hlyti að leiða til þess, að öll verkamannasamtök landsins mundu rísa upp

sem einn maður og krefjast kauphækkunar sem lækkuninni nemur.

2. Krónulækkunin myndi þannig leiða til stórfelldra deilna innanlands, sem myndi verka lamandi á atvinnulif og alla framleiðslu landsmanna.

3. Krónulækkunin myndi ennfremur mjög verða til þess að auka dýrtíðina, spenna upp verð á öllum útlendum varningi, sem mjög mundi íþyngja öllum almenningi við sjávarsíðuna.

4. Sú dýrtíðaraukning lendir einnig þegar í stað óhjákvæmilega á bændum, vegna þess að þeir eru stærri kaupendur á erlendum markaði en þeir eru seljendur.

5. Krónulækkunin stefnir til alvarlegs hruns á innanlandsmarkaðinum, sem tekur nú ca. 2/3 af allri landbúnaðarframleiðslunni og geldur fyrir hana betra verð en unnt er að fá á útlendum markaði“.

Í þessari ræðu tekur Sigurður Einarsson það skýrt fram, að gengislækkun hljóti að fylgja aukin dýrtíð og vinnudeilur, og sé því sú leið mjög varhugaverð. „Með gálauslegum gengislækkunum og stöðugu brölti með gengi íslenzku krónunnar er verið að mana út í vinnustríð og kaupdeilur, ekki einungis verkamenn, heldur og alla starfsmenn, svo að vinnufriðnum í landinu yrði stór hætta búin, og er þetta frá þjóðhagslegu sjónarmiði því stór ábyrgðarhluti og hið mesta glapræði.“ Ennfr. segir Sigurður Einarsson: „Með þessu er verið að gera krónuna, hinn sameiginlega verðmæli landsmanna, að nokkurskonar flæðarmús, sem dregur gullið undir nokkra örfáa, en aðrir verða að sama skapi fátækari. Kjörorð Alþfl. er „hin heiðarlega króna“, sem er réttlátur verðmælir milli landsmanna, ekki óheiðarleg króna, sem svíkst aftan að yfirgnæfandi meiri hluta þjóðarinnar og gerir afstöðu hans ennþá verri, krónan, sem er dulbúin þjónn örfárra einstaklinga til þess að bæta við þann, sem hefir, og taka frá þeim, sem ekki hefir.“

Þetta var kenning Alþfl. 1937, en hver er kenning hans nú?

Svo ætla ég, með leyfi hæstv. forseta, að lesa upp nokkrar greinar úr ræðu hv. 6. landsk. (EmJ). Hann vitnar þar í álit og umsagnir hins sænska hagfræðings Eriks Lundbergs, er var fenginn hingað til að kynna sér fjármálaástandið hér á Íslandi og hefir látið í ljós álit sitt á því og gengismálinu sérstaklega. Álit Lundbergs er á þá leið: „Segja má, að í gengislækkun íslenzkrar krónu sé ekki annað falið en há tollvernd, þar sem tollurinn renni þó ekki í ríkissjóð, heldur greiðist útflytjendum.“ Þá segir hann á einum stað í áliti sínu til skipulagsnefndar atvinnumála: „Eins og ástandið er nú á Íslandi, mundu, svo framarlega sem ríkið skærist ekki í leikinn, allar nýbyggingar og ný fyrirtæki vera nærri óhugsandi, skattar mundu lækka og launalækkanir mundu verða knúðar fram. Að öðrum kosti mundi íslenzka krónan lækka um 20–30%, til þess að framleiðslan til útflutnings geti borið sig og verð innflutningsins hækki.“ Svo bætir hann við: „En hvorug þessi leið getur komið til greina, bæði vegna þess, að þetta er allt of mikil blóðtaka fyrir þjóðina félagslega skoðað, eins og reynsla annarra landa hefir sýnt og sannað, og líka vegna þess, að búast má við því, að ef lagt er í ýms ný fyrirtæki til framleiðslu (nýja togara, verksmiðjur til þess að vinna úr útlendum hráefnum o. s. frv.), mundi það laga fjármál landsins út á við, þegar til lengdar lætur.“

Þetta er í stuttu máli umsögn Lundbergs. Hann viðurkennir að vísu, að hin raunverulega skráning íslenzku krónunnar sé of há, en álítur samt, eins og við sósíalistar, að gengislækkun myndi alis ekki bæta úr ástandinu, heldur myndi hún gera illt verra.

