14.03.1939
Neðri deild: 19. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 227 í C-deild Alþingistíðinda. (3053)

31. mál, eignarnám lands í Ölfusi til nýbýla

*Eiríkur Einarsson:

Ég get fallizt á það, sem hér hefir verið sagt af hálfu flm. þessa frv., að þarna hagar vel til um framræslu og samgöngur, og að því sé ekki óeðlilegt, að komið sé auga á þennan stað til þess, sem frv. fer fram á. Það er vitað mál, að þegar land hefir verið tekið til framræslu, og þá einnig þarna fyrir austan, þá hefir orðið til megintrafala, að skilyrði hafa ekki verið öll hin æskilegustu. Á ég þar sérstaklega við framræsluskilyrði eins og eru á landsvæðinu upp frá Eyrarbakka. Ef þess vegna á að leggja í slíka ræktun, þá virðist þarna vera á líklegan stað bent, þó að líklega megi um það deila, hvort annar staður, eins og þm. 2. þm. Árn. benti á einhverstaðar sé hentugri. En ég veit ekki, við hvaða stað hann á; þeir eru margir til góðir til slíkrar ræktunar þarna fyrir austan.

Það var þó ekki þetta almenna um málið sem kom mér til að standa upp, heldur hitt, að mér finnst, eftir því sem orð hafa fallið hér um þetta mál, þá halli þar nokkuð sitt á hvorn veg frá því, sem er það réttlátasta sjónarmið. Það er tekið fram í frv., að ekki skuli gengið svo nærri viðkomandi jörðum með eignarnáminu, að ekki sé nægilegt land þar eftir til þess að rekinn verði þar lífvænlegur búskapur. Hinsvegar hefir komið fram af hálfu hv. síðasta ræðumanns, 2. þm. Árn., það álit, að þarna yrði ekki nema um 2–3 nýbýli að ræða á því svæði, sem þetta eignarnám tekur til. Ég álít, að ef þarna verður álitið hentugt land til þess að koma þar á fót samvinnubyggð eða öðru stórvirki, þá verði þessi býli, sem þarna eiga land, að skoðast sem aukaatriði í því sambandi. Ef landið er gott til þessara hluta, þá á að miða við þetta fyrirtæki fyrir landið í heild fyrir framtíðina, en ekki það, hvernig tilviljunin hefir skipað landamerkjum og eignarrétti þarna. Enda mun nú svo háttað um sumar þessar jarðir, sem þarna er um að ræða, að þær eru miður byggðar. svo að það væri því ekki miklu fyrir að fara. þó að ein þeirra eða svo félli inn í þetta sambyggingakerfi. Það er nú svo víða um jarðir. að það af slægjulandi þeirra, sem nytjað er, er bara túnbleðill, sem oft er ekki stór, og svo handahófsblettir úti um engjar.

Eitt af því, sem mælir með því að reisa þarna samvinnubyggð, er það, ef möguleiki er fyrir því, að til þessa staðar megi leiða hita frá Hveragerði. Og þá er því líklegra, að svo megi verða, sem fleiri býli er um að ræða og því stærra sem hverfið er, sem stofnað er til. Það væri vitanlega fjarstæða ein að hugsa sér að leiða þannig hita til aðeins 2–3 býla þarna, þá reist væru. Þegar svo miðað er við hið blómlega kauptún, sem er að vaxa upp þarna nálægt, og landslag þarna og framfærsluskilyrði, þá sýnist, að þetta svæði mundi verða ákaflega skemmtilegt, þegar búið væri að rækta þetta umtalaða land.

Ég álít, að þær jarðir víðsvegar um landið. sem hafa skilyrði til að vera byggðar áfram en þar sem lítil geta er hjá ábúendunum eða eigendunum til að byggja upp hjá sér, eigi að ganga fyrir, þannig að til þess að byggja upp á slíkum jörðum eigi hið opinbera að veita styrk En ég hefi hinsvegar ekkert við það að athuga, að þetta mál, sem frv. fjallar um, sé rannsakað og að því sé stefnt sem líklegu máli; og ef á annað borð á að reisa samvinnubyggð, þá álít ég þennan stað með þeim líklegustu og skemmtilegustu til þess.