18.12.1939
Neðri deild: 86. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 244 í C-deild Alþingistíðinda. (3098)

51. mál, jöfnunarsjóður aflahluta

*Frsm. (Sigurður Kristjánsson):

Ég vil gefa þá skýringu út af þessari skrifl. brtt., að þetta mál var rætt í sjútvn. og talið, að gersamlega þýðingarlaust væri að afgr. frv., ef slíkt ákvæði væri sett inn í það. Þeir, sem hreyfðu þessu í n., féllu því alveg frá því, því að málið er sama sem dautt, ef þetta kemur þar inn, því að það er bending til þingsins um að setja ekki fjárveitingu í þessu skyni í fjárlög. Þetta var rætt í n., og þykir mér því þessi framkoma hv. þm. Barð. merkileg, og ég vil segja honum, að það er gersamlega ósæmilegt fyrir hann að koma nú þannig aftan að máli, sem hann er þó meðflm. að. Ég skil ekki, að hv. þm. skuli vilja vera fundinn í slíku, því að þetta er mjög ósæmilegt af manni, sem hefir starfað í n. án nokkurs ágreinings þar.

Ég vil af þessum ástæðum mælast mjög eindregið til þess, að hv. þm. taki ekki undir svona aðferð, svona óheilindi, eða vilji vera fundnir í því að bana því máli, sem þeir hafa þó áður lagt samþykki sitt á.