Nú ætla ég ennfremur, til þess að sýna þá stefnubreytingu eða gleymsku, sem átt hefir sér stað hjá þm. Alþfl., að lesa upp dálítinn kafla úr ræðu hv. þm. Ísaf. (FJ), er hann flutti hér á fyrra þinginu 1937, um viðreisn sjávarútvegsins. Kaflinn, sem ég ætla að lesa, með leyfi hæstv. forseta, er á þessa leið:

„Frv. þau, sem hér hafa verið til umr., svo sem frv. um uppgerð Kveldúlfs, breyt. á landsbankalögunum og svo þetta frv., eru einstakir liðir í þessari starfsskrá. Það er því helber uppspuni, að þessi frv. séu búin til af Alþfl. hálfu sem kosningafrv., þvert á móti. þau eru kröfur um viðreisn atvinnulífsins við sjávarsíðuna, kröfur þessara 13 þús. manna og kvenna, sem eru skipulögð í Alþýðusambandi Íslands. Hræðsla Íhaldsins við þessi frv. er skiljanleg, þegar athuguð er framkoma þess í sjávarútvegsmálum á siðari árum, þegar það er athugað, að Íhaldið hefir á sinum tíma og hefir raunar nú bankana alveg eins og þeir væru þeirra eigin eign, vilja ausa úr þeim fé eins og þeir hafa gert. Það hefir notað gjaldeyrinn, ekki til þess að mynda varasjóð fyrir útgerðina, ekki til þess að endurnýja togarana, heldur látið þá grotna niður, svo að þeir eru nú, eins og form. Sjálfstfl. lýsti þeim, ryðkláfar og fúaduggur. Fé það, sem komið hefir inn og átt hefði að nota sem varasjóð, hefir Íhaldið notað í allt annað, sér til persónulegrar eyðslu- og bílifis, og til að byggja sumarbústaði. og a. m. k. í einu tilfelli notað í búskap upp í sveit, búskap, sem alls ekki getur borið sig, eins og hann er rekinn. Það er þess vegna von, að Íhaldið skelfist, þegar það sér, að fram eru komnar frá Alþfl. alvarlegar till. um alhliða viðreisn sjávarútvegsins. ... Hitt vildi Alþfl. alls ekki aðhyllast, þá till., að leggja 3½ millj. kr. til skuldaskila togara til þess að láta eigendur togaranna halda áfram með það fé, sem komið var í þeirra rekstur, draga það út úr rekstrinum og leggja það í hallir, búskap uppi í sveit eða beinlínis nota það í óhæfilega eyðslu handa sjálfum sér.“

En skyldu þm. Alþfl. vera svo gleymnir, að þeir muni ekki eftir þessum atriðum? Vitanlega situr allt við sama í þessum efnum nú sem þá, stórútgerðarfyrirtækin blóðsjúga sína eigin útgerð, forstjórar þeirra nota ágóðann alls ekki til þess að halda togurunum við, heldur til þess að byggja sér skrauthýsi. Þannig hafa forstjórar útgerðarfyrirtækjanna lagt fé í allt annað en vera átti.

En nú virðist þetta allt saman hafa blátt áfram gleymzt hjá hv. þm. Ísaf. Hann er kominn í sæng með hv. þm. G.-K. Það er meining þm. Alþfl. að láta hv. þm. G.-K. halda áfram uppteknum hætti. Hann (FJ) talaði um, að það yrði að gera kröfu til þess, að þessir menn færu betur að ráði sinu en þeir hafa gert hingað til, en það verður ekki gert með því að lögfesta slíka skerðingu sem þessa á rétti verkalýðsins og láta þá menn fara áfram með fjárráðin, er fara illa með fé landsmanna.

