04.04.1939
Neðri deild: 36. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 101 í C-deild Alþingistíðinda. (2845)

43. mál, tekjuskattur og eignarskattur

*Frsm. meiri hl. (Sigurður Kristjánsson):

Það er mesta firra, að svipað standi á um aðra skattgreiðendur og sjómenn í þessu efni. Það stendur ekki svipað á um nokkra menn í þjóðfélaginn að þessu leyti. Það er vitað mál, að þeir, sem eru á sjónum, hafa margir hverjir ekkert gagn af að hafa frítt fæði, vegna þess að þeir þurfa svipuðu til að kosta heima hjá sér. Heimilin eru forsjárlítil mikinn hluta ársins. Menn þekkja, að miklu varðar, hvort húsbóndinn er heima og getur aflað til heimilisins eða er sífellt fjarverandi, auk þess sem þessir menn hafa að ýmsu öðru leyti við svo kuldaleg kjör að búa, þar sem þeir verða að afla sér og sínum brauðs sem útlagar frá heimilum sínum, að ekki er óeðlilegt, að tillit sé tekið til þess í skatti eða öðru. Það hefir verið bent á áður, að svipað stæði á með vegavinnu, en því er ekki þannig varið, því að oftast stendur svo á, að vegavinnumenn vinna í eða nálægt sinni sveit og eiga því betra með að sinna sínum heimilum og geta oft fengið fæði heiman frá sér. Ég held, að þetta sé ekkert nema krókaleiðir eða refilstigir, sem hv. þm. N.-Þ. er að fara hér, þegar hann vill vísa þessu frv. frá. Hann veit vel, að sú n., sem hann vill senda málið til, mun ekki sinna því. Þetta eru því aðeins undanbrögð frá því að vilja koma beint og hreint að málinu. ... Það er því vægast sagt hneykslanlegt, að nefnd þessari skuli hafa dottið í hug að ætla sér að smyrja enn stórlega á þá tolla, sem fyrir eru. Það er því ekkert leggjandi upp úr till. hennar. Ég óska því, að frv. verði samþ. óbreytt.