05.12.1939
Neðri deild: 75. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 206 í C-deild Alþingistíðinda. (2998)

122. mál, verkstjórn í opinberri vinnu

*Pétur Ottesen:

Ég held, að það hafi komið nægilega skýrt fram hjá mér við 1. umr., að ég áliti þetta frv. fullkomlega óþarft. Jafnframt því, sem ég sagði, að það væri óþarft, benti ég á gallana á því. Það er ekkert ósamræmi í því, að ég segðist vera á móti því og að ég benti á gallana; slíkt er, eins og menn þekkja, algengt, að þannig sé hagað umr. um mál.

En ég ætla, að það sé nægilega ljóst af því hvernig frv. er lagt fram, hver tilgangurinn var með því. Það var ekki einasta sá rammi, sem hér er markaður, heldur einnig við búrekstur. Það er beinlínis tekið fram hér, að búrekstur sé undanskilinn. Ég skil ekki, að vegamálastjóri hafi verið sérstaklega að gera kröfur til þess, hvernig ætti að haga búrekstri manna,eða hvaða menntun þeir ættu að hafa, sem stunduðu þetta. Það er sýnt, að það er undan þeirra rifjum, verkstjóranna sjálfra, runnið, þótt ef til vill sé einhver umsögn frá vegamálastjóra, enda kemur hún fyrst frá vegamálastjóra, þegar verkstjórarnir hafa snúið sér til hans. Vegamálastjóri hefir aldrei haft framkvæmd um þetta mál, en fylgist aðeins með þessum óskum eftir að þær eru komnar frá öðrum aðilum. Mér er fullkomlega kunnugt um það á fjölmörgum árum, að hann hefir aldrei kvartað um framkvæmdir vegamálanna af því, að ekki væri til nóg af verkstjórum.

Þetta frv. er af sömu rótum runnið eins og margt í þessari grein hér á landi. Menn færu sig upp á skaftið og fá löggjafann til þess að skapa sér réttindi, og er ekkert eðlilegra, þegar svo langt gengur, en að aðrir menn reyni líka að færa sig upp á skaftið við Alþingi og fá sett lög, sem tryggi þeim sérréttindi. Því er komið svo fyrir, að það er flutt á þeim grundvelli, að það sé fyrir almenning til öryggis, en aðaltilgangurinn er að skapa sérréttindi fyrir stétt, sem gengur á rétt alls almennings, þegar farið er að beita iðnaðarlöggjöfinni svo, að ekki má flytja efni á milli staða. Ef t. d. einhver hér í Reykjavík vill kaupa glugga í Hafnarfirði, þá gera þeir verkfall í Reykjavík, og fæst ekki að nota þessa glugga. Svona er farið að nota þessa iðnaðarlöggjöf, og hvernig þetta er í framkvæmdinni að öðru leyti, sést á því, að nú er svo komið, að iðnaðarmenn eru farnir að ganga kaupum og sölum. Það er nokkurskonar mansal, sem fer fram. Mér var sagt frá því, að ein raftækjaverzlun var seld öðrum manni, og varð hann að láta nemanda, sem verzlunin hafði, fylgja með, vegna þess að hann mátti ekki setja sig niður upp á eigin hönd. Iðnnemarnir voru bara seldir með fyrirtækinu. (GÞ: Það hefir verið einskonar þrælasala). Já, það er alveg rétt, þetta er dálítið í áttina til þrælasölu. Það er fullkomin ástæða fyrir Alþ. að láta ekki ginna sig út á slíkar brautir, eins og gert var með setningu iðnlöggjafarinnar.