Úrræði þessara Alþfl.-foringja er að hneppa verkalýðinn í fjötra, ef með þarf. Næsta sporið verður það, að koma á ríkislögreglu. Þeir munu ekki fara í grafgötur með það, að þeir skirrast ekki við að beita ofbeldi til að koma vilja sínum fram, og ef þeir, sem hafa stj. landsins á hendi, telja sig þurfa ríkislögreglu til að halda verkalýðnum í skefjum, munu Alþfl.-foringjarnir verða reiðubúnir til þess að styðja hana.

Það hefir þó komið fram ein glóra í þessu frv., en hún er mjög lítil. Upp í þetta frv. er tekin till. um breytt launakjör skipstjóra á togurunum. Þetta er að vísu ekki stórt atriði, en sá liður þessa frv. er þó það eina, sem við sósíalistar getum fallizt á.

Samkv. yfirlýsingu hv. þm. Ísaf. mun vera fengið loforð fyrir því að kaupa hingað nýjan togara. En það er eitt af samningsatriðunum og líka það, sem hann sagði um, að svonefndur meiri hl. Alþfl. væri með þessu frv. Það er altalað, að Alþfl.-foringjarnir eigi að fá þennan nýja togara, og er það því ekkert undarlegt, þótt þeir hafi gengið í lið með hv. þm. G.-K. í þessu áhugamáli hans.

Nokkrir af þeim þm., sem hér hafa tekið til máls, hafa talað á þá leið, að aðeins væri um tvær leiðir að velja til að hjálpa útgerðinni, gengislækkun eða útflutningsverðlaun. Þeir virðast ekki vita neitt um það, að sósíalistaflokkurinn hefir lagt fram hér á Alþ. 4 eða 5 frv. til viðreisnar sjávarútveginum og forða honum frá því að þurfa að draga saman rekstur sinn. En Alþ. hefir hundsað öll frv., sem við sósíalistar höfum borið fram, nema till. um breyt. á launakjörum togaraskipstjóra. En það einkennilega er, að þeir hafa gengið framhjá þeirri till. okkar, sem er eina rétta leiðin í þessu, sem sé að strax verði gert yfirlit yfir hag og rekstur útgerðarfyrirtækja og útgerðin tekin úr höndum þeirra, sem ekki kunna að reka hana og á undanförnum árum hafa dregið sér fé frá útgerðinni, stöðvað hana eftir því sem þeim sýndist og orsakað núverandi ástand.

Hinir ráðandi flokkar hér á Alþ. hafa ekki getað áttað sig á þessum till. okkar sósíalista. Menn geta hlegið að okkur og gert grín að okkur fyrir þessar till. og talað um, að með till. okkar um að stofna allskonar ráð vildum við stofna „sovét“ hér á Íslandi. En nú ber þess að gæta, að flestar af þeim nefndum, sem alþfl. hefir sett á stofn eða lagt til að settar yrðu, hafa einmitt verið kallaðar „ráð“. Jafnvel Sjálfstfl. hefir borið hér á Alþ. fram frv. um „fiskiráð“. og þar að auki mun „ráð“ alls ekki vera rétta skýringin á rússneska orðinu „sovét“.

Það má segja um Alþ. það, er nú situr, að það hefir verið aðgerðarlítið fram að þessu, og almenningur hefir kvartað yfir því, að þingið gerði ekki neitt, og það litla, sem það gerði, væri aðeins til ills eins. Það væri þannig skipað mönnum, að það, sem það gerði, yrði alþjóð til bölvunar. Þessi spádómur er nú að rætast, ef Alþ. ber ekki gæfu til þess að hrinda þessu lagafrv. Ef það heldur enn lengra áfram á þeirri braut, þá hefir það fyrirgert rétti sinum til að halda áfram störfum, og ef Alþ. ekki samþ. vantraust á núv. stj., mun þjóðin sjálf innan skamms gera það.